Jón Kr. Jóhannesson fæddist 31. október 1929. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 17. desember 2024.
Foreldrar hans voru Jóhannes Gunnar Einarsson, sjómaður og netagerðarmaður, f. 10. nóvember 1905, d. 17. júlí 1970, og Ásbjörg Ásbjörnsdóttir húsmóðir, f. 17. júní 1909, d. 16. mars 2000. Systkini Jóns voru María, f. 30. september 1927, d. 6. nóvember 2024, Vilhjálmur, f. 6. júlí 1931, d. 7. desember 1983, Sigursveinn, f. 3. janúar 1933, d. 1. júlí 2023, Ingibjörg, f. 14. maí 1934, d. 23. júní 2018, og Bjarni, f. 21. mars 1947, d. 8. nóvember 1983.
Jón giftist árið 1952 Kristínu Þorvarðardóttur. Foreldrar hennar voru Þorvarður Þorvarðarson og Geirþrúður Þórðardóttir. Börn Jóns og Kristínar eru: 1) Geir, f. 18. apríl 1955, giftur Katrínu Einarsdóttur, f. 19. janúar 1955. Börn þeirra: a) Einar Jón, f. 31. október 1975, giftur Herdísi Ernu Gunnarsdóttur, börn þeirra: Einar Björn, barn hans Aþena Líf, Katrín, Ísak, Arnór, barn hans Alda Þalía, og Eysteinn. b) Ásbjörg, f. 1. maí 1978, sambýlismaður Kjartan Þór Þórðarson, börn þeirra Alexander og Karítas. c) Kristín, f. 3. október 1984, gift Sveini Inga Bjarnasyni, börn þeirra Leonard Aaron og Júlían Bjarkar. 2) Þorvarður, f. 30. nóvember 1960. 3) Ásbjörn, f. 30. nóvember 1960.
Jón fæddist á Rauðarárstíg í Reykjavík en fluttist með foreldrum sínum til Hafnarfjarðar í kringum 1930 og ólst þar upp. Hann gekk í Lækjarskóla. Hann var í sveit fjögur sumur á Skorhaga í Brynjudal í Kjós og tvö sumur á Steinum undir Eyjafjöllum. Vann í Gíslabúð, verslun Einars Þorgilssonar og við uppskipun. Fór í Iðnskólann í Hafnarfirði 1945 og útskrifaðist sem húsasmiður 1949 og húsgagnasmiður 1956. Fjölskylda hans byggði síðan hús við Hraunhvamm 2 og var það síðan heimili hans og Kristínar til 1965, þá fluttu þau á Reykjavíkurveg 38 sem hann byggði í samstarfi við föður sinn. Á báðum stöðum var hann með trésmíðaverkstæði en fór fljótlega að vinna sjálfstætt. Síðan var heimili þeirra Hraunvangur 3 en þegar Kristín flutti á Sólvang fluttist hann á Sólvangsveg 1.
Hann stofnaði byggingarfélagið Fag með félögum sínum og byggðu þeir mörg hús í Hafnarfirði, svo sem íþróttahúsið við Strandgötu. Stundaði verslunarrekstur samhliða öðrum störfum í nokkur ár. Hann var handavinnukennari í Víðistaðaskóla í nokkur ár og lauk starfsævinni sem starfsmaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar við viðhald og sendlastörf.
Áhugamál Jóns voru smíðar og félagsstörf. Eftir hann liggja margir smíðisgripir, meðal annars skriftastóll í Kaþólsku kirkjunni í Reykjavík.
Jón kom víða við í félagsstörfum og þar bar hæst starf hans innan Góðtemplarareglunnar frá 1947, í Daníelsher og barnastúkunni Kærleiksbandinu. Hann átti langt starf innan reglu Musterisriddara og Frímúrara, Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar, eldri skáta St. Georgsgildi, í félagsstarfi aldraðra, eldri Haukum og starfaði einnig lengi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði, í nefndum flokksins og fyrir flokkinn í bæjarfélaginu.
