— Carolina Moscoso
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reid Hoffman Það er siðferðisleg skylda okkar að þróa gervigreind áfram Þegar gervigreind ruddist fram á sviðið með ChatGPT hófst vitsmunaleg iðnbylting. Gervigreind virðist ætla að skila stafrænni umbyltingu sem er sambærileg við fyrri…

Reid Hoffman Það er siðferðisleg skylda okkar að þróa gervigreind áfram

Þegar gervigreind ruddist fram á sviðið með ChatGPT hófst vitsmunaleg iðnbylting. Gervigreind virðist ætla að skila stafrænni umbyltingu sem er sambærileg við fyrri áþreifanlegar framfarir í flutningum, flæðisstjórnun og framleiðslu. Árið 2025 og og næstu ár munum við byrja að finna fyrir hversdagslegum áhrifum þess hvernig gervigreindin magnar vitsmunagetu okkar mannanna.

Sum forrit, eins og sérsniðnir gervigreindarlæknar eða leiðbeinendur sem nálgast má allan sólarhringinn með snjallsíma, eru augljós dæmi um hvernig gervigreind mætir alþjóðlegri þörf með núverandi getu sinni. En jafn djúpstæð tækni og gervigreind er mun einnig leiða til stórkostlegra nýjunga sem koma á óvart og munu aðeins virðast augljósar í baksýnisspeglinum.

Ég trúi á frumkvöðlaanda og markaðskrafta neytendahegðunar til að knýja fram nýsköpun en ég tel líka að vegna fjölda hnattrænna vandamála sem menn hafa enn ekki getað leyst sé það siðferðisleg skylda okkar að þróa gervigreind áfram. Þess vegna tel ég að við verðum að nota gervigreind til að auka hæfileika mannsins til að leysa brýnustu vandamál okkar – frá loftslagsbreytingum og útrýmingu sjúkdóma til þess að auka aðgang að tækifærum. Í ljósi þess lít ég á það sem markmið í sjálfu sér að styðja við áframhaldandi þróun og nýtingu gervigreindar.

Þessi siðferðislega krafa á við á fjölbreyttum sviðum. Gervigreind er siðferðislega jákvæð fyrir heiminn, þar sem hún er lykillinn að því að leysa helstu vandamál okkar. Gervigreind er siðferðislega jákvæð fyrir samfélagið, þar sem hún gerir okkur kleift að smíða öflugri vinnupalla fyrir líf okkar sem endurspegla mannhyggjugildi okkar betur. Kannski er það þó mikilvægast að gervigreind er siðferðislega jákvæð fyrir einstaklinginn, þar sem hún eykur mannlega getu okkar og möguleika á að láta vonir okkar og drauma rætast.

Til að efla gervigreind þurfum við að einbeita okkur að eftirliti og notkun gagna. Nú sjáum við þær framfarir sem þarf í vélbúnaði og hönnun til að auka getu gervigreindar en það er áhyggjuefni að okkur kunni að skorta gögn til að ná næsta stigi. Ég myndi vilja sjá samstillt átak allra hagsmunaaðila um leyfiskerfi og skapandi lausnir. Það er nauðsynlegt að við stuðlum að sameiginlegri trú á því að notkun gagna sé ekki þjófnaður heldur til almannaheilla.

Að gera fleiri gögn aðgengileg til að bæta gervigreind mun skila betri verkfærum fyrir samfélagið, atvinnulífið og einstaklinga. Aukinn samfélagslegur skilningur á þessari mikilvægu tengingu mun draga úr þeim deilum sem staðið hafa um eignarhald gagna. Í stað þess að við hugsum um gögn eins og við hugsum um persónulegri eigur „fötin mín“ eða „bílinn minn“ ætti eignarhald gagna að endurspegla hve mikið er til af þeim. Við höfum breytt meðferð höfundarréttar til að opna fyrir sanngjarna notkun og á svipaðan hátt verðum við að beita höfundarrétti á tímum gagnagnægðar þannig að hann bæði verndi réttindi fólks og geri hagvöxt mögulegan.

Gervigreind verður lykillinn að vexti og umbótum í samfélögum heimsins. Þökk sé vaxandi sameiginlegum skilningi á umbreytingarmöguleikum þessarar tækni mun hún hjálpa okkur að hafa jákvæð áhrif á milljarða mannslífa.

Reid Hoffman er frumkvöðull og áhættufjárfestir. Hann er annar stofnenda LinkedIn og höfundur væntanlegrar bókar, Superagency: What Could Possibly Go Right with Our AI Future.

