Frans Páfi mun marka upphaf heilags árs í basilíku heilags Péturs í páfagarði á aðfangadag.
Frans Páfi mun marka upphaf heilags árs í basilíku heilags Péturs í páfagarði á aðfangadag. — Reuters/Guglielmo Mangiapane
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú tilfinning vaknar sama hver öldin er að á fyrsta fjórðungi hennar sé að einhverju leyti verið að leggja grunn. Lítum á fyrsta fjórðung 20. aldar. Flug bræðranna Orvilles og Wilburs Wrights í Kitty Hawk í Norður-Karolínu árið 1903 markaði upphafið á gullöld flugsins

Masha Goncharova

Hvað er gott að hafa í huga þegar komandi ár er skipulagt?

Sú tilfinning vaknar sama hver öldin er að á fyrsta fjórðungi hennar sé að einhverju leyti verið að leggja grunn. Lítum á fyrsta fjórðung 20. aldar. Flug bræðranna Orvilles og Wilburs Wrights í Kitty Hawk í Norður-Karolínu árið 1903 markaði upphafið á gullöld flugsins. Árið 1917 réðust bolsévikar inn í Vetrarhöllina, valdasæti keisarastjórnarinnar í Sankti Pétursborg, og lögðu grunninn að Sovétríkjunum. Tveimur árum síðar voru línur dregnar að nýju í Evrópu með Versalasamningunum, sem voru forsmekkurinn að valdatöku Hitlers og í framhaldinu seinni heimsstyrjöld.

Hverju megu við þá eiga von á næstu 75 ár 21. aldarinnar þegar fyrstu 25 árin eru metin og vegin? Árið 2000 samþykktu Hollendingar fyrstir þjóða að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra. Síðan hefur slíkt hið sama verið gert í 35 löndum. 11. september árið 2001 gerðu hryðjuverkamenn árás á Bandaríkin. Árásin var kveikjan að stríði Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum í Mið-Austurlöndum. Facebook var hrundið af stað árið 2004 og fyrsti iPhone-snjallsíminn fór í sölu árið 2007. Þessi fyrirbæri höfðu bæði gagnger áhrif á það hvernig samskiptum manna á milli er háttað og jafnvel tilveru þeirra – jafnt á netinu sem í raunheimum.

Barak Obama var kjörinn fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna árið 2008 og tók embætti 2009 rétt eftir að fyrstu viðskiptin með rafmyntinni bitcoin áttu sér stað. Kína varð næststærsta hagkerfi heims árið 2010. Afgerandi meirihluti ríkja heims innleiddi Parísarsáttmálann um aðgerðir í loftslagsmálum árið 2015. Gervigreindarforrit bar árið 2016 sigurorð af Lee Saaedol, þáverandi heimsmeistara, í hinu flókna borðspili Go. Geimferðamennska kom til sögunnar árið 2021.

Kórónuveirufaraldurinn skellti heiminum í lás árið 2020 og það varð viðtekið að vinna heima. Milljónir manna enduðu á vergangi vegna stríða í Sýrlandi, Úkraínu og á Gasa. Hlýnun fór áfram vaxandi á jörðinni og bendir allt til að árið 2024 verði það hlýjasta frá því að skráning hófst.

Við lok fyrsta fjórðungs 21. aldar vegum við salt á milli glæstrar framtíðar og dómsdags. Við blasir gervigreindarbylting, en um leið vofir yfir ógnin af kjarnorkustríði. Hér á eftir fer innsýn í næstu tólf mánuði af okkar ógnvekjandi og stórbrotnu framtíð.

