Ryan Gellert
er stjórnarformaður Patagoniu.
Árið sem er að líða hefur verið þeim fyrirtækjum þungt í skauti sem kjósa að breyta rétt. Eitt er að henda reiður á erfiðri fjármálastöðu heimsbyggðarinnar – ofan á það hafa heilu vörumerkin fengið það óþvegið frá hópum aðgerðasinna varðandi allt frá loftslagsmálum upp í stuðning við pride-hátíðir og að hvetja kjósendur til að nýta atkvæðisrétt sinn.
Talið frá árinu 2023 hafa rúmlega hundrað lagafrumvörp gegn grundvallaratriðum umhverfis, samfélags og stjórnunar verið lögð fyrir Bandaríkjaþing og þing einstakra ríkja á meðan hægrimenn og aðgerðasinnar neyða ábyrg fyrirtæki áfram inn í menningarstríð með því að úthrópa þau sem „árvökul“ [e. woke].
Fresturinn er runninn út
Þegar fáeinum fyrirtækjum leiddist þófið og þau ákváðu að draga í land hvað fjölbreytileika og loftslagsmál snerti spruttu fyrirsagnir um þverrandi ábyrgð atvinnulífsins upp eins og gorkúlur.
Svona lagað gerist þegar hljóðbútar og slagorð koma í stað raunverulegrar heimavinnu. Núorðið er nánast útilokað að finna framleiðsluvörur sem ekki er fullyrt að séu „grænar“, „sjálfbærar“ eða framleiddar með ábyrgum aðferðum. Þótt sumir framleiðendur leggi sig í líma við að láta þetta standast átta aðrir sig á þeim raunveruleika að fjárfestarnir og viðskiptavinirnir fylgjast glöggt með og það er langt síðan fresturinn til að sýna fram á árangur rann út.
Þegar ég lít yfir árið sem er að líða finnst mér eins og bakslagið í garð ábyrgðar fyrirtækja – og sérstaklega í garð sjálfbærni – hafi verið ýkt. Á meðan sum fyrirtæki gera minna úr skuldbindingum sínum hlýjar það mér um hjartarætur að önnur leggja í hljóði á ráðin um að draga úr útblæstri, hlúa að starfsfólki sínu og skapa samfélög sem sameina. Þarna er verið að bretta upp ermarnar og þarna næst árangur þrátt fyrir skapvonda sérfræðinga og nettröll á samfélagsmiðlum.
Sama er hve tuðað er, fjöldi fyrirtækja lætur ekki deigan síga. Ef marka má könnun Deloitte frá því í ár juku 85 prósent fyrirtækja heimsins fjárfestingar sínar í sjálfbærni (aðeins eitt prósent tikynnti úrdrátt). Hjá Patagoniu, útvistarfataframleiðandanum sem ég veiti stjórnarformennsku, vitum við af 51 árs reynslu að stuðningur við umhverfið er stuðningur við fyrirtækið. Það er þó ekkert áhlaupaverk og margt þeirra verka sem fyrirtækið er þekkt fyrir – svo sem að skapa gagnsæi í aðfangakeðju og kaupa umhverfisvænar vörur frá sama birgja – krefst margra ára rannsókna, fjárfestinga og innviðasmíða.
Við erum ekki ein …
Þessu fylgir enginn glamúr, það gerist bak við tjöldin og þótt vel gangi táknar það ekki að við getum auglýst okkur fyrir það. Þetta er hins vegar nauðsynleg vinna til að tryggja framtíð plánetunnar okkar og við gefumst aldrei upp á að vera eins ábyrgt fyrirtæki og við getum verið.
Við erum ekki ein á þeirri vegferð, það sýnir fjöldi viðurkenninga til handa umhverfislega ábyrgum fyrirtækjum sem sveitast blóðinu til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið jafnt sem félagslega þáttinn. Jafnvel þar skortir þó ekki gagnrýnina.
Allt er þetta hluti mun stærri samfélagsáskorunar: Dyggðayfirlýsingar, myllumerki og tíst kalla á gagnrýna hugsun og alvarlega umræðu um knýjandi áskoranir á borð við loftslagsneyðina. Samfélagsmiðlar eru til þess hannaðir að kalla fram músarsmelli, en hverju skilar það? Árangur næst með því að vinna erfiði. Við skoðum vandamálin og leitum lausnanna, sundrungin skapar tækifæri.
Fyrirtæki sem búa yfir samvisku eiga mikið verk fyrir höndum. Orð eru til alls fyrst, en gjörðir þurfa að styðja þau. Svo lengi sem okkur er ekki stætt á að hunsa gagnrýni á vettvangi „árvekniskapítalisma“ [e. „woke capitalism“] held ég að við ættum að gæta okkar á grænni örmögnun [e. greenwashing] og fyrirtækjatuði sem raunveruleg stefnumál styðja ekki við bakið á. „Grænt“, „jarðarvænt“, „endurunnið“, „náttúrulegt“, „sjálfbært“ – þetta lítur allt saman vel út á merkimiðanum. En gagnsæi er lykillinn: Hver er hin raunverulega skuldbinding, vottun og gögn sem styðja þessar fullyrðingar? Viðskiptavinurinn vill vita það – og hann á rétt á því.
Okkar viðskipti ekki heilög
Hljóðbútar um „sjálfbærni“ eru villandi og leysa engin vandamál. Þar liggur sannleikurinn í mínum iðnaði. Tískuiðnaðurinn í heild sinni er ábyrgur fyrir um tíu prósentum losunar heimsins, gríðarlegri vatnsnotkun og heilu landfyllingunum af fötum sem varla hafa verið notuð.
Okkar viðskipti eru heldur ekki heilög. Patagonia – sem nýtir lífræna bómull og endurunnin efni alls staðar styður verksmiðjur sem greiða mannsæmandi laun og hvetur viðskiptavini sína til að kaupa færri vörur og vandaðri – er hluti vandans. Við reynum allt til að vera ábyrgt fyrirtæki sem ígrundar hverja einustu ákvörðun. Engu að síður hefur hver flík sem við seljum neikvæð áhrif á plánetuna. Enginn vatnssparnaður eða aðfangakeðjuendurskoðun mun bæta að fullu það tjón sem við völdum.
Þegar allt kemur til alls …
Það sem virkilega heldur fyrir mér vöku er að þrátt fyrir að við gerum okkar besta tökum við enn meira frá jörðinni okkar en við spörum henni. Þess vegna köllum við okkur ekki „sjálfbært“ fyrirtæki. Það er líka ástæðan fyrir því að við nýtum allan þann gróða sem við ekki endurfjárfestum í fyrirtækinu til að vinna gegn loftslagsvánni og styðja umhverfisaðgerðasinna, náttúruvernd og grasrótarhópa sem láta sér annt um víðerni og vatnasvæði.
Þegar allt kemur til alls snýst sjálfbærni og ábyrgð fyrirtækja sem heildar um meira en að vera móðins, reka flotta herferð eða hrópa hæst. Þessir þættir snúast um að takast á við ögrandi áskoranir, finna skapandi lausnir og stjórna með því að deila gildum okkar. Fyrirsagnir breytast og rifrildi á lýðnetinu gleymast. En sú tileinkun að hlúa að fólkinu og plánetunni deyr aldregi. Á henni veltur framtíð okkar.
© 2024 The New York Times Company og Ryan Gellert