Viet Thanh Nguyen
er höfundur skáldsögunnar The Sympathizer, sem hann hlaut fyrir Pulitzer-verðlaunin, og framhald hennar, The Committed, auk annarra bóka. Hann er prófessor í ensku, ameríkufræðum, mannfræði og samanburðarbókmenntum við Háskóla Suður-Kaliforníu.
„Fjöldabrottflutning núna.“ Þetta kjörorð stóð á mörgum skiltum sem veifað var á kosningafundi í sumar fyrir Donald Trump, sem þá var forsetaframbjóðandi og nú bíður þess að taka embætti. Ekki löngu síðar brutust út fjöldaóeirðir gegn innflytjendum um allt Bretland og hvítur múgur af jaðri hægri vængjarins fór hamförum í borgum um allt land. Kveikjan var morð á börnum, sem fólkið taldi að múslimskur innflytjandi hefði framið (hinn meinti árásarmaður var fæddur á Bretlandi og alinn upp í kristni). Förumenn og flóttamenn eru neyðarástand fyrir þá, sem líður eins og umsátur sé um heimili þeirra – en hvað ef vandinn er ekki þau, fólkið sem leitar að nýjum heimkynnum, heldur við sem tökum á móti þeim?
„Við“ er tvíeggjað orð fyrir mig að nota því að ég er líka einn af „þeim“. Ég var sjálfur flóttamaður og er barn flóttamanna. Jafnvel þótt ég eigi hús og sé með bandarískan ríkisborgararétt lít ég á mig sem einn af „þeim“ í anda ef ekki í raun. Eins og margir flóttamenn hef ég aldrei getað gleymt hvernig það er að vera á vergangi og vera minna en mennskur í augum stórs hluta heimsins. Sumum flóttamönnum er hins vegar svo í mun að gleyma þessari reynslu að þeir snúast gegn öðrum sem leita skjóls yfir alþjóðleg landamæri. Það er því kaldhæðnislegt þegar til dæmis sumir þessara flóttamanna eða afkomendur þeirra krefjast þess að halda nýjum aðkomumönnum úti með jafn háværum hætti og þeir, sem eru með rætur, sem ná lengra aftur. „Við erum góðu flóttamennirnir,“ er fullyrt. „Þessir nýju flótta- og förumenn eru þeir slæmu og ólöglegir. Við komum löglegu leiðina.“
Horfum fram hjá því hvernig lögmæti getur verið geðþóttahugtak skilgreint af hinum valdamiklu eftir þeirra hagsmunum. Að baki hinum vandasömu smáatriðum löggjafar um innflytjendur – hversu mörgum eigi að hleypa inn, tímbundin dvalarleyfi eða tímabundin atvinnuleyfi, sakaruppgjöf eða glæpavæðing – er að rótin að ákallinu um að reisa landamæramúra og reka burt flóttamenn og innflytjendur er sálfræði ótta, ásakana og skorts.
Þetta er hið innsta myrkur óttans við flóttamenn og förumenn og það skrumskælir alla umræðu um stefnumótun og sanngirni, verður til þess að við afneitum okkar sök og varpar verstu útgáfunum af okkur sjálfum yfir á þessa ókunnugu hina, sem af stafar víst sú ógn að þeir muni gera okkur það sem við oft og tíðum höfum gert þeim.
Skynjun okkar á flóttamönnum og förumönnum þarf að breytast áður en stjórnvöld, hver sem þau eru, taka nokkra ákvörðun um þetta fólk. Það er vegna þess að flóttamenn og förumenn eru í raun í hugum þeirra sem gera þá að blórabögglum birtingarmynd þess að landamæri eru að þurrkast út, sem kemur bókstaflega fram í línum á landakortinu, en nær allt inn í landamæri sem eru innra með okkur og snúast um það hvernig við sjáum okkur sjálf, menningu og þjóðir.
Tilhneigingin sem finna má með sumum hópum og þjóðum til að drottna yfir fólki eða landi og sækja auðlindir fyrir eigin ábata hefur getið af sér heim þeirra sem eiga og þeirra sem ekkert eiga. Meðfylgjandi er tilfinning margra að ekki sé nóg til skiptanna fyrir alla. Þegar kemur að fólksflutningum er afleiðingin tvíþætt: efnahagslegar, pólitískar og náttúrulegar hamfarir hafa með valdi leitt til þess að 117 milljónir manna eru á vergangi. Þetta er kveikjan að því viðhorfi að það verði að halda þeim úti því annars verði mögulegir gestgjafar ofurliði bornir.
En ef flótta- og förumenn eru afleiðing mistaka úr fortíðinni, eru þeir einnig til marks um framtíðina. Með því að líta á þá sem neyðarástand og vandamál er einfaldlega verið að endurtaka söguna sem olli og mun halda áfram að valda því að fólk flosnar upp í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Okkar tímar eru ólíkir fyrir fólk frá ríkari löndum að því leyti að það mun einnig neyðast til að finna sér ný heimkynni. Loftslagsváin þekkir engin landamæri og þeir, sem loftslagsbreytingar hafa hrakið á vergang, valda þeim, sem enn búa við þægindi, óhug.