JANÚAR

PÁFAGARÐUR, 24. DESEMBER 2024-6. JANÚAR 2025: Á 25 ára fresti fagna katólikkar trú sinni með því að halda heilagt ár. Að þessu sinni hefst það formlega 24. desember þegar Frans páfi opnar hinar heilögu dyr basilíku heilags Péturs fyrir spenntum pílagrímum og lýkur á þrettándanum í janúar 2026. Í tilkynningu páfa um hið heilaga ár helgaði hann það „voninni“. Talaði páfi þar um „nýja mynd óréttlætis“, „umhverfisskuld“ sem tengdist því að sum lönd væru hlutfallslega ágengari á auðlindir jarðar á kostnað annarra landa. Frans páfi biðlaði einnig til „auðugri þjóða heims“ að fyrirgefa peningaskuldir landa „sem aldrei munu geta borgað þær til baka“. Því má bæta við að samkvæmt skýrslu, sem Sameinuðu þjóðirnar sendu frá sér fyrr á þessu ári, greiddu 15 lönd í Afríku, Asíu og Eyjaálfu meira í vexti af alþjóðlegum lánum en í menntun og vaxtagreiðslur 46 landa voru hærri en útgjöld þeirra til heilbrigðismála.

MEXÍKÓ, 11. JANÚAR: Heyrið suðið í rafhlöðunum og andið að ykkur hreinu loftinu! Þið eruð boðin velkomin í fyrsta rafformúlukappakstur ársins, sem fram mun fara á brautinni Autodromo Hermanos Rodríguez í Mexíkóborg. Þetta er 10. keppnistímabilið og verður ný hönnun kynnt til sögunnar, GEN3 Evo. Nýi bíllinn býr yfir meiri hröðun en nokkur annar einsætiskappakstursbíll í heiminum. GEN3 fer úr núll í hundrað kílómetra hraða á 1,86 sekúndum og er það þriðjungi hraðar en hefðbundinn kappakstursbíll í Formúlu 1.

BANDARÍKIN, 19. JANÚAR: Zetukynslóðinni gæti dottið í hug að henni hafi verið varpað inn í myndina Footloose ef af verður að TikTok, smáforritið sem er frægt fyrir dansklippur, verði bannað. Milljarðar manna nota TikTok í hverjum mánuði, þar á meðal 170 milljónir í Bandaríkjunum. Smáforritið virðist þekkja notendur sína og á Bandaríkjaþingi hafa þingmenn áhyggjur af að kínversk stjórnvöld viti aðeins of mikið um Bandaríkjamenn með hjálp þeirra upplýsinga, sem safnað er á TikTok. Þingið samþykkti lög um að banna TikTok nema kínversk stjórnvöld losi sig við hlut sinn í hinu kínverska móðurfyrirtæki Tik Tok, ByteDance, fyrir 19. janúar. Shou Zi Chew framkvæmdastjóri TikTok hafnar lögunum á þeirri forsendu að þau stangist á við stjórnarskrá og hefur leitað til dómstóla í Bandaríkjunum.

FEBRÚAR

PAKISTAN, 19. FEBRÚAR – 5. MARS: Rígurinn á milli Indlands og Pakistans í krikket er sá rígur í íþróttum, sem einna mesta athygli vekur í heiminum. 400 milljónir manna fylgdust með viðureign landanna á heimsmeistaramótinu í krikket í fyrra. (Til samanburðar fylgdust 125 milljónir manna með ofurskálinni í bandarískum ruðningsbolta.) Á komandi ári ættu liðin að mætast í mótinu Meistarabikarnum, sem að þessu sinni verður haldið í Pakistan. Indverjar hafa reyndar ekki leikið í landinu síðan 2008 vegna spennu milli landanna og samningar standa yfir um hvar – og hvort – leikir Indverja fari fram.

ALÞJÓÐLEGA GEIMSTÖÐIN: Velkomin í Hótel A.G. þar sem þú getur komið til átta daga dvalar, en kemst aldrei í burtu (að minnsta kosti ekki fyrr en hægt verður að húkka far með áhöfn SpaceX 9). Geimfararnir Suni Williams og Butch Wilmore frá Bandarísku geimvísindastofnuninni, NASA, munu snúa til jarðar í febrúar þegar leiðangri SpaceX lýkur. Þau komu í alþjóðlegu geimstöðina í júní á þessu ári og áttu von á að vera í viku í mesta lagi. En helíumleki og brennarabilanir komu upp í farkostinum sem þau komu með, Boeing Starliner, og talin var of mikil áhætta að þau sneru aftur til jarðar í honum.

