Snjallstarfskraftar Auglýsingaskilti fyrirtækisins Artisan í San Francisco segir að snjallmennin þeirra þurfi ekkert frí eins og fólk af holdi og blóði.
Snjallstarfskraftar Auglýsingaskilti fyrirtækisins Artisan í San Francisco segir að snjallmennin þeirra þurfi ekkert frí eins og fólk af holdi og blóði. — Getty Images/AFP/Justin Sullivan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Hvernig Evrópa og Bandaríkin nálgast gervigreindarkapphlaupið sýnir í reynd mismuninn á þessum tveimur álfum sem hefur verið áratugum saman, en mun hugsanlega verða enn meira áberandi eftir forsetakjör Donalds Trumps sem er líklegur til að slaka á regluverki,“ segir Henning Boje Andersen, prófessor emeritus við DTU, en hann er ráðstefnustjóri á gervigreindarráðstefnu sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík 17. janúar nk. og hefur bæði skipulagt og haldið erindi á alþjóðlegum ráðstefnum um áhættu og reglusetningu tengda gervigreind.

Áhættusæknari markaður

„Það hefur oft verið sagt að Bandaríkin komi nýsköpun í framkvæmd en Evrópa, og þá sérstaklega Evrópusambandið, setji reglugerðarramma um framkvæmdirnar,“ segir Andersen. Hann bætir þó við að í Evrópu sé einnig mikil nýsköpun, en leiðin frá hugmynd að framkvæmd geti verið lengra og flóknara ferli í Evrópu en víða annars staðar, þ. á m. vestanhafs.

Andersen segir að minna eftirlit og færri reglugerðir tengdar gervigreind muni flýta fyrir allri þróun vestanhafs og Evrópa gæti misst af lestinni ef ekki verður á einhvern hátt brugðist við. Hann bendir á að fjölmargir forstjórar fyrirtækja hafi sent bréf til Evrópusambandsins um að hafa ekki of íþyngjandi reglugerðir varðandi tæknina, svo að Evrópumarkaðurinn geti verið samkeppnishæfur við bæði Bandaríkin og Kína.

„Allt umhverfið í Bandaríkjunum er áhættusæknara en í Evrópu, þrátt fyrir að margar hugmyndir fæðist í Evrópu er erfiðara að koma þeim í framkvæmd þar. Evrópa hefur verið fyrst allra með skipulagðar aðgerðir til að reyna að setja lagaramma um gervigreind. Tilgangurinn er að hægt verði að treysta nýrri tækni og að hún muni ekki ganga á rétt íbúanna. Hins vegar gætu þessi góðu áform verið frekar til þess fallin að stuðla að flótta gervigreindarfyrirtækja til annarra markaða þar sem regluverkið er minna.“

Íþyngjandi regluverk

Andersen segir að á sama tíma og ljóst sé reglur um gervigreind séu nauðsynlegar megi þær ekki vera það íþyngjandi að fyrirtækin sjái engan annan kost en að færa sig um set. „Reglurnar mega ekki vera svo harðar að fyrirtækin geti í raun ekki uppfyllt þær kröfur sem þær gera til þeirra. Ef jafnvel stærstu fyrirtækin, sem ættu að hafa efni á að uppfylla kröfur Evrópusambandsins, eiga í erfiðleikum, þá er ljóst að smærri fyrirtæki munu ekki geta það. Á sama tíma og ljóst er að það þarf að tryggja réttindi íbúanna og hafa skýran lagaramma mega reglurnar ekki vera of íþyngjandi. Þá væri verið að hafa af íbúum álfunnar mikilvægar framfarir, t.d. á heilbrigðissviði,“ segir Andersen.

Siðferðileg áhætta

Andersen leggur áherslu á að gervigreind skapar tvenns konar siðferðilega og samfélagslega hættu.

„Það sem oftast er rætt í fjölmiðlum þegar við tölum um siðfræði gervigreindar og hættuna af gervigreind eru mannréttindabrot, ógnir við friðhelgi einkalífs með víðtæku eftirliti /andlitsgreiningu, notkun gervigreindar í vopnum þegar vélmenni ákveða hvenær og hvern á að drepa og mismunun í félagslegu tilliti. Hin hættan er sú að við missum ávinninginn með of ströngu regluverki – og hér er hættan það sem oftast er nefnt töpuð samkeppnishæfni en einnig, og jafnvel mikilvægara, er tap á ávinningi sem skapast af gervigreind sem getur auðgað og bætt líf okkar, t.d. nýjar meðferðir studdar af gervigreind til að lækna sjúkdóma,“ segir Andersen.

„Þetta samtal um þessar siðferðilegu spurningar þarf að eiga í samvinnu við almenning og bæði atvinnulífið og vísindaheiminn ef vel á að vera svo það sé jafnvægi,“ segir Andersen. Hann bendir einnig á að hraðinn í þróun gervigreindar sé slíkur að afleiðingarnar af því að missa af lestinni gætu verið gífurlegar í alþjóðaviðskiptum við þjóðir sem væru komnar lengra í notkun gervigreindar.

„Tíminn líður hratt og samtalið getur ekki beðið.“

Háskólinn í Reykjavík

Gervigreind og samfélag

Ráðstefna Háskólans í Reykjavík um gervigreind og samfélag sem verður haldin 17. janúar nk. fjallar um fjögur meginþemu gervigreindar, sem tengjast sprotafyrirtækjum og stærri fyrirtækjum, heilsugæslu, stjórnsýslu og öryggi.

Á ráðstefnunni eru bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar. Fagfólk úr viðskiptalífinu, stjórnsýslunni og opinberri þjónustu getur átt samskipti við sérfræðinga um hraðar framfarir í gervigreind og hvað það getur þýtt, t.d. fyrir smærri málsamfélög eins og Ísland og Norðurlönd í alþjóðasamskiptum. Leitast er við að finna leiðir til að tryggja friðhelgi einkalífs, sanngirni og gagnsæi en á sama tíma að hámarka ávinning af gervigreind í geirum eins og heilsugæslu, orkumálum og loftslagsmálum. Fjórar málstofur eru fyrri hluta dags en eftir hádegi er opið hús og getur almenningur komið og fengið að heyra um helstu nýjungar í gervigreind.