Körfubolti: Elvar Már Friðriksson
Körfubolti: Elvar Már Friðriksson — Ljósmynd/Jon Forberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðeins tvær Evrópuþjóðir hafa tryggt sér keppnisrétt á öllum fjórum mótunum. Það eru Frakkar og Þjóðverjar, tvær óumdeildar stórþjóðir.

VÍÐIR SIGURÐSSON

hefur verið fréttastjóri íþróttafrétta á Morgunblaðinu og mbl.is frá 2008 og starfað hjá Árvakri frá 2000. Áður var hann íþróttafréttamaður hjá DV, Þjóðviljanum og Dagblaðinu.

Ísland er tæplega í þeim flokki – eða hvað? Við eigum kannski eina aðferð til að skilgreina okkur í hóp stórþjóða. Getum reyndar ekki fullyrt fyrr en um miðjan apríl að sú skilgreining gangi upp.

Meðal stórmóta í íþróttum á árinu 2025 eru heimsmeistaramót karla í handknattleik í janúar, Evrópumót kvenna í fótbolta í júlí, Evrópumót karla í körfuknattleik í ágúst og september og heimsmeistaramót kvenna í handknattleik í nóvember og desember.

Aðeins tvær Evrópuþjóðir hafa tryggt sér keppnisrétt á öllum fjórum mótunum. Það eru Frakkar og Þjóðverjar, tvær óumdeildar stórþjóðir á evrópskan og heimsmælikvarða. Sama á hvaða sviði það er.

Fjórar aðrar Evrópuþjóðir eiga virkilega góða möguleika á að komast í þennan fámenna hóp og eiga lið á öllum fjórum mótunum. Hverjar eru það? Jú, Spánverjar, Pólverjar, Svíar og Íslendingar!

Fjórar þjóðir til viðbótar geta bæst í hópinn en eiga samt litla möguleika á því. Það eru Danir, Hollendingar, Portúgalar og Ítalir.

Þjóðir sem verða í mesta lagi með á þremur mótanna eru Norðmenn (öruggt), Tékkar, Slóvenar og Svisslendingar (góðar líkur), Ungverjar (sæmilegar líkur) og Króatar og Norður-Makedóníumenn (litlar líkur).

Bretar/Englendingar, Belgar og Finnar verða á tveimur mótanna, væntanlega líka Austurríkismenn og Svartfellingar. Mögulega Serbar, Litáar, Tyrkir og Ísraelar, en sennilega ekki. Svo getið þið fundið út sjálf hvaða þjóðir vantar í þessa upptalningu!

Þetta er eiginlega galið

Þessi „ferna“ Íslands er vissulega ekki ennþá í hendi en möguleikarnir á henni eru ansi góðir. Ísland leikur á HM karla í handbolta í Króatíu og á EM kvenna í fótbolta í Sviss. Karlalandsliðið í körfubolta stendur mjög vel að vígi fyrir tvo síðustu leiki sína í febrúar og kvennalandsliðið í handbolta er afar sigurstranglegt í einvígi sínu um sæti á HM í apríl.

Við sem byggjum þessa eyju erum ekki nema tæplega 400 þúsund. Það þætti kannski ekki fréttnæmt ef Ísland ætti keppendur sem væru framarlega í fjórum einstaklingsgreinum og kæmust á stórmót í þeim.

En að svona fámenn þjóð geti átt fjögur landslið í lokakeppnum í þremur vinsælum íþróttagreinum er eiginlega galið. Og þetta er ekkert nýtt. Karlalandsliðið í handbolta hefur misst af einu stórmóti á þessari öld. Kvennalandsliðið í fótbolta er á leið á sitt fimmta Evrópumót í röð. Körfuboltalandslið karla hefur þegar náð að leika tvívegis á EM. Kvennalandsliðið í handbolta fer að öllum líkindum á sitt þriðja stórmót á jafnmörgum árum.

Og í framhaldi af þessu dreymir marga um að karlalandsliðið í fótbolta endurtaki afrekið frá 2018 og komist í lokakeppni heimsmeistaramótsins 2026. Það er torsóttara en alls ekki ómögulegt.

En við skulum líta betur á þessi fjögur stórmót og við hverju má búast af íslensku landsliðunum.

Áttunda skiptið í röð

Janúarmánuður er eins og alltaf frátekinn fyrir karlalandsliðið í handbolta. Að þessu sinni fer það til Zagreb í Króatíu og tekur þátt í heimsmeistaramótinu.

Þar leikur Ísland í 24. skipti frá árinu 1958, í áttunda skiptið í röð og í tólfta skipti á þeim þrettán mótum sem fram hafa farið á 21. öldinni.

Eins og vanalega er markið sett hátt, sæti í átta liða úrslitum er tvímælalaust markmiðið og það er fyllilega raunhæft. Snorri Steinn Guðjónsson mun tefla fram mjög sterku liði þar sem flestir leikmannanna spila í bestu deildum heims en það verður þó skarð fyrir skildi að leika án Ómars Inga Magnússonar, sem missir af mótinu vegna meiðsla.

Ísland leikur í G-riðli keppninnar í Zagreb og mætir þar Grænhöfðaeyjum, Kúbu og Slóveníu.

Þrjú efstu liðin fara í milliriðil sem einnig verður leikinn í Zagreb og þar verða mótherjar væntanlega Króatía, undir stjórn Dags Sigurðssonar, Egyptaland og annaðhvort Argentína eða Barein.