MARS

SUÐUR-KÓREA: „Allir eru læknar í sér,“ á Hippókrates að hafa sagt einhverju sinni. Í Suður-Kóreu er aðkallandi skortur á læknum á bráðadeildum og sjúkrahúsum, en stjórnvöld þar vilja þó helst ekki láta reyna á þessa kenningu. Á þessu ári var sett á skyldubundin fjölgun á nemendum, sem teknir yrðu inn í læknanám. Nemendum í læknisfræði á að fjölga um 2.000 á háskólaárinu sem hefst í mars. Læknar segja hins vegar að lausnin felist ekki í að fjölga læknum. Þeir hafa haldið mótmæli og gripið til vinnustöðvana. Þeir halda fram að bæta megi úr vandanum með því að hækka lág laun á mikilvægum heilbrigðissviðum á borð við bráðalækningar.

BANDARÍKIN, 4. MARS: Tæpum fjórum vikum eftir að 59. ofurskálarleikurinn fer fram á leikvanginum Caesars Superdome í New Orleans lýkur hinni árlegu kjötkveðjuhátíð á sprengidegi í Bourbon-stræti. Heimamenn tala ofurkjötkveðjuna, Super Gras, þar sem þessa tvo viðburði ber upp á sama tíma. Borgaryfirvöld hafa áhyggjur af öryggi almennings og verður hart tekið á hlutum á borð við bann við byssum, sem skjóta pappírsræmum og gliti út í loftið.

APRÍL

SUÐURSKAUTSLANDIÐ, 22. APRÍL: Á jarðardaginn ætlar tímaritið National Geographic að frumsýna heimildarmyndina Leyndarmál mörgæsanna þar sem verður hægt að sjá fyrstu drónamyndirnar í heiminum af mörgæsaungum þar sem þeir stökkva fram af 20 metra háu bjargi til að taka fyrsta sundsprettinn. Myndirnar voru teknar á þessu ári. Í fyrra var minna um hafís en nokkru sinni áður og þá neyddust ungarnir til að fara í sjóinn áður en vatnsheldar fjaðrir þeirra voru að fullu orðnar virkar. Vísindamenn telja að þetta hafi valdið dauða tugþúsunda unga.

MAÍ

JAPAN, 10.-11. MAÍ: Í maí á hverju ári er haldið upp á sichuan í Nakano-almenningsgarðinum í Tókýó. Sichuan nefnist höfugt, bragðsterkt eldhús, sem sækir grunn sinn í samnefndan pipar frá suðvesturhluta Kína. Matreiðslumeistarinn Anthony Bourdain lýsti honum eitt sinn þannig að hann væri „dásamlegur, sadómasókískur samleikur sælu og sársauka“. Á sichuan-hátíðinni á næsta ári verður líkt og á mörgum þeim matarhátíðum, sem haldnar eru í Tókýó, hægt að bragða á klassísku réttunum, til dæmis heita pottréttinum mala, sem í er nautakjöt, tófú, grænmeti og chili-olía, eða leita á vit hins óþekkta og prófa ís með sichuan-piparkorna-bragði.

JÚNÍ

FRAKKLAND, 8. JÚNÍ: Eftir að eldur braust út í loftbitum Notre Dame í París árið 2019 með þeim afleiðingum að miðaldaspírur kirkjunnar féllu og þakið eyðilagðist að miklu leyti hófust umfangsmiklar viðgerðir á hinu 850 ára gamla guðshúsi. Nefnd var falið að hafa umsjón með endursmíði dómkirkjunnar og fór yfir ýmsar breytingartillögur, þar á meðal að gerð yrði sundlaug á þakinu. Hún samþykkti á endanum hóflega nútímavæðingu. Ný lýsing verður í kirkjunni og nútímalist mun bætast við. Byrjað var að halda upp á að kirkjan hefði verið opnuð að nýju í desember og mun fögnuðurinn ná hámarki á uppstigningardag 8. júní.

