Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Íbúar Suður-Kóreu eru í áfalli eftir eitt mannskæðasta flugslys í sögu landsins og hafa stjórnvöld lýst yfir sjö daga þjóðarsorg í landinu. 179 létust eftir að þota Jeju Air af gerðinni Boeing 737-800 brotlenti á alþjóðaflugvellinum í Muan í Suður-Kóreu klukkan níu á sunnudagsmorgun að staðartíma, en vélin var að koma frá Bangkok í Taílandi. Við brotlendinguna kom upp eldur í allri vélinni þegar hún rann út af flugbrautinni og á vegg. Alls voru 181 um borð en aðeins tókst að bjarga tveimur úr áhöfninni. Stjórnvöldum í Suður-Kóreu barst fjöldi samúðaróska alls staðar að af heimsbyggðinni í gær.
Bandaríska samgönguöryggisráðið (NTSB) mun leiða hóp rannsakenda frá Boeing og alríkisflugmálayfirvöldum (FAA) ásamt embættismönnum frá Suður-Kóreu við rannsókn slyssins. Bæði fluggagnaritari og raddupptökutæki í stjórnklefa, sem talað er um sem svarta kassa flugvélarinnar, hafa fundist.
Björgunarsveitarmenn notuðu risavaxinn krana til að reyna að lyfta skrokki vélarinnar, en brak úr vélinni, flugsæti og farangur lágu á víð og dreif við hlið flugbrautarinnar stutt frá stéli vélarinnar sem var illa leikið.
Seint í gær höfðu fjölskyldur farþega safnast saman inni í flugstöðinni og biðu í angist eftir fréttum af ástvinum sínum. Embættismenn kölluðu upp nöfn 65 fórnarlamba sem búið var að bera kennsl á og við hvert nafn heyrðust sorgaróp ástvina. Allir farþegar vélarinnar voru kóreskir fyrir utan tvo Taílendinga, annar var þriggja ára barn og hinn 78 ára, að sögn yfirvalda.
Talið er að orsök slyssins gæti tengst fuglaárás, en fjölmörg mannskæð flugslys hafa orðið á heimsvísu vegna fuglaárása, sem geta valdið aflmissi ef fuglarnir sogast inn í loftinntök flugvélarinnar. Rannsóknin er þó enn á frumstigi.
Flugslysið í gær er fyrsta banaslysið í sögu Jeju Air, sem var stofnað 2005 og er eitt stærsta lággjaldaflugfélag Suður-Kóreu. Slysið í gær er mesta flugslys í sögu Suður-Kóreu í næstum 30 ár, en mannskæðasta slys flugsögu landsins varð 1997, en þá létust 228 manns þegar Boeing 747-þota Korean Airlines hrapaði á Kyrrahafseyjunni Gvam.