Í heimi nútímans þar sem athyglina brestur og alþýðumenning kýs frekar auðmelt innihald er sinfóníuhljómsveit verulega vanmetinn gimsteinn. Hún er ekki aðeins vígi hinna æðri lista; hún er fulltrúi hins ákjósanlega samfélags þar sem samhljómur og samstarf ráða ríkjum. Hver einasti hljóðfæraleikari í hljómsveitinni óháð bakgrunni, kynþætti eða persónulegum smekk þekkir sitt hlutverk, hlustar á aðra og vinnur að því sameiginlega markmiði að flutningurinn verði eins góður og mögulegt er.
Hljómsveit er smækkuð mynd hins ákjósanlega samfélags. Í henni eru forustumenn hljóðfæraflokka og tónlistarmenn sem vinna saman og miðla málum, hvað sem líður þeirra eigin skoðunum. Ákvarðanataka í hljómsveit er lýðræðisleg, en þó með virðingu fyrir uppbyggingunni; tónlistarmennirnir treysta og fylgja sýn stjórnandans samhliða sjálfstæði og persónulegri tjáningu upp að vissu marki. Þetta viðkvæma jafnvægi endurspeglar skilvirkt samfélag þar sem einstaklingarnir vinna saman um leið og þeir virða forustuna.
Á okkar tímum eru sinfóníuhljómsveitir jaðarsettar í menningarlegu andrúmslofti þar sem andlegum metnaði og djúpri listrænni helgun er hafnað. Ranglega er litið á þær sem tákn fyrir yfirstéttarhyggju þegar þær eru í raun til marks um hið gagnstæða.
Klassísk tónlist er meira en bara skemmtun – hennar markmið er að kveikja hugsun og íhugun. Hins vegar er litið á hana sem flókna og hinir ólíku samfélagshópar heyra hana æ sjaldnar. Fyrir vikið líta margir á hana sem óaðgengilega eða að hún skipti ekki máli. Þetta er alvarlegur misskilningur því að klassísk tónlist er skrásetning siðmenningarinnar. Í henni er fólgin tilfinningaleg og andleg dýpt okkar sameiginlega ferðalags skráð með tungumáli tónlistarinnar.
Á dagskrá sinfóníuhljómsveita eru gjöful og margslungin verk eftir snillinga á borð við Beethoven, Mozart, Mahler og Stravinsky og þær eiga skilið meiri viðurkenningu og vernd. Þetta er hátindur mannlegrar tjáningar sem endurspeglar margbreytileika og dýpt sameiginlegrar arfleifðar okkar. Sinfóníuhljómsveitin ætti að njóta verndar UNESCO til að tryggja varðveislu hennar og viðurkenningu til handa kynslóðum framtíðarinnar. Að viðurkenna ómetanlegt framlag sinfóníuhljómsveitarinnar til menningarinnar er lykilatriði ætlum við að halda við auðlegð og margbreytileika listrænna afreka okkar.
Paavo Järvi er eistnesk-bandarískur hljómsveitarstjórnandi og hefur hlotið Grammy-verðlaunin. Hann er tónlistarstjóri Tonhalle-hljómsveitarinnar í Zürich, listrænn stjórnandi Þýsku kammerfílharmóníunnar í Bremen og stofnandi Pärnu-tónlistarhátíðarinnar í Eistlandi og Eistnesku hátíðarhljómsveitarinnar, sem þar kemur fram.
© 2024 The New York Times Company og Paavo Järvi