Marc Benioff Umbreytingarkraftur gervigreindar getur gagnast öllum

Á ferli mínum í Sílikondal í Kaliforníu hef ég séð ýmsar nýsköpunarbylgjur. Engin jafnast þó á við djúpstæð áhrif gervigreindar, sem er einkennandi tækni okkar tíma – og líklega hvaða tíma sem er. Á örfáum árum hafa komið fram þrjár kynslóðir gervigreindar. Fyrst komu forspárlíkön sem greina gögn. Næst kom skapandi gervigreind, knúin áfram af djúpnámslíkönum eins og ChatGPT. Nú erum við að upplifa þriðju bylgjuna – sem einkennist af gervigreindartólum sem geta sinnt flóknum verkefnum án utanaðkomandi stjórnunar.

Þessi tól geta aukið mannlega getu með hætti sem áður var óhugsandi. Í fararbroddi þessarar þriðju bylgju er Agentforce, flokkur gervigreindartóla frá Salesforce sem gera fyrirtækjum kleift að fækka starfsmönnum verulega og nýta sér gervigreind til venjubundinna verkefna og jafnvel ákvarðana.

Ímyndaðu þér heim þar sem fyrirtæki geta látið gervigreind stjórna samskiptum við viðskiptavini, greina gögn, hámarka sölu og sinna stjórnunarverkefnum í rauntíma með litlu eftirliti manna. Þetta gæti aukið framleiðni fyrirtækis og gert starfsmönnum kleift að einbeita sér að verðmætari vinnu; efla nýsköpun, sköpunargáfu og viðskiptatengsl. Markmið Agentforce er að auka getu hvers starfsmanns, bæta samskipti við viðskiptavini og auka vöxt og framlegð.

Þetta samstarf sem sameinar sköpunargáfu og gagnrýna hugsun mannsins annars vegar og nákvæmni og sveigjanleika gervigreindar hins vegar verður hornsteinn vinnustaða framtíðarinnar. Við hjá Salesforce sjáum fyrir okkur að beita meira en einum milljarði gervigreindartóla fyrir viðskiptavini okkar fyrir lok árs 2025.

Tilkoma gervigreindar er einstakur viðburður fyrir hagkerfi heimsins. Nauðsynlegt er að stjórnendur fyrirtækja og stjórnmálaleiðtogar geri grein fyrir grunngildum sínum og setji þar traust efst á listann.

Fyrirtæki á borð við fyrirtæki mitt þurfa að tryggja að gervigreind sé áreiðanleg og öruggt og að ávinningi hennar sé deilt sem víðast. Þeim ber einnig skylda til að forgangsraða öryggi og friðhelgi gagna sem knýja þessa gervigreind. Það ætti að vera ljóst að gögnin þín eru ekki söluvara einhvers annars. Og við ættum að hafa regluverk sem verndar mannréttindi og öryggi á sama tíma og við hvetjum til nýsköpunar.

Við þurfum líka að fjárfesta meira í þjálfun yngri kynslóða fyrir störf morgundagsins, þar sem sköpunarkraftur og gagnrýnin hugsun – mannlegir eiginleikar – verða mikilvægari en nokkru sinni fyrr.

Umbreytingarmöguleikar gervigreindar eru gríðarlegir en þeim fylgir sú ábyrgð að tryggja að þessi tækni komi öllum til góða. Hvernig þessi nýjasta kynslóð gervigreindar lifnar við og hvernig það hefur áhrif á alla þætti siðmenningar okkar er undir okkur komið.

Marc Benioff er framkvæmdastjóri Salesforce.

Richard Baldwin Gervigreind getur jafnað ráðningartækifærin

Ég er nýfarinn að skilja að gervigreind mun hleypa af stokkunum alþjóðlegri hæfileikabylgju með því að brúa tungumála-, færni- og menningarbil. Þessi óvænta innsýn birtist mér smátt og smátt við kennslu við IMD Business School.

Ég stóð frammi fyrir stjórnendum frá meira en tug landa og bað ChatGPT að skrifa tveggja mínútna ræðu til að bjóða nýja starfsmenn velkomna. Ræðan var svo áberandi amerísk að einn þátttakendanna spurði hvort ChatGPT hefði greint hreim minn. Ég hafði ekki hugsað út í það en greip tækifærið og bað appið að sérsníða ræðuna fyrir nýliða frá Bretlandi, Írlandi, Kenýa, Indlandi og Suður-Afríku. Útkoman var fimm menningarlega ólíkar ræður. Það varð ljóst að ChatGPT býr yfir menningarlegri fjölhyggju.