Útför fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 30. desember 2024, klukkan 13.
Við fráfall föður míns sem lést í hárri elli er margs að minnast. Pabbi var ýmist að smíða eða sinna félagsstörfum. Ekki var ég gamall þegar ég fékk að hjálpa til á verkstæðinu, taka frá vélunum, pússa eða rétta verkfæri og skrúfur. Þegar þau ráku verslunina Föndur fékk maður að afgreiða og setja í hillur. Hann studdi mig þegar ég ungur ákvað að fara í Bændaskólann og síðan á Selfoss og til Danmerkur að læra mjólkurfræði. Eftir að heim var komið fórum við Kata strax að byggja á Selfossi og þá var hann duglegur að koma austur og hjálpa okkur og koma því svoleiðis fyrir að ég gæti bjargað mér áfram með bygginguna.
Á Selfossárunum byrjuðum við fljótlega að stunda veiði og fórum við nokkrum sinnum á hverju sumri í Hvítá við Langholt með mágum mínum og tengdaföður. Eftir að ég flutti aftur til Hafnarfjarðar 1982 áttum við mikil samskipti og börnin okkar nutu þess að hafa afa og ömmu nálægt. Þá fórum við að fara í Brynjudalsá í Kjós, þar þekkti hann sig vel; hafði verið í sveit við ána á stríðsárunum og hafði gaman af að segja frá þegar hann var sendur með mjólkina á hestvagni til móts við mjólkurbílinn en þá var ekki vegur lengra en að Hvítárnesi. Á þessum tíma lá „Hood“, stærsta herskip heims, í Hvalfirði og fór þaðan í sína hinstu ferð. Ferðin til Svíþjóðar 1969 þegar kreppa skall á og tugir trésmiða frá Hafnarfirði og Reykjavík fóru til að vinna hjá Kochums-skipasmíðastöð, og ferðin til Færeyja 1950 til að hjálpa Maríu systur sinni og Herluf mági sínum til að byggja sér hús.
Hann var ekki gamall þegar hann byrjaði að taka þátt í leiksýningum bæði í Bæjarbíói og Gúttó með leikfélaginu og gaman var að skoða myndir frá þessum tíma og einnig var hann duglegur að koma fram í sýningum innan félagsstarfs aldraðra og fór með hóp á Örkina til að skemmta eldriborgarahópum frá öllu landinu sem þar komu saman.
Þegar við nokkrir félagar ákváðum að fara að byggja iðnaðarhúsnæði 1991 slóst hann í hópinn og flutti fljótlega verkstæðið frá Reykjavíkurveginum. Við pabbi vorum sammála í pólitík og studdi hann mig í því starfi og gaman var að heyra hann segja frá starfi sínu í flokknum fyrr á árum. Ekki má gleyma þegar við Kata ákváðum að byggja sumarhús undir Eyjafjöllum, þá teiknaði hann og stýrði mér svo ég gæti gert sem mest sjálfur. Í yfir 30 ár kom hann með mér á villibráðardag okkar félaga í Kiwanisklúbbnum Hraunborg og gleðin var mikil þegar við vorum saman fjórir ættliðir í salnum og hann elstur í salnum 93 ára. Við Kata þökkum samveruna og hjálpina gegnum árin. Þú hafðir lifað miklar breytingar, náð að fylgjast með barnabörnunum, barnabarnabörnunum og verða langalangalangafi. Þú áttir farsælt hjónaband í tæp 70 ár. Þú kvaddir sáttur.
Hvíl í friði, elsku pabbi.
Þinn
Geir.
