Anitta
Ég fæddist og ólst upp í favelu, hreysahverfi í Rio de Janeiro. Þar kynntist ég anda funk carioca, sem einnig er kallað brasilískt funk, frá fyrstu hendi. Þótt þessi tónlist sé gríðarlega vinsæl í Brasilíu og hlutum Rómönsku Ameríku er hún vanmetin á heimsvísu þrátt fyrir einstakan og líflegan hljóðheim. Til viðbótar við tónlistina endurspeglar funk carioca raunveruleika margra Brasilíumanna og er leið til að segja sögu þeirra, þar á meðal mína.
Í þessari tónlistarstefnu blandast saman undirgreinar hipphopps, elektrónísk danstónlist, freestyle og popp – en alltaf með sínu sérstaka, brasilíska yfirbragði. Úr þessari orkuríku blöndu verður til rafsveifla með trommutöktum, sýnishornum af vinsælum melódíum og ryþmum að viðbættum hráum söng. Lagið mit Joga pra Lua, sem á íslensku útleggst Tverkið fyrir tunglið – er dæmi um þennan stíl.
Funk carioca varð til í favelum Brasilíu á níunda áratugnum. Þessi víbrandi tónlist sér enn fyrir hjartslættinum á stöðum eins og mínum heimabæ, verkamannaúthverfum í jaðrinum á Ríó.
Líkt og hipphopp í Bandaríkjunum er funk carioca ósvikin tjáning á þeim félagsvanda sem hvílir á íbúum Ríó. Um tíma íhuguðu brasilísk stjórnvöld að gera funk glæpsamlegt vegna texta sem endurspegla hin hversdagslegu vandamál í favelunum. En ferill minn hófst í funk-senunni í favelunum og þar finna margir ungir Brasilíumenn leið til að tjá sig.
Tónlistin kann að endurspegla veruleikann, en í favelupartíunum, sem oft eru kölluð „baile funk“, færist tónlist yfir á hærra svið. Þessi partí veita oft undankomuleið frá harðindunum, sem lýst er í þaula í lögunum. Þrautseigja og andi þessara samkoma hafa átt lykilþátt í að gera brasilískt funk að fyrirbæri og skipt sköpum í að vera konum hvatning og að taka kynferðislegu frelsi opnum örmum. Þær eru einnig orðnar snar þáttur í afkomu Ríó og tryggja afkomu fjölda fjölskyldna á stöðum sem eru sambærilegir við mínar uppeldisslóðir.
Tónleikarnir mínir endurspegla sálina í þessum brasilískum funk-veislum. Oft brýst fram hópdans meðal áhorfenda þegar ég kem fram. Ég verð vitni að þeirri samheldni sem carioca-tónlistin getur búið til og hverf aftur til tilfinninganna sem ég upplifði í veislunum í mínum heimabæ. Allt þetta minnir mig á sameiningarkraft brasilísks funks.
Anitta er brasilískur söngvari og lagahöfundur. Sjötta hljóðversplata hennar nefnist Funk Generation og kom út 2024.
© 2024 Anitta