Drjúgur Garðar Ingi Sindrason átti gott mót fyrir Ísland í Þýskalandi.
Drjúgur Garðar Ingi Sindrason átti gott mót fyrir Ísland í Þýskalandi. — Morgunblaðið/Arnþór
Íslenska U19 ára landslið karla í handbolta mátti þola tap gegn Þýskalandi, 31:27, í úrslitaleik á alþjóðlegu móti í Merzig í Þýskalandi í gærkvöldi. Staðan í hálfleik var jöfn, 12:12, en þýska liðið reyndist sterkara í seinni hálfleik og sigldi sigri í höfn

Íslenska U19 ára landslið karla í handbolta mátti þola tap gegn Þýskalandi, 31:27, í úrslitaleik á alþjóðlegu móti í Merzig í Þýskalandi í gærkvöldi. Staðan í hálfleik var jöfn, 12:12, en þýska liðið reyndist sterkara í seinni hálfleik og sigldi sigri í höfn. Íslenska liðið hafnaði einnig í öðru sæti mótsins fyrir ári.

Ágúst Guðmundsson, Garðar Ingi Sindrason og Stefán Magni Hjartarson voru jafnir og markahæstir í íslenska liðinu með fjögur mörk hver. Baldur Fritz Bjarnason og Elís Þór Aðalsteinsson skoruðu þrjú hvor.

Ísland tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með því að sigra Serbíu fyrr í gær, 28:27. Serbía var með þriggja marka forskot í hálfleik, 16:13, en íslenska liðið neitaði að gefast upp og vann eins marks sigur eftir mikla spennu. Garðar Ingi var stórkostlegur og skoraði 11 mörk fyrir Ísland. Stefán Magni skoraði fimm mörk.

Íslenska liðið vann báða leiki sína á laugardag. Liðið byrjaði á að vinna B-lið Þýskalands, 25:20. Var staðan í hálfleik 14:11. Garðar Ingi átti einnig sterkan leik gegn þeim þýsku því hann var markahæstur með sjö mörk. Andri Erlingsson gerði fjögur.

Ísland gulltryggði síðan sæti sitt í undanúrslitum með sigri á Hollandi, 29:19. Holland var mest fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik en Íslandi tókst að jafna og voru hálfleikstölur 11:11. Íslenska liðið var svo með mikla yfirburði í seinni hálfleik.

Baldur Fritz var markahæstur gegn Hollandi með sex mörk. Garðar Ingi kom næstur með fimm.