Eliot Higgins
er verðlaunablaðamaður og stofnandi Bellingcat, vefsíðu þar sem er stunduð rannsóknarblaðamennska með áherslu á opnar heilmildir og upplýsingar.
Frá því að Donald Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna 2016 hafa stefnumótendur, hugveitur, fjölmiðlar og hinar ýmsu stofnanir verið að bregðast við uppgangi upplýsingausla um allan heim.
Iðulega er litið á upplýsingausla til marks um erlenda íhlutun; aðila á vegum ríkja eða kostaða af ríkum, sem reyna að hafa áhrif á gang stjórnmála í heiminum. Rússar voru til dæmis sakaðir um að reyna að grafa undan kosningaherferð Emmanuels Macrons í forsetakosningunum í Frakklandi árið 2017 og það virðist líklegt að reikningar á félagsmiðlum á vegum Rússa hafi verið notaðir til að snúa almenningsálitinu á sveif með því að ganga úr Evrópusambandinu fyrir atkvæðagreiðsluna um Brexit árið 2016.
Upplýsingausli er vissulega mikið notað verkfæri hjá löndum á borð við Rússland og Kína, en áhrif hans má rekja til grundvallarbreytinga menningar- og félagslegra – breytinga sem hafa breytt sambandi okkar við upplýsingar og sannleikann.
Á undanförnum áratug hafa samtök mín, Bellingcat, rannsakað fjölda mála, allt frá efnavopnaárásum í Sýrlandi til þess að flugvél frá Malaysia Airlines var grandað yfir austurhluta Úkraínu. Mikið af minni vinnu hefur gengið út á að afhjúpa og sannreyna hinar ýmsu útgáfur og fullyrðingar, sem kepptu um að stýra viðhorfum fólks, og eiga til að koma fram þegar slíkir atburðir eiga sér stað. Til þess notuðum við aðgengilegar upplýsingar til að bera kennsl á fólk, vopn, farartæki og fleira. Sumar þeirra frásagna, sem við sannreynum, eiga enga stoð í þeim gögnum sem liggja fyrir – um er að ræða falsupplýsingar eða samsæriskenningar – en þó ná þær fótfestu í gríðarstórum samfélögum á netinu.
Við að horfa á heimildarmyndina Behind the Curve – þar sem fylgst er með hópi fólks sem trúir því að jörðin sé flöt og er að reyna að sanna kenningu sína um að hún sé það en ekki hnöttur – áttaði ég mig á grundvallaratriði. Ólíkir hópar á borð við þá sem halda að jörðin sé flöt, eða reka áróður gegn bólusetningum eða hafna loftslagsbreytingum, deila oft tortryggni í garð viðtekinna vísinda og treysta á jaðarkenningar. Andstæðingar bólusetninga eiga það til dæmis sammerkt með flatjarðarhópnum að hafna vísindum, sem eiga sér langa sögu og njóta almennrar viðurkenningar, fyrir öndverðar skýringar sem falla að þeirra viðhorfum.
Um þessa hópa má nota þá víðu skilgreiningu að um sé að ræða fólk sem sé fullt af djúpu vantrausti gagnvart valdi og hefðbundnum uppsprettum upplýsinga á borð við stjórnvöld, vísindamenn, lækna eða bankamenn. Þessi tortryggni á sér oft rætur í þeirri tilfinningu að viðkomandi yfirvald hafi svikið þetta fólk eða valdið því skaða. Ástæðurnar gætu verið fullkomlega lögmætar – hvort sem þær eru persónulegar, félagslegar eða pólitískar – fyrir þessari tilfinningu um að hafa verið svikinn, en á netinu leiðir það þessa einstaklinga til að leita gagnstæðra viðhorfa utan hinnar viðteknu umræðu. Við það finnur þetta fólk samfélög á netinu, sem ýta undir tortryggni þeirra og vantrú.
Vitaskuld er ekkert að því að kafa dýpra í umræðuefni sem manni stendur ekki á sama um, sérstaklega ef það er ástæða til að vefengja hina opinberu útgáfu. En þegar fyrsti kostur er að treysta aldrei opinberum heimildum hljóta allir sem styðja afstöðu yfirvalda fyrir vikið að vera í slagtogi með þeim eða einfaldlega grunlausir um raunveruleikann. Þetta er andhverf heimssýn; ef X er slæmt er hið gagnstæða samkvæmt henni gott – eða í það minnsta ekki eins slæmt.
Þessi hugsunarháttur leiðir til vaxandi vandlætingar þegar hann blandast saman við líkt hugsandi samfélög á netinu sem stöðugt ýta undir hann og veita tilfinningu um tilgang og valdeflingu. Fólki finnst það vera að berjast gegn almennum rétttrúnaði sem – samkvæmt hinum mörgu bloggfærslum, vefsíðum, félagsvefjafærslum og áhrifavöldum í bergmálshellum þeirra – er í raun tilraun til að hrinda vilja fólksins.