Þetta var fyrsta „aha“-augnablikið mitt. Ég áttaði mig á því að gervigreind getur hjálpað til við að brúa menningarbil.

Næsta sambærilega augnablik kom þegar ráðgjafar frá Boston Consulting Group kynntu rannsóknir á notkun skapandi gervigreindar. Niðurstöðurnar voru sláandi: ráðgjafarnir skiluðu allir betra og fljótlegra verki með því að nota skapandi gervigreind, sérstaklega þeir sem höfðu minni reynslu. Þessi „jöfnunaráhrif“ hafa verið staðfest víða.

Eftir á að hyggja virðist slík jöfnun óumflýjanleg. Skapandi gervigreind er þjálfuð með miklu magni gagna en notar tækni til að forgangsraða hágæðavinnu, sem felur í sér sérfræðiþekkingu fremstu fagaðila. Notkun gervigreindar getur hjálpað yngri ráðgjöfum að skila verki sem nálgast hina sem reyndari eru. Bestu ráðgjafarnir hafa enn sem komið er meira að bjóða viðskiptavinum en óreyndari samstarfsmenn þeirra, en gervigreindin hjálpar til við að gera betur við viðskiptavini sem minna hafa á milli handanna.

Þetta var annað ljósaperuaugnablikið mitt. Það þriðja stafaði frá alþjóðlegum hlutverkaleik.

Ímyndaðu þér að starfsmenn í láglaunalöndum séu settir í hlutverk lítið þjálfaðra ráðgjafa í Boston Consulting Group-rannsókninni. Með jöfnunaráhrifum gervigreindar verður frekar hægt að skipta á Bandaríkjamönnum og erlendum fjarvinnumönnum. Niðurstaðan er skýr: bandarísk fyrirtæki eiga auðveldara með að skipta Bandaríkjamönnum út fyrir starfsmenn sem beita gervigreind en búa á stöðum þar sem 10 dollarar á klukkustund eru millistéttarlaun.

Þetta varð alveg ljóst þegar rætt var um raddþýðingu í rauntíma og hvernig hún gæti útrýmt tungumálahindrunum. Ímyndaðu þér Zoom-fund á milli hins spænskumælandi Ricardo og hinnar enskumælandi Emily. Gervigreindin þýðir og raddsetur í rauntíma þannig að Emily heyrir ensku á meðan Ricardo talar spænsku og öfugt. Enginn texti, engar tafir.

Þessi röð upplifana leiddi til óvæntrar hugljómunar. Gervigreind mun jafna færni, rjúfa tungumálamúra og jafna út menningarbil, þannig að möguleikar opnast fyrir skrifstofufólk um allan heim.

Við fyrstu sýn hljómar þetta eins og gervigreind gæti leitt til útflutnings á skrifstofustörfum frá Bandaríkjunum á sama hátt og hnattvæðingin færði verksmiðjustörf frá Bandaríkjunum. Ég held að það muni ekki gerast. Þjónustugeirinn er allt öðruvísi en framleiðslugeirinn. Til dæmis selja Bandaríkin láglaunaríkjum mun meiri þjónustu en þau kaupa af þeim, vegna þess að ódýrasta þjónustan er ekki alltaf sú verðmætasta. Þar að auki munu nýju þjónustuleiðirnar snúa í báðar áttir. Við munum sjá fleiri erlenda fjarvinnumenn á skrifstofum í Bandaríkjunum og fleiri bandaríska fjarvinnumenn á erlendum skrifstofum.

Ég er bjartsýnn á að tekjur muni hækka frekar en lækka, þar sem gervigreind eykur færni um allan heim. Hins vegar er þessi niðurstaða háð því að Bandaríkjamenn taki gervigreind í þjónustu sína. Gervigreindin mun ekki hrifsa starfið þitt en einhver sem notar gervigreind gæti gert það, sérstaklega ef þú ert ekki að nota gervigreind líka.

Richard Baldwin er prófessor í alþjóðahagfræði við IMD Business School.

Xiaolan Fu Samþætting gervigreindar og mannlegrar þekkingar mun ýta undir hagvöxt

Gervigreind er að valda nýrri iðnbyltingu sem mun hafa djúpstæð áhrif á alla þætti hagkerfisins og samfélagsins. Ég tel að gervigreind muni endurmóta hagkerfi heimsins á næstu árum á nokkra vegu.

