Bergdís Reykjalín Jónasdóttir fæddist í Reykjavík 15. október 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir þann 16. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Jóhanna Bjarnadóttir húsfreyja, f. 15.9. 1892, d. 12.7. 1964, og Jónas Jónsson kaupmaður, f. 7.11. 1892, d. 25.9. 1975. Hún átti sex systkini: Björgvin, f. 1914, Sigurð, f. 1916, Sigríði, f. 1920, Ingólf, f. 1922, Jóhann, f. 1926, og Guðrúnu Sólveigu, f. 1927, sem ein lifir systkini sín.
Eiginmaður hennar var Guðmundur H. Sigurðsson, f. 15. maí 1932, d. 29. mars 2018. Þau gengu í hjónaband 1. október 1960 og eignuðust fjögur börn: Dóttur, andvana fædd 1958, Jónas, f. 1961, Sigurð, f. 1963. Kona hans er Svana I. Steinsdóttir og eiga þau þrjú börn. Bergdísi Ýri, f. 1988, gift Martin Vogt. Þeirra börn eru Emma Dögg, f. 2022, og Albert Ari, f. 2024, Arnar Númi, f. 1995, Breki f. 2000. Yngst er Jóhanna, f. 1966. Hennar maður er Helgi Helgason, dóttir hans er Tinna, f. 1991.
Bergdís ólst upp á Þórsgötu 14, í Reykjavík og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla. Ung fór hún að vinna í fyrirtæki föður sín sem rak verslun og veitingasölu. Þar starfaði hún þar til hún gifti sig og varð heimavinnandi húsmóðir. Guðmundur rak efnalaug í áratugi og eftir að börnin komust á ról fór Bergdís að vinna þar og unnu þau þar saman alla tíð.
Útför hennar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 30. desember 2024, klukkan 13.
Það er erfitt að hugsa til þess að geta ekki fengið aftur knús frá ömmu Dísu. Aftur á móti sitja eftir ótal góðar minningar um yndislegar stundir saman.
Við systkinin minnumst fjölmargra heimsókna til ömmu og afa í Rauðagerðið, þar sem amma var með marengsköku eða pönnukökur tilbúnar handa okkur.
Þegar hún hafði passað upp á að allir fengju nóg dró hún oft upp spilastokk og skoraði á okkur í veiðimann eða rommí, stundum til þess að róa okkur ærslabelgina.
Þegar við hugsum til baka stendur helst upp úr ómetanlegi skilningurinn og væntumþykjan sem hún sýndi okkur. Þó að ömmu yrði stundum um og ó yfir ferðaplönum okkar þá studdi hún okkur alltaf í því sem við gerðum. Amma hrósaði okkur alltaf fyrir skrefin sem við tókum í lífinu, oft eitthvað sem henni fannst mun merkilegra en okkur sjálfum. Þannig hjálpaði hún okkur að sjá að þau voru ekki jafn sjálfsögð og við höfðum haldið. Þegar við bjuggum öll þrjú erlendis hafði hún alltaf áhuga á að vita af ævintýrunum okkar, þrátt fyrir að henni hefði fundist erfitt að hugsa sjálf til þess að fara svona langt frá Reykjavík. Hún leyndi þó oft á sér og sagði okkur sögur frá eigin ævintýraferðum á yngri árum til Edinborgar eða til Egyptalands með afa. Við fórum líka saman í þó nokkrar ævintýraferðir. Þar má helst nefna Spánarferðina góðu árið 2007 þar sem var mikið hlegið og skemmt sér og sólarinnar og góða veðursins notið. Hún var full orku fram á síðustu ár og lét aldurinn ekki aftra sér í að lifa lífinu. Í hennar huga var það bara tala. Það var stórt högg fyrir hana þegar afi lést árið 2018 og þótt hún væri orðin 88 ára hélt hún áfram að njóta lífsins eins og hægt var, mætti í sund í Mörkinni, spilaði vist og spjallaði á kaffihúsinu.
Hún var svo stolt að vera amma okkar og við erum stolt af því að hafa verið barnabörnin hennar.
Hvíl í friði, elsku amma Dísa.
Arnar Númi, Bergdís Ýr og Breki.
Í dag verður Dísa frænka okkar borin til grafar en við systkinin minnumst hennar með hlýju í hjarta. Hún var frænka með stóru F og voru alla tíð mikil samskipti milli fjölskyldu hennar og okkar. Við eigum margar dásamlegar minningar um hana sem við munum eiga um ókomna tíð.
Á kveðjustund sem þessari rifjast upp ótal minningar. Það voru alltaf jólaboð hjá Dísu og Guðmundi á öðrum degi jóla og þá var mikið fjör, spilað og borðaður góður matur enda voru þau höfðingjar heim að sækja. Þá fórum við í margar útilegur saman og þá var oftast farið á Laugarvatn en einnig í Borgarfjörðinn og á Snæfellsnes. Meira að segja elstu börn okkar systkina náðu að vera með í þessum jólaboðum og í sumum útilegunum og deila með okkur minningum úr þeim. Dísa og Guðmundur ráku fatahreinsun í mörg ár og voru einnig ófáar ferðir sem við heimsóttum þau þangað og þvældumst þar um. Mamma er nú ein eftir af sjö systkinum en mjög náin tengsl voru á milli hennar og Dísu og töluðu þær saman á hverjum degi eða þar til mamma okkar missti hæfileikann til að tjá sig. Dísa hafði oft orð á því hvað hún saknaði þessara samskipta við systur sína mikið.
Dugnaður, hlýja og glæsileiki einkenndu Dísu frænku alla tíð og hún var með allt á hreinu og skýr í kollinum fram á hinsta dag þótt líkaminn væri farinn að gefa sig undir það síðasta.
Elsku Jóhanna. Jónas, Siggi og fjölskyldur, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.
Jóhanna, Bjarni, Birna,
Jónas og Sigurður Örn (Siggi).