Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég fer ævinlega í mitt eigið sjóbað á fyrsta degi nýs árs, í friði og ró með útvöldum vinum og vinkonum. Þetta er táknræn athöfn þar sem við þvoum af okkur gamla árið og göngum til móts við nýtt ár og nýtt upphaf alveg nýböðuð, beint upp úr hafinu. Annars er ég ekki með neinar sérstakar hefðir um áramót, heldur spila eftir því hvar ég er stödd í heiminum hverju sinni og þá hef ég stundum gengið inn í siði þess lands,“ segir Halla Frímannsdóttir, hjúkrunarfræðingur, leiðsögumaður, stjörnuspekingur, jógakennari, heilari og galdrakona, svo fátt eitt sé nefnt, en hún rekur fyrirtækið Spiritual Journey. Margir þekkja þennan þúsundþjalasmið undir nafninu Halla himintungl, og er ekki úr vegi að spyrja hana út í stöðu himintungla nú um áramót og hvernig fólk geti unnið með það.
„Um áramót er upplagt að framkvæma einhvers konar táknrænan gjörning til að kveðja gamla árið og fagna því nýja. Mér finnst skemmtilegast að fylgja gangi tunglsins í þeim efnum, en núna er nýtt tungl 30. desember, sem er óskatungl, og þá er um að gera að óska sér. Síðan er hægt að fylgja því galdratungli eftir á fullu tungli í krabbamerkinu sem verður núna 13. janúar á nýja árinu, árétta þá óskirnar. Nýja tunglið 30. desember er í steingeitarmerkinu, sem er jarðarmerki og býður upp á að fólk einbeiti sér að hinum praktísku málum. Þá er lag að skerpa á eigin fjármálum, fyrir þá sem eru áhugasamir um að girða sig í brók á því sviði. Einnig er upplagt undir þessu tungli eða ákveða að taka heilsuna í gegn á nýju ári, því steingeitin er samviskusöm og það sem hún ákveður vill hún helst framkvæma. Þessi tunglstaða í steingeitarmerki styrkir fólk í því að halda við áform sín, svo þá er gott að setja sér markmið og einhvern ásetning fyrir nýtt ár. Líka getur verið styrkjandi og nærandi fyrir fólk að klæða sig upp á í einhverjum ákveðnum lit sem tengist líðan sem fólk vill efla á nýju ári. Þeir sem hafa hug á að fara í einhverja framkvæmdaorku ættu að klæða sig í rautt, en ef fólk vill efla almenna ást og kærleika er gott að klæða sig í bleikt. Það dugar alveg að fara í sokka, nærbuxur, hálsbindi eða skyrtu í þeim lit sem fólk velur til að magna upp ákveðnar tilfinningar. Ég mæli með að fólk leiki sér þannig með liti hugsaða fyrir nýtt ár, þegar það klæðir sig upp á á gamlárskvöld,“ segir Halla og tekur fram að grundvallaratriði um áramót sé að vera í nærandi félagsskap. „Fyrir sumum er það að vera einn, ein eða eitt með sjálfu sér, og þá er það alveg nóg.“
Tvenn áramót í almanaksárinu
Halla mælir með að fólk klukki sig með alls konar serimóníum á fyrsta degi nýs árs.
„Sumir eru ekkert fyrir köld böð og þá getur verið gott að kúra heima og kveikja á kertum, hafa það hlýtt og notalegt á nýársdegi. Hver og einn gæti verið búinn að kaupa sér rósir í sínum uppáhaldslit, nú eða lit sem er táknrænn fyrir einhverja tilfinningalega líðan sem fólk vill magna upp. Ég mæli hiklaust með að fólk skreyti heimili sín með þeim rósablöðum, þannig er hægt að anda inn í sig ásetningi fyrir nýtt ár,“ segir Halla og bætir við að sér finnist skemmtilegt að halda upp á nýtt upphaf í sínu lífi á afmælisdegi sínum.