SUÐUR-AFRÍKA, 8. JÚNÍ: Samherjamaraþonið er elsta ofurmaraþonið í heimi og kemur sjávarútvegsfyrirtækinu ekkert við. Það er þó meira en bara hlaup, því að þátttakendur þurfa einnig að klifra. Hlaupið var stofnað árið 1921. Að því stóð hópur samherja úr fyrri heimsstyrjöld. Hlaupnir eru um 89 km og þykir þetta ein erfiðasta keppni, sem efnt er til í heiminum, vegna þess hvað hlaupaleiðin er strembin yfirferðar. Leiðinni er breytt á hverju ári. Á næsta ári verður hlaupið niður í móti. Það hefst í 640 m hæð í Pietermaritzburg, höfuðborg KwaZulu-Natal-héraðs, og lýkur við sjávarmál í borginni Durban við Indlandshaf.

HOLLAND, 24.-26. JÚNÍ: Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins verður í fyrsta skipti frá stofnun þess 1949 haldinn í Haag, sem er sjálfskipuð alþjóðaborg friðar og réttlætis. Þar munu aðildarríki NATO, sem eru 32 talsins, koma saman ásamt Úkraínu og öðrum samstarfslöndum á borð við Ástralíu og Nýja-Sjáland. Innrás Rússa og stríðið í Úkraínu verður efst á bógi. Verðmiðinn á fundinum er 95 milljarðar evra (13,8 billjónir króna) og endurspeglar það hinar miklar öryggisráðstafanir, sem gripið verður til.

JÚLÍ

BRETLAND, 4. JÚLÍ: Við erum stödd baksviðs á Wembley. Tveir bræður. Ein hljómsveit. Tambúrínur fljúga og á eftir koma krikketkylfur. Bræðurnir miða á höfuð hvor annars. Tónleikaferðalag Oasis árið 2025 er hafið. Við skulum vona að þetta verði ekki svona. Liam og Noel Gallagher eru nú orðnir eldri og reyndari og eru tæplega að sameina hljómsveitina á ný eftir 15 löng ár til að leyfa gömlu reiðinni að blossa upp á ný.

TANSANÍA, 14. JÚLÍ: Jane Goodall mun opna sýningu, sem nefnist Draumur dr. Jane. Þar munu gestir geta upplifað heim, sem afrískir listamenn og þrautþjálfað lið Disney hafa skapað. Viðburðurinn verður haldinn á alþjóðadegi simpansa og fer fram í menningarmiðstöð í Tansaníu. Þar verður hægt að kynna sér tímamótarannsóknir Goodall. Á sýningunni verður meðal annars tjald þar sem hún og móðir hennar komu sér fyrir til að fylgjast með veröld simpansanna.

NOREGUR: Fjórir bandarískir íþróttamenn, þar á meðal sérsveitarmaður úr bandaríska sjóhernum og leikmaður úr bandaríska ruðningsboltanum, ætla að leggja í hina svokölluðu Heimskautsáskorun, The Arctic Challenge. Hyggjast þeir róa eftir opnu heimskautshafi á 9,6 metra löngum bát án nokkurs utanaðkomandi stuðnings heila þúsund kílómetra (621 mílu) frá Tromsö í Noregi til Longyearbyen á Svalbarða. Búist er við að siglingin taki tíu til 20 daga og munu liðsfélagarnir skipast á að róa tvo tíma í senn allan sólarhringinn þar til þeir koma á áfangastað.

SÓLIN: Á ellefu ára fresti sendir sólin frá sér gríðarlegt orkuskot. Þetta er hluti af hringrás sólar, ferli þar sem sólin hefur endaskipti á segulpólum sínum. Sólarhámark á sér stað í miðri þessari hringrás þegar hvað mest er um sólarbletti á sólinni. Sólarblettir eru öflug segulsvæði á yfirborðinu og eru á stærð við plánetur. Vísindamenn eiga von á um 115 sólarblettum í júlí. Það gæti valdið stórkostlegum norður- og suðurljósum á jörðu, en einnig orðið til þess að hnattstöðutækni slái út sem og útvarpssamskipti og raforkunet.