Hvernig munu þeir bregðast við? Þegar víetnamskir flóttamenn flúðu land sitt sjávarleiðina á áttunda og níunda áratugnum urðu þeir að „bátafólkinu“ og hlutskipti þeirra vakti samúð og gestrisni um allan heim. Heimurinn vissi um stríðið í Víetnam og hægt var að taka á móti nokkur hundruð þúsund flóttamönnum og jafnvel heilli milljón. Það sama átti sér stað þegar myndir voru teknar af líki hins tveggja ára gamla Alans Kurdi liggjandi á grúfu á strönd við Miðjarðarhafið. Myndin kveikti mikla samúð um allan heim. En Kurdi, sem var sýrlenskur flóttamaður, var birtingarmynd miklu umfangsmeira vandamáls en víetnömsku flóttamennirnir: hvernig eigi að taka á móti tugum milljóna manna sem hafa flosnað upp frá heimilum sínum – og hvernig eigi að koma í veg fyrir að þeir fari á vergang.
Samúðin, sem hafði virkað fyrir víetnömsku flóttamennina, dugði ekki fyrir Kurdi eða 21 milljón flóttamanna sem var á vergangi um allan heim þegar hann lést. Níu árum síðar var fjöldi fólks á hrakhólum kominn í 43 milljónir og eru þeir, sem hafa flosnað upp og eiga ekkert heimili en fara aldrei út fyrir sín landamæri, ekki með í þeirri tölu.
Ef samúð dugar ekki til, gæti samkennd þá kveikt gestrisni? Ólíkar trúarlegar kennisetningar boða að við eigum að taka ókunnugum fagnandi, fæða þá sem svelta, gefa án þess að gera ráð fyrir að fá neitt í staðinn. Ef ekki samkennd, gætu rök breytt stefnu og viðhorfum? Rannsóknir gefa til kynna að flóttamenn og förumenn séu góðir og nauðsynlegir fyrir efnahaginn, að ekki sé minnst á þætti sem erfiðara er að mæla á borð við mat, tónlist, menningu, dans, hugmyndir og sköpunargleði.
Gæti eiginhagsmunasemi þegar upp er staðið borið óttann ofurliði þegar við áttum okkur á að velferð okkar yrði betur þjónað með því að draga úr eða losa okkur við hernaðarhyggju, neysluhyggju, kapítalisma og nýlenduhyggju, allt kraftar, sem eru hannaðir til að taka frá fjöldanum í þágu hinna fáu og með því valda upplausn hjá milljónum manna, sem síðan neyðast til að leita sér skjóls og griða?
Ekkert af þessu setur flóttamenn og förumenn á stall eða er til marks um að þeir séu betri en við vegna þjáningar þeirra. Engu að síður þarf gríðarlegt hugrekki til að ferðast mörg hundruð kílómetra í gegnum frumskóga og óvinveittar lendur eða stökkva um borð í ofhlaðna manndrápsfleytu líkt og margir Afríkubúar gera núna og Víetnamar gerðu á sínum tíma. Margir þessara Víetnama vita að líkurnar á að lifa af voru litlar, jafnvel bara einn á móti tveimur.
Til að viðurkenna flóttamenn og förumenn þurfa þau okkar, sem ekki hafa horft fram á að flosna upp, að átta sig á að þeirra flókna hlutskipti er bundið okkar hlutskipti, að áþján þeirra tengist ákvörðunum okkar að sama skapi og ákvörðunum þeirra, að þeirra örlög segja fyrir um okkar örlög. Þeir hafa neyðst til að grípa til sinna ráða, en mörg okkar njóta þess munaðar – enn sem komið er – að átta sig ekki á hversu alvarleg kringumstæður okkar eru. Að bjarga flóttamönnum og förumönnum er að bjarga okkur, en til þess þarf meira en samúð, gestrisni, samkennd eða jafnvel eiginhagsmunasemi. Það þarf hugrekki til aðgerða, bæði einstaklingsins og heildarinnar. Það þarf hugmyndaflug til að sjá gnótt frekar en skort, ef við gætum bara endurhannað þjóðfélög okkar til að varðveita og deila auðlindum, sem eru meira en nægar til að halda mannkyni uppi á þessari plánetu.
Við skulum segja aðra sögu þar sem ekki er nein flótta- eða förumannaneyð, sem er hvort sem er fyrirbæri sem ekki er hægt að stöðva með múrum, ekkert frekar en hægt er að afstýra hækkandi yfirborði sjávar. Þess í stað liggur fyrir okkur vandasamt verkefni með andlitum flóttamanna og förumanna, sem við sæjum ef við þyrðum að horfa að eru spegilmynd andlita okkar. Við getum neitað að horfa. Við getum mölvað spegilinn. Eða við getum horft í hann og séð í honum spegilmynd af andlitum okkar, sem biður okkur að umbreyta okkur, ekkert síður okkar vegna en þeirra.
© 2024 The New York Times Company og Viet Thanh Nguyen