Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Allt bendir nú til þess að rússneskt loftvarnakerfi hafi grandað farþegaþotu flugfélags Aserbaísjan sem fórst á jóladag, miðvikudaginn 25. desember síðastliðinn. Stél og vinstri hlið vélarinnar bera skýr merki þess að flugskeyti hafi sprungið í námunda við þotuna. Af þeim 67 sem um borð voru eru minnst 38 látnir. Eftirlifendur eru sumir lífshættulega slasaðir og eru minnst tvö ung börn í þeim hópi.
Farþegaþotan var á leið frá Bakú í Aserbaísjan til Grosní í Tsjetsjeníu þegar upp kom skyndilegt neyðarástand. Var þotan þá skammt frá áfangastað sínum. Athygli vekur að í stað þess að lenda þar ákváðu flugmenn fremur að fljúga laskaðri þotunni yfir Kaspíahaf og reyna lendingu í Aktau í Kasakstan. Þegar þotan átti einungis fáeina kílómetra eftir að flugvellinum missti hún hæð og féll harkalega til jarðar. Þar brotnaði hún upp, valt og varð að endingu nær alelda. Þeir sem komust lífs af virðast allir hafa setið í öftustu sætum vélarinnar.
Stjórnvöld í Rússlandi segja flugmenn hafa reynt lendingu í Aktau vegna erfiðra veðurskilyrða í Grosní. Vestrænir fréttamiðlar hafa sumir sagt flugmenn ekki hafa fengið heimild til að lenda á rússnesku landsvæði í kjölfar neyðarástandsins um borð. Flugritar vélarinnar hafa þegar fundist og munu þeir vafalaust varpa ljósi á atburðarásina, en um tvær vikur gæti tekið að endurheimta og lesa þau gögn sem þar eru.
Skemmdir fyrir brotlendingu
Símamyndskeið hafa birst af tættu flaki flugvélarinnar og innan úr þotunni fyrir brotlendingu. Á þeim myndum sem teknar voru þegar vélin var enn á flugi má greinilega sjá skemmdir á innréttingum og vænghluta. Eru þessar skemmdir, sem helst má lýsa sem litlum rifum eða götum, á vinstri hlið flugvélarinnar. Eins má sjá að súrefnisgrímur höfðu fallið niður og þykir það benda til þess að þrýstingur hafi fallið inni í vélinni skömmu áður, en slíkt gerist þegar rof kemur á skrokkinn.
Viðurkennt er að loftvarnir Rússlands á þessu svæði voru virkar um svipað leyti og farþegaflugvél Aserbaísjan nálgaðist Grosní. Var það vegna þess að Úkraínuher stóð þá fyrir drónaárásum. Er það mat hernaðarsérfræðinga að árásir Úkraínu í bland við skort á fullnægjandi þjálfun hjá loftvarnasveitum hafi hæglega getað leitt til þess að ákveðið var að skjóta á farþegaþotuna með fyrrgreindum afleiðingum. Þær skýringar sem Moskvuvaldið hefur þegar gefið, þ.e. að þotan hafi flogið inn í stóran hóp fugla, eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann, að mati sérfræðinga.
Einn þeirra er Richard Levy, flugmaður til 40 ára. „Áhöfn þotunnar tilkynnti aldrei að hún hefði flogið á fugla. Slíkt gerist nær aldrei í mikilli hæð. Þessi vél var einfaldlega á flugi yfir svæði sem einnig var með árásardróna á lofti. Rússneskar loftvarnir voru því að störfum. Hvort Rússar hafi viljandi skotið þotuna niður – ég tel það ólíklegt. Farþegar hafa þegar talað um sprengingu fyrir utan vélina, hún ber merki þess að sprengjubrot hafi rofið skrokkinn og við það féll loftþrýstingur sem útskýrir hvers vegna súrefnisgrímurnar voru aðgengilegar,“ segir hann í samtali við Deutsche Welle.