Það koma margar ljúfar minningar í hugann þegar ég hugsa til baka, margar frá Reykjavíkurveginum þar sem ég eyddi mörgum góðum stundum með þér og ömmu. Það var gott að hafa ykkur svona nálægt. Ég gekk stundum beint úr skólanum til ykkar og þið tókuð alltaf svo vel á móti mér og voruð svo glöð að sjá mig. Afi var alltaf svo iðinn og iðulega lágu einhver verkefni fyrir sem hann var að skipuleggja fyrir einhver af þeim mörgu félagsstörfum sem hann var í.
Önnur minning er þegar hann var niðri á verkstæði að smíða, þá var gaman að fá að kíkja niður á verkstæðið því hann afi gerði svo mikið af fallegum hlutum. Það virtist margt liggja fyrir honum afa. Hann var listasmiður, gerði fallega glerlist og margt fleira. Einnig man ég eftir okkur tveimur nokkur sumur í garðinum að gróðursetja blóm og reyta arfa.
Hann tók sér alltaf tíma í að heyra hvernig allt gengi þegar ég kom og var alltaf svo jákvæður og stoltur yfir því sem ég var að gera. Hann hvatti mig áfram hvort sem það var í handboltanum eða við námið. Afi var nú mikill Haukamaður og þótti honum gaman að við Ásbjörg systir spiluðum handbolta í Haukum eins og amma hafði gert.
Það var líka ljúft og gaman að fara með honum og ömmu á aðventunni á jólaball í Skátalund hjá Hvaleyrarvatni. Einnig man ég eftir skemmtilegum útilegum í Galtalæk um verslunarmannahelgi á vegum Góðtemplarafélagsins sem hann vann mikið fyrir. Hann afi hvatti ekki bara mig áfram því að við tóku drengirnir mínir, þú varst svo stoltur af þeim og sagðir iðulega þeir væru ótrúlegir og svo brostirðu og hlóst alltaf dálítið með.
Ég er þakklát fyrir að hafa hitt þig laugardaginn þremur dögum áður en þú kvaddir okkur, þá náðum við að spjalla saman og þú komst svo vel að orði með sáttina með lífið og þú varst ánægður með allt þitt og sagðir að það væri komið jafnvægi og allt væri eins og það ætti að vera. Ég, Sveinn Ingi, Leonard og Júlían komum svo daginn eftir og þá varstu orðinn þreyttur afi minn en náðir samt að segja strákunum okkar hvað þeir væru flottir og brosa til þeirra.
Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að eiga þig og ömmu að alla tíð. Strax og ég heyrði að þú færir á Sólvang á sömu stofu og amma var og eyddi sínum hinstu dögum, þá fékk ég góða tilfinningu að nú væri hún að sækja þig. Takk fyrir allt, elsku afi minn.
Hvíl í friði.
Kristín og fjölskylda.
Elsku afi Jón.
Þegar ég heyrði af því að afi Jón hefði kvatt okkur leitaði hugur minn í sumarbústaðinn hjá ömmu og afa undir Eyjafjöllum. Þar áttum við margar stundir saman með veiðistangir í hendi og ég gleymi aldrei viðbrögðum afa þegar ég náði að landa mínum fyrsta fiski: „Þarna strákur, það var lagið“ og stoltið í svip hans leyndi sér ekki. Þessar stundir eru mér kærar og ég mun geyma þær alla tíð. Heimsóknir til afa Jóns og ömmu Stínu í Hafnarfjörðinn voru alltaf yndislegar og einkenndust þær af hlýjum móttökum, mikilli ást, öllum gerðum af Ballerina-kexi og ýmsu öðru góðgæti. Afi var áhugasamur um allt sem var í gangi í lífinu hjá okkur afkomendunum og hlustaði alltaf spenntur á frásagnir og fréttir og fylgdist vel með því sem við tókum okkur fyrir hendur. Afi Jón mun ávallt eiga stóran stað í hjarta mínu, söknuðurinn er mikill en það er gott að hugsa til þess að nú eru þau amma aftur saman á ný. „Ég og þú“ var það sem afi sagði stundum við mig en núna á það við þau tvö og þau vaka eflaust yfir okkur. Hvíl í friði afi.
