Sigurður Sigurðarson
Sigurður Sigurðarson
Mjólkin hennar Búkollu býr yfir ýmsum dýrmætum og arfgengum verndandi eiginleikum sem ekki er að finna í jafn ríkum mæli í mjólk annarra kúakynja.

Sigurður Sigurðarson

Enn eru vaktar upp kröfur um að rækta hér norskar kýr og eyða kyni Búkollu. Kröfurnar eru vanhugsaðar eins og fyrr. Brotið yrði skarð í varnarvegg, sem vel hefur reynst gegn innflutningi nýrra smitefna. Dýrmætir kostir íslenskrar mjólkur yrðu afmáðir. Smám saman myndi smithættan margfaldast. Einstæðum kostum íslenskrar mjólkur yrði kastað á glæ. Stefnt yrði í verksmiðjubúskap og stórar þungar kýr sem yrði að hafa inni allt árið, vegna upptroðnings á umhverfi gripahúsa og túna.

Menn vilja stytta leið til „kynbóta“ á ódýran hátt og gera lítið úr hættunum. Það er óábyrg afstaða. Kúabændur hafa staðið sig vel, síðan áhugamönnum var neitað um innflutning á norsku kúakyni fyrir tuttugu árum. Litla kýrin okkar hefur stórbatnað við betri umhirðu og ræktun. Nytin hefur aukist og Búkolla passar inn í nýju vélarnar og mjólkar sig sjálf. Bæta má fóðrun og umhirðu. Menn eiga líka að vera góðir við kýrnar, tala við þær og strjúka þeim. „Ló, ló mín Lappa.“ Hugsum nú, hvernig bregðast ætti við kröfum „hagsmunaaðila“ við innflutningi á erfðaefni fyrir aðrar dýrategundir, til dæmis sauðfé eða hross. Það er öllum ljóst sem til þekkja að slíkt yrði ekki leyft nú. Það gæti orðið seinna, ef gefið verður eftir gagnvart þessum kröfum.

Mun fleiri smitsjúkdómar herja á nautpening í Noregi en á Íslandi, færri þó en í öðrum löndum. Því telja menn helst hættandi á að flytja kynbætur inn þaðan. Stundum hefur verið látið undan norskum kröfum um innflutning til kynbóta. Með því hafa borist til Noregs nýir smitsjúkdómar, þrátt fyrir miklar varúðarráðstafanir. Örfá smitefni hafa fundist á Íslandi. Hagur nautabænda af nýju kyni hér yrði lítill ef með því glatast sú auðlind sem heilbrigði íslenskra nautgripa er. Það er gott og nauðsynlegt að styrkja nautgriparæktina á Íslandi, en ekki með því að taka áhættu og eyðileggja gersemar. Það er vont fordæmi.

Önnur jórturdýr, sauðfé, geitur og jafnvel hreindýr, taka marga sömu sjúkdóma og nautgripir. Ný smitefni gætu breiðst út um stór svæði á stuttum tíma. Eru menn búnir að gleyma því, hvað gerðist með hrossastofn okkar fyrir fáum árum, þegar hingað bárust með nokkurra ára millibili nýir smitsjúkdómar, að öllum líkindum vegna ógætni einstakra hestamanna sjálfra, meðal annars skorts á sótthreinsun á búnaði og tækjum. Í guðanna bænum, hestamenn, sýnið varúð og ábyrgðartilfinningu vegna íslenska hestsins og sjálfra ykkar. Sjúkdómarnir fóru eins og eldur í sinu um landið. Flest hross landsins smituðust. Mörg þeirra náðu ekki fullri heilsu. Einn sjúkdómurinn drap stórt hundrað hrossa. Ég krufði og sjúkdómsgreindi nokkra tugi þeirra á Keldum og víðar. Þessum sjúkdómum verður ekki útrýmt. Fordæmið er vont.

Heilbrigði íslensku nautgripanna er einstakt á heimsvísu. Það er auðlind, sem þakka má banni við innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti, erfðaefnum og ströngum reglum um hvað eina, sem smithætta stafar af. Þar með er talinn innflutningur á sæði og fósturvísum. Við megum ekki tefla í tvísýnu. Það hefur aldrei þótt skynsamlegt, að fela dómsvaldið í hendur manna, þótt góðir séu, sem eiga hagsmuna að gæta fyrir sitt land. Fyrir því er löng og bitur reynsla. Leitað var hættumats Norðmanna um árið.

Ég minnist kynna minna af Þjóðverjanum Ronald Ziegler. Hann hitti ég sem fjárhirði á búi í Þýskalandi í framhaldsnámi mínu. Hann hafði umsjón með karakúlfénu við háskólabúið í Halle í Þýskalandi, þegar þaðan voru seldar 20 karakúlkindur til Íslands 1933. Með þeim fylgdu sannfærandi vottorð um heilbrigði alla tíð. Þó komu með fénu að minnsta kosti fjórir nýir smitsjúkdómar, sem höfðu næstum útrýmt íslenska fjárstofninum (votamæði, þurramæði, visna, garnaveiki). Ronald Ziegler sagði við mig: „Karakúlféð var ekki eins heilbrigt og yfirmenn í Halle vildu vera láta. Okkur var sagt að grafa kindur, sem veiktust og drápust. Vitneskja kaupenda um það hefði kostað óþægindi fyrir búið og spillt sölu.“

Mjólkin hennar Búkollu býr yfir ýmsum dýrmætum og arfgengum verndandi eiginleikum sem ekki er að finna í jafn ríkum mæli í mjólk annarra kúakynja, til dæmis hvað varðar sykursýki í börnum og kosti fyrir ostagerð. Frá þessu segir í fræðandi blaðagreinum eftir Stefán Aðalsteinsson frá Vaðbrekku. Margrét Guðnadóttir prófessor benti á ýmsa kosti, sem byggjast á hreinleika stofnsins og heilbrigði. Þeir gefa kost á verðmætasköpun, sem auðveldara er fyrir okkur en aðra að nýta. Kúastofninn er í einu orði sagt óbætanlegur, ef þrengt verður að honum eða honum útrýmt. Við eigum skyldum að gegna og skuld að gjalda „Búkollu“, íslensku kúnni.

Búkolla mín baular nú og biður menn að hafa trú

á litskrúðugri landnámskú, sem lífið þakka megum.

Hennar mjólk er holl og góð, heilsu brunnur vorri þjóð.

Kynið hreina sýnir sjóð, sem við bestan eigum.

Þessar innflutningshugmyndir stefna íslensku kúnni í útrýmingarhættu. Ég skora á bændur landsins að standa saman um að verja íslensku kúna og hvet almenning til að láta sig varða afdrif Búkollu.

Höfundur er dýralæknir, sérfróður um nautgripasjúkdóma.

Höf.: Sigurður Sigurðarson