— The New York Times/Daniel Berehulak
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Júlí Yfir tíu þúsund íþróttamenn og fjöldi áhorfenda komu víða að til að taka þátt í og njóta Sumarólympíuleikanna í París, sem fram fóru dagana 26. júlí til 11. ágúst. Opnunarhátíðin var tilkomumikil og keppendur létu regnið ekki trufla sig meðan þeir sigldu á bátum niður ána Signu

Júlí Yfir tíu þúsund íþróttamenn og fjöldi áhorfenda komu víða að til að taka þátt í og njóta Sumarólympíuleikanna í París, sem fram fóru dagana 26. júlí til 11. ágúst. Opnunarhátíðin var tilkomumikil og keppendur létu regnið ekki trufla sig meðan þeir sigldu á bátum niður ána Signu. Keppt var í 32 greinum á leikunum, meðal annars í skrykkdansi, sem var nýjung. Næstu sumarólympíuleikar fara fram í Los Angeles 2028.

Október Metþurrkur í Suður-Ameríku hefur haft margvísleg áhrif í álfunni. Gríðarlegir skógareldar í Brasilíu urðu til þess að reykur lá yfir 80% landsins. Í Bogotá í Kólumbíu var vatn skammtað á heimilum og fólk hvatt til þess að fara saman í steypibað. Þá lækkaði yfirborð Amazon-árinnar um allt að 90% vegna regnskorts. Sama var að segja um Paragvæ-ána og stendur drengurinn á myndinni á sandbakka í farvegi hennar og dýfir tá í poll. Sérfræðingar segja þessar afleiðingar skýrt dæmi um það sem koma skal vegna áhrifa loftslagsbreytinga í heimi sem fer stöðugt hlýnandi.

September Hundruð boðtækja (e. pagers) í eigu meðlima Hisbollah-samtakanna sprungu á sama tíma með þeim afleiðingum að minnst 12 létust og 2.700 til viðbótar særðust. Daginn eftir gerðist slíkt hið sama með talstöðvar en þá létust 20 til viðbótar og 450 særðust, að sögn yfirvalda í Líbanon. Talið er að Ísraelar hafi komið sprengjunum fyrir í tækjunum og sprengt þær með fjarbúnaði en átökin milli þeirra og Hisbollah, bandamanna Hamas, hafa stigmagnast eftir hryðjuverkaárásina á Ísrael í október í fyrra.

Ágúst Í byrjun mánaðarins, meira en tveimur árum eftir að styrjöld skall á milli Rússlands og Úkraínu, gerðu Úkraínumenn óvænta árás á Rússland á jörðu niðri, með þátttöku hermanna og brynvarinna ökutækja. Í þessari stærstu aðgerð sinni á rússneskri grundu til þessa í stríðinu lagði Úkraínuher undir sig landsvæði og sneri rússneskum hermönnum frá öðrum stöðum í fremstu víglínu. Stríðið heldur áfram en Úkraína sýndi þó heiminum að hún getur enn komið óvini sínum á óvart.

September Aryna Sabalenka frá Hvíta-Rússlandi var krýnd sigurvegari á opna bandaríska meistaramótinu í tennis eftir að hafa lagt hina bandarísku Jessicu Pegula í úrslitaleik, 7-5 og 7-5, á Arthur Ashe-leikvanginum í Queens. Sigurinn var kærkominn, en Sabalenka beið ósigur fyrir Coco Gauff í úrslitaleik sama móts í fyrra. Ítalinn Jannik Sinner bar sigurorð af Taylor Fritz frá Bandaríkjunum í úrslitaleiknum hjá körlunum. Sabalenka lauk árinu á toppi heimslistans í fyrsta sinn.

Júlí Leyniþjónustumenn umkringja Donald J. Trump, fyrrverandi og verðandi forseta Bandaríkjanna, eftir að skothvellir heyrðust á kosningafundi. Eitt skotanna hæfði Trump í hægra eyrað og einn fundargesta beið bana. Tilræðismaðurinn, hinn tvítugi Thomas Matthew Crooks, hleypti samtals af átta skotum þaðan sem hann stóð, innan við 150 metrum frá Trump. Leyniþjónustumenn skutu hann síðan til bana á staðnum. Árásin var gerð meðan kosningabaráttan stóð sem hæst, aðeins tveimur dögum fyrir flokksþing Repúblikana. Annað banatilræði við Trump í september hefur leitt til umræðu um vaxandi pólitískt ofbeldi í Bandaríkjunum.

Október Þegar fellibylurinn Milton gekk á land í Flórída 9. október flæddi yfir heilu hverfin og hús voru jöfnuð við jörðu. 14 hið minnsta týndu lífi og milljónir manna urðu rafmagnslausar. Stormurinn kallaði á einhverjar mestu rýmingar í sögu ríkisins og máttu björgunarsveitir hafa sig allar við. Um 1.200 manns var bjargað úr neyð í ríkinu, mörgum hverjum af heimilum eða bifreiðum sem komin voru á kaf.

Ágúst Nýr faraldur apabólu braust út og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti yfir neyðarástandi. Þetta afbrigði veirunnar, sem lýsir sér meðal annars í slæmum sárum, háum hita og beinverkjum, er banvænna en afbrigðið sem herjaði á heimsbyggðina 2022, sérstaklega fyrir börn. WHO samþykkti fyrsta bóluefnið gegn apabólu í september og greiddi þannig götuna fyrir notkun þess á ákveðnum svæðum í Afríku, þar sem faraldurinn hefur verið skæðastur.