Issa López
er leikstjóri, rithöfundur og framleiðandi. Hún er um þessar mundir leikstjóri og umsjónarmaður þáttaraðarinnar True Detective, sem HBO framleiðir.
Þar sem ég er Mexíkani – nánar tiltekið þegar ég var mexíkanskt barn, sem snemma í lífinu þurfti að horfa framan í dauðann – lærði ég fljótt þetta sniðuga bragð, sem mín menning notar til að umbreyta óttanum við dauðann í list. Í sagnalist. Í tónlist.
Mexíkanska sjálfsmyndin er eitt og hið sama og dauðinn. Hún er beint svar við óttanum við að hverfa, vissulega. En það tók mig nokkur ár þar sem ég var búsett í Bandaríkjunum og nokkrum öðrum löndum að skilja að þetta er ekki bara mexíkanskt fyrirbæri. Þetta er algilt svar.
Allt listrænt framtak í gervallri sögunni, í öllum heimshornum, kemur úr sama brunni. Við segjum sögur til að hverfa ekki. Til að afneita hyldýpinu. Til að berjast við tómið. Við syngjum og dönsum og gerum bíómyndir og segjum brandara til að útskýra brot af því óútskýranlega, til að temja endalaust myrkrið, alla þá hluti sem bíða átekta handan hins sjáanlega, skuggana handan litla varðeldsins okkar.
Samband okkar við óttann er heillandi. Fyrir utan sársauka er það sú tilfinning sem við hötum mest. Við pökkum óttanum inn til að geta neytt hans í örsmáum skömmtum í formi rússibana, teygjustökks og uppáhalds okkar allra: hryllingsmyndarinnar.
Ég elska hryllingsmyndir. Þær hrífa mig einfaldlega og ég er alls ekki ein um það. Ólíkt ofurhetjum eða söngleikjum eða vestrum er hryllingurinn tímalaus; hann fer ekki neitt. Áhorfendur mæta til að sjá hrylling allan ársins hring, áratug eftir áratug. Til eru heilu streymisveiturnar sem eru helgaðar hryllingi og þeim gengur vel. Ein tegund kvikmynda, spáið í það.
Það er eitthvað við að sitja steinrunninn af ótta í myrkum kvikmyndasal, eða jafnvel að horfa á bíómynd í sjónvarpinu með ljósin slökkt. Eitthvað úr frumeðlinu – tamið – búið til í því skyni að skemmta okkur. Við erum svo furðuleg dýr. Engin önnur skepna hefur gaman af ótta.
Vinir mínir eiga í erfiðleikum með að skilja þetta. Hvers vegna þrái ég að láta hræða úr mér líftóruna? Svarið er sáraeinfalt: Þetta er bíómynd. Maður getur haldið fyrir augun, æpt aðeins og síðan farið strax að hlæja, eins og við gerum, og okkur er létt að þetta er bara það: bíómynd – hvað hefur orðið um allar hryllilegu sögurnar sem við sögðum hvert öðru þegar við vorum börn til að minna okkur á að við værum örugg? Skrímsli hefðu ekki borðað okkur. Brjálæðingar með axir á lofti hefðu ekki höggvið okkur í spað. Við ærum ekki andsetin af Pazuzu.
Mikilvægast er þó að hryllingurinn víkur burt þegar maður gengur út úr bíóinu og reynir að muna hvar maður lagði bílnum, eða þegar maður slekkur á sjónvarpinu vegna þess að maður þarf að mæta í vinnuna daginn eftir.
Það er eitthvað kaldhæðnislegt við að skáldaður hryllingur geti veitt stundarfrið, ekki satt? Að vellandi vilpa geti með dásamlegum hætti dregið hugann frá öllum hryllingnum sem með hverjum deginum verður erfiðara að taka á móti, linnulausri orrahríð hins raunverulega hryllings sem okkur er skammtaður allan sólarhringinn, sjö daga vikunnar í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum, félagsmiðlunum, vökturunum í símunum og textaskilaboðunum frá fólkinu í kringum okkur, sem er bálreitt, sorgmætt og fyrst og fremst skelfingu lostið.