Þarna getur orðið harður slagur milli Íslands, Slóveníu, Króatíu og Egyptalands um tvö sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Komist Ísland þangað yrði mótherjinn líklega Frakkland eða Ungverjaland sem eru líklegust til afreka í C- og D-riðlum keppninnar.

Ísland myndi leika áfram í Zagreb, kæmist liðið í átta liða úrslit. Eftir það annaðhvort í Zagreb eða Ósló í undanúrslitum en úrslitaleikirnir um gullið og bronsið fara fram í norsku höfuðborginni.

Ísland efst á listanum

Kvennalandsliðið í fótbolta fer til Sviss og eftir að dregið var í riðla Evrópukeppninnar 16. desember ríkir nú þegar gríðarleg spenna hjá þjóðunum fjórum sem drógust þar saman í A-riðil.

Ísland er í riðli með Sviss, Noregi og Finnlandi, sem allt saman eru yfirstíganlegar hindranir en ljóst er að þessi fjögur lið telja sig öll geta unnið riðilinn. Þau eru enda afar áþekk að styrkleika og dagsformið og stemningin mun ráða úrslitum þegar á hólminn verður komið.

Eins merkilegt og það er, þá er Ísland efst á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins af þessum fjórum liðum, í fjórtánda sætinu, tveimur sætum fyrir ofan Noreg. Ísland nýtur þess að eiga einn besta varnarmann heims í dag, Glódísi Perlu Viggósdóttur, og með hana í lykilhlutverki átti liðið frábæra undankeppni fyrir EM þar sem það skellti m.a. stórveldinu Þýskalandi, 3:0, á Laugardalsvellinum.

Ísland leikur sína leiki í borgunum Thun og Bern en á milli þeirra eru aðeins 30 kílómetrar þannig að þetta getur ekki orðið hagstæðara fyrir íslenskt knattspyrnuáhugafólk sem mun vafalítið streyma til Sviss í júlímánuði.

Leikið er við Finna 2. júlí í Thun, við Svisslendinga 6. júlí í Bern og við Norðmenn 10. júlí í Thun. Tvö liðanna komast í átta liða úrslit þar sem mótherjinn mun koma úr B-riðli en í honum leika Spánn, Ítalía, Portúgal og Belgía.

Spánn er ríkjandi heimsmeistari en Ítalía, Portúgal og Belgía eru öll áþekk Íslandi að styrkleika. Íslensku konurnar þurfa því að vinna A-riðilinn til að eiga raunhæfa möguleika á að fara alla leið í undanúrslit keppninnar.

Einn sigur í tveimur leikjum

Dagana 20. til 23. febrúar ræðst hvort körfuboltalandslið karla vinni það afrek að komast í þriðja skipti á tíu árum í lokakeppni Evrópumótsins.

Ísland er í riðli með Ítalíu, Tyrklandi og Ungverjalandi á fjórða og síðasta stigi undankeppninnar en íslenska liðið sat hjá í fyrstu þremur umferðunum vegna frábærs árangurs í undankeppni síðasta heimsmeistaramóts. Þá var liðið einu skoti Elvars Más Friðrikssonar á lokasekúndu frá því að komast á HM í fyrsta skipti, sem hefði verið gríðarlegt afrek hjá íslensku landsliði.

Ísland og Ungverjaland eru í baráttu um þriðja sæti riðilsins, sem gefur sæti á EM, en Ítalía og Tyrkland eru þegar komin áfram. Ísland þarf einn sigur og mætir fyrst Ungverjum á útivelli 20. febrúar og síðan Tyrkjum á heimavelli þremur dögum síðar.

Nái íslenska liðið þessu takmarki sínu leikur það í lokakeppninni 27. ágúst til 14. september en hún fer fram í fjórum löndum, Kýpur, Finnlandi, Póllandi og Lettlandi.

Mjög sigurstranglegar

Loks er það heimsmeistaramót kvenna í handbolta sem fram fer í Þýskalandi og Hollandi 27. nóvember til 14. desember. Ísland lék á HM 2023, sem var fyrsta stórmót liðsins í ellefu ár, og svo á EM 2024 fyrr í þessum mánuði.

Allt bendir til þess að liðið komist á sitt þriðja stórmót á jafnmörgum árum því í umspilinu dróst Ísland gegn liði Ísraels, sem ætti að öllu eðlilegu ekki að vera mikil fyrirstaða.

Ísrael kom upp úr forkeppninni á meðan Ísland lék á EM og endaði þar í sextánda sæti, og auk þess fara báðir leikirnir fram hér á landi um miðjan apríl.

Íslenska kvennalandsliðið hefur verið í stöðugri uppbyggingu undanfarin ár, undir stjórn Arnars Péturssonar, og hefur tekið réttu skrefin. Liðið komst á HM 2023, lenti þar í svokölluðum Forsetabikar, keppni átta neðstu liðanna, en vann hana á sannfærandi hátt.

Á EM í Innsbruck núna í desember veitti liðið öflugu liði Hollands harða keppni og vann sinn fyrsta sigur í lokakeppni, gegn Úkraínu. Sá sigur kom liðinu í efri styrkleikaflokk þegar dregið var í umspilinu fyrir HM og nú blasir þriðja stórmótið við.