Í störfum mínum hjá Bellingcat rannsökuðum við til dæmis net herferða til að breiða út rangar upplýsingar um borgarastríðið í Sýrlandi. Ákveðnir hópar voru sannfærðir um að meginstraumsfjölmiðlar og alþjóðastofnanir væru vísvitandi að breiða út falsfréttir um efnavopnaárásir Bashars al-Assads, forseta Sýrlands, á sýrlenska borgara. Nánar tiltekið töldu þeir að árásirnar hefðu annaðhvort verið settar á sviðið eða væru eingöngu verk Ríkis íslams eða al-Qaeda. Þessir hópar, sem töldu sig svikna af því sem þeir töldu vera hlutdræg fréttamennska, sneru sér að hópum á netinu, sem staðfestu tortryggni þeirra og ýttu undir fullyrðingar þeirra. Þeir deildu færslum og myndskeiðum þar sem máluð var mynd af risavöxnu samsæri sem staðfesti þá sannfæringu þeirra að þeir væru að afhjúpa „sannleikann“ sem aðrir væru að reyna að fela. Þessar fullyrðingar urðu síðan eins og bergmál sem styrkti enn vandlætistilfinningar þeirra við hvert „sönnunargagn“ sem þeir afhjúpuðu og festi í sessi andstöðu þeirra við þær staðreyndir sem sýnt hafði verið fram á.
Yfirleitt er það þannig að fólk gengur ekki í þessa hópa til þess að búa til og breiða út falsupplýsingar, heldur til að finna sannleikann. Linsan sem þetta fólk notar til að horfa á heiminn takmarkast hins vegar af þess eigin tilfinningu tortryggni og að hafa verið svikið, sem stöðugt er ýtt undir og mögnuð í nýja bergmálshellinum sem það er komið inn í. Því miður er þessi nýja tilfinning valdeflingar tálsýn sem leiðir til enn meiri pirrings og vaxandi róttækni í skoðunum.
Allt í einu breytist leitin að sannleikanum í íkveikjur á 5G-sendum eða tilraunir til að bjarga börnum í gíslingu á pítsastöðum.
Þar með er ekki sagt að hver einasti andstæðingur bólusetninga trúi því að Bill Gates hafi sett örflögu í bóluefnið, en hluti þess samfélags mun alltaf vera með róttækustu skoðanirnar og grípa til róttækustu aðgerðanna. Við getum séð fyrir okkur píramída þar sem öfgaminni viðhorfin eru neðst og þau öfgafyllstu efst.
Þetta er ekki vandamál sem við getum unnið okkur út úr með því að vera á staðreyndavaktinni því að oft verður litið á þá sem eru að reyna að sannreyna hlutina sem part af hinu liðinu – þeim sé ekki treystandi og verði auðveldlega léttvægir fundnir.
Og það kann að vera auðvelt að gera ekki neitt, en þá mun vandinn bara fara vaxandi.
Evrópusambandið hefur innleitt sáttmála um falsupplýsingar með það að markmiði að auka gagnsæi og ábyrgð þeirra sem eiga og reka félagsmiðla með því að skylda þá til að fjarlægja falska reikninga og draga úr útbreiðslu rangra upplýsinga. Í Bandaríkjunum hefur stofnun netöryggis og innviða opnað vefsíðuna Orðrómur gegn veruleika (Rumor vs. Reality) til að bregðast við röngum upplýsingum um kosningafyrirkomulagið í landinu.
Menntun er einnig lykilatriði. Hún getur gefið einstaklingum verkfærin til að hugsa sjálfstætt, gagnrýna heimildir og gera sér grein fyrir því hvað óþrjótandi upplýsingar, sem finna má á netinu, eru flókið fyrirbæri. Ef við bætum við kraftinum í þátttökulýðræðinu – þar sem borgararnir taka virkan þátt í upplýstri, gaumgæfilegri og ábyrgri rannsókn – mun leitin að sannleikanum ekki lengur liggja niður í kanínuholu samsæriskenninga.
Þetta kann að virðast langsótt eða erfitt markmið, en ég hef séð þetta gerast aftur og aftur fyrir tilstilli vinnu minnar hjá Bellingcat. Rannsókn okkar á því þegar áætlunarflugvél Malaysian Airlines var skotin niður byggðist á upplýsingum sem voru öllum aðgengilegar og varð til þess að rekja mátti slóð loftvarnarflaugarinnar sem var notuð og einstaklinganna sem áttu hlut að máli. Þessi vinna lagði grunninn að því að útvega sannanir fyrir alþjóðlegar rannsóknir sem urðu til þess að hægt var að sækja fjóra grunaða gerendur til saka fyrir dómi í Hollandi.
Þegar við skoðum þær áskoranir sem blasa við okkar samfélagi getur það hvað okkar nútímaheimur er þrátengdur hætt að vera dragbítur og þess í stað orðið til mikils framdráttar.
© 2024 The New York Times Company og Eliot Higgins