Það er engin leið að slökkva á þeim ótta. Það koma engir kreditlistar á eftir síðasta atriðinu. Það bíður ekki bíll svo við getum keyrt í burtu. Enginn rofi til að kveikja ljósin.
Óttinn er að breytast. Hann er að verða að þessari tilfinningu um yfirvofandi ógn, sem við berum innra með okkur hverja vökustund og lætur oftar og oftar að sér kveða í martröðum, sem sífellt verða ágengari. Hún litast af loftslagsbreytingum, útdauða, fjöldamorðum utan landsteinanna og heimaræktuðum fasisma. Gervigreindin ljær henni rödd. Hún er með rauðan hatt. Hún kemur frá Hæstarétti. Úr kjörkassanum. Frá lögreglunni. Þeim raunhæfa möguleika að herinn birtist á götum úti. Og því miður fyrir marga lítur hún út eins og ég: innflytjandi sem eltir uppi gæludýrin ykkar til þess að borða þau.
Óttinn var ekki einu sinni svona þegar ég var að vaxa úr grasi á níunda áratugnum og vetnissprengjan vofði yfir litla mexíkanska höfðinu mínu.
Sombíar? Kæru guðir, látið þá koma. Við getum látið okkur hafa sombía. Djöfla, drauga og afturgöngur. Þau fyrirbæri hafa ekki roð við því sem ásækir okkur þessa dagana. Vampírur eru ekki á ferli í dagsbirtu. Þetta lið, hins vegar, hverjir sem það eru sem ofsækja þig, nýtur þess að ráðast til atlögu um hábjartan dag.
Það er einfaldlega engin undakoma. Framtíðin er á hælunum á okkur og við vitum það öll. Þannig að í stað þess að leggja á flótta – við vitum öll hvað gerist þegar þú snýrð baki í manninn með stóra hnífinn og fölu grímuna – hvernig væri að nota þessa gömlu brellu okkar? Þessa sem breytir óttanum í sögur. Tónlist. Málverk. Bíó. „Gagnslaust,“ kannt þú að segja þegar við blasa fjöldabrottflutningar, missir yfirráða yfir eigin líkama, þjóðarmorð, umhverfiseyðing. Ég ætla að vera skýr: að standa upp og láta að sér kveða er engin spurning. Skipulagning, mótmæli, verkföll, stuðningur, andóf – aðgerðir af öllum toga eru ekki bara nauðsynlegar heldur brýnar. En óttinn er lífseigur, ekki satt? Einu gildir hversu hart við berjumst, óttinn fylgir okkur.
Japanar bjuggu til butoh-dansinn til að bregðast við hryllingi kjarnorkusprengjanna, sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki. Hann er um leið töfrandi og grimmileg tjáning hins ótjáanlega. Krzysztof Penderecki samdi tónverkið Harmsöngur til fórnarlamba Hiroshima, verk sem klýfur sálina, um sama hrylling. Ítalinn Ludovico Einaudi samdi Tregaljóð til Norðurskautsins, viðkvæmt tónverk og áhrifaríkt, sem hann flutti á fljótandi palli fyrir framan bráðnandi jökul. Og sterkasta hryllingsmyndin, sem ég sá í fyrra, var The Zone of Interest eftir Jonathan Glazer um innantómt, heimskulegt líf fólksins, sem stjórnaði Auschwitz: grímulaus viðvörun fyrir okkar tíma.
Ekkert þessara meistaraverka bætti úr ömurleikanum. Ekkert þeirra getur stöðvað það sem nálgast. Hvert þeirra minnir okkur hins vegar á hvers vegna það er þess virði að lifa af, að læknast með því að henda reiður á myrkrinu með öðru af þeim tveimur tækjum sem við búum yfir til að skilja okkur sjálf: listinni. Vísindin eru vitaskuld hitt. En ég kann ekki að reikna. Ég get hinsvegar sagt sögur af sársaukanum í kringum mig, af óttanum sem í mér býr – í okkur öllum – þá daga sem ég er í bestu formi.
Ég mun halda áfram að reyna. Og gagnist það ekki er alltaf hægt að leita huggunar í góðri hryllingsmynd.
© 2024 The New York Times Company og Issa López