Bensín- og þjónustustöð N1 við Skógarsel í Reykjavík verður lokað á morgun, gamlársdag. Þetta er samkvæmt áætlunum, en sem kunnugt er var fyrir nokkrum misserum gert samkomulag milli Reykjavíkurborgar og olíufélaganna um að loka skyldi nokkrum stöðvum þeirra og nýta lóðirnar undir aðra starfsemi. Þegar hefur N1 lokað stöð sinni við Stóragerði og nú eru lokadagar í Skógarseli. Stöðin við Ægisíðu verður lögð af innan tíðar.
„Samkomulagið við borgina á sínum tíma var til að koma til móts við markmið borgaryfirvalda um að flýta fyrir fjölgun íbúða og grænna svæða. Því var nýtingu þessarar lóðar við Skógarsel breytt. Stöðin er lögð af til að rýma fyrir íbúabyggð, sem Yrkir, fasteignafélag Festi, sér um að skipuleggja í samráði við borgina og nærumhverfið,“ tiltekur Ásta Sigríður Fjeldsted forstjóri Festi, móðurfélags N1, í samtali við Morgunblaðið.
„Vinna við deiliskipulag á reitnum er langt komin og svo verður þetta tekið í opnu ferli sem grenndarkynning er hluti af. Þarna verður reist íbúðarhúsnæði í stíl við byggingar í nágrenninu. Nánari útfærsla liggur ekki fyrir en þetta er allt unnið í samráði við yfirvöld, tilvonandi byggingarfélag og nærsamfélagið,“ segir Ásta enn fremur. sbs@mbl.is