ÁGÚST

MEXÍKÓ, 31. ÁGÚST: Átta af ellefu sitjandi hæstaréttardómurum í Mexíkó hyggjast segja af sér til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum á dómskerfinu, sem gerir ráð fyrir að nánast allir alríkisdómarar verði valdir í almennri kosningu. Umræddir dómarar neituðu að taka þátt í kosningunni og munu segja af sér þegar ráðningartími þeirra rennur út um miðjan ágúst. Frá því að lögin voru samþykkt í september á þessu ári hafa 18 þúsund manns gefið kost á sér í sæti í Hæstarétti. Frambjóðendur þurfa að vera með prófgráðu í lögum og að minnsta kosti 8,5 í meðaleinkunn, fimm ára faglega reynslu og fimm meðmælabréf frá nágrönnum eða vinum. Dregið verður úr frambjóðendum af handahófi til að ákvarða hverjir verði á kjörseðlinum. Nýir dómarar verða kosnir 1. júní.

SEPTEMBER

JAPAN, 20. SEPTEMBER: Safn meistaraverka eftir Vincent van Gogh verður flutt til borganna Kobe, Fukushima og Tókýó. Um er að ræða umfangsmikla tveggja ára sýningu í tveimur hlutum í tilefni af Hanshin-jarðskjálftanum mikla árið 1995 og Austur-Japans-skjálftanum mikla árið 2011. Um er að ræða rúmlega 60 verk eftir van Gogh frá öllum hans ferli og verða verkin Útikaffihús að kvöldi og Langlois-brúin í Arles og þvottakonur þar á meðal. Fyrra verkið hefur ekki verið sýnt í Japan í 20 ár og það síðara í 70 ár.

BELGÍA, 25. SEPTEMBER: Málverkið Dýrlingar dást að Maríu móður Jesú eftir Peter Paul Rubens er svo stórt að það reyndist of þungt til að hægt væri að færa það úr Rubens-safninu í Konunglega listasafninu í Antwerpen til forvörslu. Því var ákveðið að koma upp vinnustofu, sem nefnd var eftir málaranum. Þar vinna forverðir og vísindamenn störf sín á verkinu, sem er sjö metra hátt og vegur 400 kíló, fyrir framan safngesti. Þetta einstaka tækifæri til að fylgjast með forvörslu um leið og hún fer fram stendur til loka september.

OKTÓBER

VICE CITY, LEONIDA, 27. OKTÓBER: Það væri vægt til orða tekið að áhugamenn um tölvuleiki væru spenntir yfir sjöttu útgáfunni af leiknum Grand Theft Auto frá Rockstar Games. Oftar hefur verið horft á kynningarmyndskeið um Grand Theft Auto VI en nokkurt annað slíkt myndskeið samkvæmt heimsmetabók Guinness og tæplega 180 þúsund manns fylgjast með reikningnum á X þar sem lesa má með nýjustu fréttir af leiknum. Leikurinn gerist í VIce City (tveir hástafir í upphafi vísa til sjöttu – VI. – útgáfu), sem er einhvers konar ofurraunsæisskærljósaútgáfa af Miami og var vettvangur leiksins 2002. Kynnt er til sögunnar fyrsta kvenhetja leiksins, Lucia, sem situr í fangelsi í ríkinu Leonida.

ÞÝSKALAND, 15.-19. OKTÓBER: Bókamessan í Frankfurt, sem fyrst var haldin árið 1949, er sú stærsta sinnar tegundar í bókabransanum. Hún er haldin á hverju ári í október og þar koma saman útgefendur, höfundar, umboðsmenn, bókaverðir og áhugamenn um bækur (þeirra á meðal Bob Dylan, sem var viðstaddur í fyrra og lýsti reynslu sinni á X – já, Bob Dylan er farinn að tísta). Bókamessan er feiknleg að umfangi. Hana sækja 230 þúsund gestir og mátti finna bása frá rúmlega 100 löndum þegar hún var haldin í ár. Gildi hennar nær þó út fyrir heim bókanna og undanfarin ár hefur verið reynt að skapa vettvang fyrir umræður um heimsmálin og taka afstöðu til tveggja stríða, sem geisa um þessar mundir. Árið 2022 var ákveðið að útiloka rússneskar ríkisstofnanir eftir innrás Rússa í Úkraínu, en sjálfstæðum rússneskum útgefendum var gefinn kostur á þátttöku. Árið 2023 var afhendingu verðlauna til palestínska rithöfundarins Adönu Shibli frestað. Ákvörðunin var sett í samhengi við stríð Ísraels og Hamas á Gasasvæðinu og vakti gagnrýni um ritskoðun og hlutdrægni. Heiðursgestur hátíðarinnar á næsta ári eru Filippseyjar.