„Á fæðingardegi í almanakinu byrja allir sitt nýja ár, þá færist sólin um eina gráðu í stjörnukorti hvers og eins. Í stjörnuspekinni byrjar þetta um þremur mánuðum áður en fólk á afmæli, magnast upp fram að deginum stóra og tekur sér hástöðu á afmælisdeginum. Sjö síðustu daga fyrir afmæli fólks eru ákveðnar heillastjörnur í kringum það og um að gera að nýta sér það. Þannig eru í raun bestu áramótin í kringum manns eigin afmælisdag, þau eru uppáhaldsáramótin mín. Allir eru í raun með tvenn áramót í almanaksárinu, sín eigin og svo áramótin sem heimurinn fagnar saman, en auðvitað ekki alls staðar, til dæmis ekki í Kína, því kínversku áramótin eru á fyrsta nýja tungli hvers árs.“
Skaust upp úr sjó á nýrri öld
Halla hefur verið stödd í ýmsum löndum um áramót í gegnum tíðina, um aldamótin 2000 var hún t.d. að vinna í Sádi-Arabíu.
„Fólkið sem þar býr er flest múhameðstrúar og ekki mikið fyrir að halda upp á ármót eða aldamót, þau eru með annað tímatal. En við sem vorum nokkur saman á útstöð í Jeddah, vinnufélagar hjá Air Atlanta-flugfélaginu, bjuggum þar á afgirtu svæði, af því við vorum ekki múslimar. Áfengi er stranglega bannað í þessu landi og við máttum bara vera úti á ákveðnum tíma dags. Þar sem gríðarlegar hörmungarspár voru fyrir aldamótin, meðal annars um að rafmagnið færi af öllum heiminum, þá hugsaði ég með mér: Ef þetta fer allt til andskotans er þá ekki gott að vera úti á sjó? Á þessum tíma var ég köfunarkennari í hjáverkum og ég biðlaði til samstarfsfólks míns sem fannst gaman að kafa, um hvort þau vildu koma með mér í nætursiglingu á þessum aldamótum, fagna neðansjávar og koma upp úr sjónum á nýju ári og nýrri öld. Þau voru til í það og við fengum ferðaleyfi og leigðum bát. Þegar sólin var sest veiddu bátsverjar humar handa okkur sem við borðuðum gufusoðinn, dýrindis aldamótamáltíð. Síðan settum við á okkur köfunarbúnað, fórum undir yfirborð sjávar þar sem hin mikla lífsorka býr. Við héldumst í hendur, töldum niður og komum saman upp á yfirborðið á nýju ári og nýrri öld. Viti menn, það var ljós í borginni, rafmagnið fór ekki af,“ segir Halla þegar hún minnist þessara mögnuðu aldamóta.
„Fyrir um 20 árum var ég stödd um áramót í Nígeríu í Afríku. Þá var reitt fram hlaðborð af óhefðbundnum mat fyrir galdrakonu frá Íslandi, en þar var í boði sebrahestur, krókódíll og fleira. Rafmagnsklukka var á vegg í veislusalnum þar sem við gestirnir fylgdumst grannt með, til að geta fagnað nýju ári á réttu augnabliki. En rafmagnið var alltaf að slá út þetta kvöld, sem gerði það að verkum að áramótin drógust á langinn þarna í Afríku. Þetta kvöld átti ég sennilega lengsta áramótakoss sem ég hef nokkurn tíma upplifað, allt í boði rafmagnsleysisins,“ segir Halla og hlær.
Skyrtu kærasta kastað á bál
Halla segist hafa blásið til eftirminnilegrar tunglhátíðar við hafið í Gróttu í Reykjavík þann 31. desember árið 2009.
„Þá var fullt tungl. Ég var nýkomin heim frá Taílandi og mér brá hvað allir voru þjakaðir af efnahagshruninu og almennum leiðindum því tengdum. Yfir hundrað manns mættu til þessarar tunglhátíðar, og maður minn hvað við göldruðum margt gott inn í árið 2010. Fulla tunglið var þá í merki krabbans, sem tengir inn á að næra kærleikann í hjartanu, og við kveiktum lítinn varðeld. Ég hafði boðið fólki að koma með eitthvað sem það vildi losa sig við og brenna á bálinu, fremja táknrænan gjörning. Sumir voru með greiðsluseðla af bankalánum og einhver kom með skyrtu af fyrrverandi kærasta og kastaði á bálið. Þetta var æðislegt, það var mikill kraftur í fólkinu, alveg ógleymanleg stund. Fólk getur gert svona serimóníur sjálft, rakað af sér hárið eða gert hvað sem það vill táknrænt til að hefja nýtt ár,“ segir himintunglið kankvíst.