Í fyrsta lagi er gervigreind að knýja áfram endurskipulagningu alþjóðlegra virðiskeðja, sem leiðir til flutnings aðfanga til að auka skilvirkni. Þessi endurskipulagning felur í sér að framleiðslugeirinn taki við sér á ný í Norður-Ameríku og Evrópu og vinnufrek þjónusta á borð við bókhald, lögfræðiaðstoð og þjónustu við viðskiptavini verði sjálfvirknivædd að miklu leyti. Gervigreind hámarkar sýnileika birgðakeðjunnar, spáir fyrir um sveiflur í eftirspurn og hagræðir skipulagi, sem ýtir undir sérsniðna þjónustu og nákvæma markaðssetningu til að koma til móts við sértækar þarfir neytenda.

Gervigreind er einnig að koma af stað djúpstæðri umbreytingu á alþjóðlegum vinnumarkaði. Þó að sjálfvirkni geti útrýmt ákveðnum endurtekningarsömum störfum skapar hún einnig eftirspurn eftir nýjum hlutverkum, svo sem gervigreindarþjálfara, gagnafræðinga og vélanámsverkfræðinga. Hún skapar nýjar starfsgreinar sem fela í sér notkun gervigreindar til að sinna hefðbundnum störfum, eins og listamenn sem byggja á og nýta sér gervigreind. Þessi umbreyting krefst endurmenntunar starfsmanna fyrir flóknari verkefni sem ekki er hægt að sinna með sjálfvirkni heldur með skapandi lausnum og tilfinningagreind.

Framfarir í gervigreind ýta undir vöxt sprotafyrirtækja og „A.I.+“-nýsköpun í fjölbreyttum atvinnugreinum og á stórum tungumálaverkvöngum eins og GPT. Með gervigreind geta fyrirtæki metið og aukið gildi sprotafyrirtækja í tæknigeiranum, auðveldað nýsköpun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum og stutt tækniflutning til þróunarríkja.

Hröð þróun gervigreindar í Kína hefur komið landinu í lykilstöðu á heimsvísu. Með umtalsverðum stuðningi stjórnvalda, miklum gagnaauðlindum og líflegu nýsköpunarumhverfi er Kína á góðri leið með að verða stórveldi í greininni. Kína státar af blómlegri flóru sprotafyrirtækja í krafti umtalsverðra áhættufjárfestinga.

En áhrif gervigreindar á alþjóðlegan ójöfnuð eru tvíeggjað sverð. Þó að hún ýti undir hagvöxt, auki aðgengi að þjónustu og skapi ný tækifæri getur óheft notkun gervigreindar aukið núverandi bil milli stétta, heimshluta og félagslegra hópa. Til að ávinningur af gervigreind skili sér sem víðast verða hagsmunaaðilar með þróun og nýtingu gervigreindar að takast á við vandamál á borð við óhlutlægni, ójafnt aðgengi að tækni og getubil.

Að lokum er þátttaka mannsins enn mikilvæg við að leiðbeina og stjórna þessari tækni. Gervigreind fleygir fram og því eru öflugir stjórnarhættir nauðsyn til að tryggja sanngjarna og skynsamlega dreifingu ávinnings af gervigreind meðal hagkerfa heimsins. Nýjungar þar sem gervigreind og mannleg innsýn fara saman með þarfir og gildi mannsins í fyrirrúmi eru lykillinn að sjálfbærum tækniframförum.

Gervigreind mun breyta uppbyggingu atvinnuvega og efnahag heimsins. Við munum sjá breytingar á aflsmun ríkja og sérhæfing mun finna sér ný athafnasvæði. Gervigreind mun einnig leiða til umbreytinga á vinnumarkaði og aukinna nýjunga í stafræna geiranum. Tæknigeta mun í auknum mæli safnast saman í fáum löndum og tæknibilið milli þróaðra ríkja og þróunarríkja mun vaxa. Raunveruleg hætta er á tengslarofi í tækniþróun milli leiðandi ríkja vegna samkeppni í gervigreind og annarri lykiltækni.

Þróun alþjóðahagkerfisins byggist á að tvinna saman gervigreind og mannlega visku. Tækniframfarir með mannmiðaða hönnun og manngildi í fyrirrúmi munu knýja vöxt án aðgreiningar og sjálfbæra þróun alþjóðahagkerfisins.

Xiaolan Fu er stofnandi og framkvæmdastjóri Tækni- og stjórnunarmiðstöðvar þróunar og prófessor í tækni og þróun á alþjóðavettvangi við Háskólann í Oxford.

© 2024 The New York Times Company