NÓVEMBER

BRASILÍA, 10.-21. NÓVEMBER: Næsta útgáfa loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP30, verður haldin í borginni Belém, norðarlega á Amazon-svæðinu í Brasilíu. Heimamenn eru farnir að kvarta undan því að ráðstefnan muni skaða umhverfið því að stjórnvöld hafa samþykkt að lögð verði ný hraðbraut, Avenida Liberdade. Hún á að liggja í gegnum Belém-verndarsvæðið og segja þeir að dýr muni ekki komast leiðar sinnar milli þess og þjóðgarðsins Utinga, sem liggur að verndarsvæðinu.

DESEMBER

PANDORA, 19. DESEMBER: Avatar: Eldur og aska nefnist þriðji hluti kvikmyndaflokks leikstjórans James Camerons, en alls er gert ráð fyrir að Avatar-myndirnar verði fimm talsins. Það er eins og allt sem Cameron snertir verði að gulli og standa fáir leikstjórar honum þar á sporði, hvort sem það er fjárhagslega (fyrsta og önnur Avatar-myndin rökuðu inn yfir tveimur milljörðum dollara um heim allan hvor og eru ásamt Titanic, sem hann gerði einnig, meðal fimm tekjuhæstu kvikmynda allra tíma) eða í að flétta sögur sínar inn í menningu samtímans. Að þessu sinni fetar Cameron sig inn á skuggalegri slóðir hjá Sully-fjölskyldunni. Á viðburði á vegum Disney nýverið sagði hann að eldurinn í heiti myndarinnar vísaði til „haturs, ofbeldis, áfalla, mögulega misnotkunar á valdi“ og askan endurspeglaði eftirmálin, „sorgina og að lifa með því sem maður hefur gert“. Um þessar mundir er einnig verið að smíða Avatarland í skemmtigarði Disney í Anaheim í Kaliforníu og bætist það við Pandóru – heim Avatar í skemmtigarði Disney í Flórída. Í Anaheim verður hægt að fara í siglingu um Pandóru ef marka má teikningar og lofa skipuleggjendur stórbrotinni reynslu.

EINHVERN TÍMANN 2025

ABÚ DABÍ: Stjórnvöld í Abú Dabí hyggjast opna Zayed-þjóðminjasafnið á Saadiyat-eyju og vekja þannig rækilega athygli á menningu landsins. Safnið bætist við útibú Louvre og Guggenheim sem eru skammt frá. Útlínur safnsins minna á vængi fálka á flugi. Safnið er sett saman úr fimm straumlínulaga turnum, sem munu rísa hátt í loft upp og er sá hæsti 123 metrar. Í safninu verða munir, sem sýna að maðurinn hefur verið að verki þar sem Sameinuðu furstadæmin eru nú í 300 þúsund ár.

BANDARÍKIN: Skemmtigarðar með þemu eru af ýmsum toga. Á næsta ári bætist hryllingsgarður við. Hryllingsgarðurinn er byggður á hrollvekjum úr smiðju kvikmyndaversins Universal. Þarna verða klassískir ógnvaldar á borð við Dracúlu, Frankenstein og Múmíuna, en einnig verður sótt í nýrri hryllingsmyndir leikstjóra á borð við James Wan, sem gerði The Conjuring, og Jordan Peele, sem gerði Get Out.

HEIMURINN: Búist er við að rúmlega 175 lönd muni undirrita sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að draga úr notkun einnota plastvara og skipta yfir í aðra, sjálfbæra kosti. Lítil eyríki, sem verða verst úti vegna áhrifa plastúrgangs í hafinu, eru öll með tölu um borð og sömu sögu má segja um Japana og Suður-Kóreumenn, sem eru með þróaða endurvinnslu. Meiri óvissa er um þátttöku Bandaríkjanna, Kína og Sádi-Arabíu, sem tóku þátt í samningaviðræðunum en eru meðal helstu plastframleiðenda heims.

© 2024 The New York Times Company og Masha Goncharova