Einar Björn Einarsson.
Minningarnar um Jón afa eru endalausar og eru þær allar góðar. Ég ber gæfu til að eiga sama nafn og afmælisdag og elsku afi minn, það gaf okkur mikið að eiga þetta sameiginlegt. Fyrsta minningarbrotið sem ég á um Jón afa er af Reykjavíkurveginum, líklega 1978. Það kemur ótrúlega margt upp í hugann þegar rifjuð eru upp atvik með Jóni afa. Áður en við fjölskyldan fluttum í Hafnarfjörð var alltaf mikið tilhlökkunarefni að fá að fara í pössun til ömmu og afa í stóra húsinu á Reykjavíkurvegi. Þetta var eins og ævintýraland fyrir litla krakka. Endalausir staðir til að vera í feluleik, m.a.s. svona nýmóðins fataherbergi og skápurinn undir stiganum þar sem Sinalco-ið og Spurið var geymt. Nokkur óljós brot á ég af endalausum ferðum Jóns afa til okkar á Selfoss þegar við vorum að byggja húsið okkar í Dælengi.
Eftir að við fluttum í fjörðinn árið 1982 kom ég oft í viku á Reykjavíkurveginn og þaðan á ég bara yndislegar minningar. Ég var fljótur að uppgötva hlunnindin við að eiga ömmu og afa sem voru nánast alltaf heima við, enda var Reykjavíkurvegurinn vinnustaður þeirra beggja. Kom ég mjög oft við hjá þeim „akkúrat“ á kaffitíma því að alltaf var kökusneið í boði. Jón afi var alltaf boðinn og búinn að hjálpa til og það sýndi sig vel þegar kom í ljós að undirritaður var frekar vatnshræddur og átti erfitt með skólasundið. Þá tók afi sér hlé frá vinnu og mætti nokkrum sinnum á miðjum degi þegar ég átti að mæta í sundtíma í skólanum og fór ofan í með mér og bekknum mínum, þetta er sjálfsagt ein dýrmætasta minningin sem ég geymi um afa minn.
Sem strákur man ég eftir Jóni afa við veiðar í Hvítá á Suðurlandi með pabba og frændum mínum. Stangveiði var það sem við gerðum saman og ferðirnar urðu margar í gegnum árin. Nokkrar standa upp úr; Djúpavatn þegar ég var smágutti, ófáar ferðir í Kleifarvatn koma upp í hugann þar sem afi sagði mér sögur af veiðiferðum frá því í gamla daga. Veiðiferðin okkar í Hítarvatn með pabba og strákunum þar sem við gengum inn í botn og veiddum alla nóttina er líklega sú eftirminnilegasta. Svo var ótrúlega skemmtilegt að komast með afa, pabba og Einari Birni í Brynjudalsá um árið og fá að upplifa og tengja sögurnar hans frá því í stríðinu við raunverulega staðinn.
Eftir að amma féll frá varð afi stundum svolítið meyr og fortíðin varð honum hugleiknari. Það var alveg ljóst að sumt af því var honum þungbært en það gerði honum gott að rifja upp og ræða málin. Jón afi var búinn að eiga frekar erfitt síðasta ár og hann var lengi að taka áföll ársins í sátt. Það var okkur fjölskyldunni því mikill léttir þegar hann fékk inni á Sólvangi nokkrum dögum áður en hann kvaddi, því þar vildi hann ljúka sínu ævikvöldi. Á þessum fáu dögum öðlaðist hann loks þá ró og frið sem hann var búinn að bíða eftir allt síðasta ár. Hann skildi við sáttur við Guð og menn. Kæri afi. Ég er þér innilega þakklátur fyrir allt sem þú gafst af þér fyrir mig og mína.
Minning um þig
mun lifa mig.
Mínir munu þig muna,
minningin um þig mun lifa.
Einar Jón Geirsson.