Fjölskylda Hluti fjölskyldunnar samankominn í Eyjum, talið frá vinstri Sigurveig Steinarsdóttir, Guðný Guðmundsdóttir, Sesar Hersisson, Lovísa Ingibjörg Jarlsdóttir, Katrín Hersisdóttir, Sigurgeir Jónsson, Katrín Lovísa Magnúsdóttir, Hersir Sigurgeirsson, Teitur Jarl Daníelsson, Jarl Sigurgeirsson og Steiney Arna Gísladóttir.
Fjölskylda Hluti fjölskyldunnar samankominn í Eyjum, talið frá vinstri Sigurveig Steinarsdóttir, Guðný Guðmundsdóttir, Sesar Hersisson, Lovísa Ingibjörg Jarlsdóttir, Katrín Hersisdóttir, Sigurgeir Jónsson, Katrín Lovísa Magnúsdóttir, Hersir Sigurgeirsson, Teitur Jarl Daníelsson, Jarl Sigurgeirsson og Steiney Arna Gísladóttir. — Morgunblaðið/Ómar Garðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er mjög gaman og ég vil þakka afa fyrir að hafa treyst mér í þetta verkefni. Frábært að sjá lokaverkefnið sitt verða að einhverju raunverulegu. Einhverju sem hefur gildi og lifir,“ segir Katrín Hersisdóttir um aðkomu sína að bók…

Ómar Garðarsson

Vestmannaeyjum

„Þetta er mjög gaman og ég vil þakka afa fyrir að hafa treyst mér í þetta verkefni. Frábært að sjá lokaverkefnið sitt verða að einhverju raunverulegu. Einhverju sem hefur gildi og lifir,“ segir Katrín Hersisdóttir um aðkomu sína að bók afa síns, Fyrir afa nokkrar smásögur.

„Þegar ég las sögurnar var ég heilluð af drunganum í þeim. Lífinu eftir dauðann og draugum sem koma við sögu en samt á léttan hátt. Þessu vildi ég halda í myndlýsingunum með ljósum og léttum litum en líka drungalegum. Auðvitað eru það viss forréttindi að fá að vinna með afa sínum að svona verki. Samstarfið var rosalega skemmtilegt og dýrmætt.“

Fjórtánda bók Sigurgeirs

Katrín útskrifaðist í sumar úr samskipta- og grafískri hönnun frá Kolding School of Design í Danmörku. Hún ákvað að lokaverkefnið sitt yrði myndlýsing við bókina og gaf verkefninu heitið Fyrir afa. Afinn er Sigurgeir Jónsson, Eyjamaður, fyrrverandi kennari, sjómaður, blaðamaður og rithöfundur með meiru. Er nýjasta bókin hans sú fjórtánda en flestar gaf hann út eftir að hann komst á eftirlaunaaldur. Fjalla þær um mannlíf og félagslíf í Vestmannaeyjum og Fyrir afa gerir það að hluta þótt um skáldaðar sögur sé að ræða.

„Mér fannst komið nóg af bókaútgáfu en átti þessar sögur í fórum mínum. Þar lágu þær þar til Katrín fékk veður af þeim og spurði hvort ég ætlaði ekki að gefa út eina bók til viðbótar. Hún var að ljúka námi í Danmörku og vildi myndlýsa bókina eins og það heitir í dag,“ segir Sigurgeir Jónsson í Gvendarhúsi í Vestmannaeyjum en oft kenndur við Þorlaugargerði.

Katrín fékk frjálsar hendur

„Ég sló til og bætti einni við, sögu sem ég þýddi eftir rithöfundinn og stjórnmálamanninn Jeffrey Archer lávarð sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hitt eru sögur frá ýmsum tímabilum og sú elsta frá því fyrir gosið 1973 en hinar eru nýrri af nálinni. Katrín fékk frjálsar hendur við myndlýsingu bókarinnar og undirliggjandi þema speglast í myndunum,“ segir Sigurgeir.

„Ég hef alltaf haft áhuga á að gera eitthvað skapandi og fékk afa til að gefa út enn eina bókina sem ég ætlaði að myndlýsa. Nú er bókin komin út og eru myndirnar í henni lokaverkefni mitt frá skólanum sem ég kláraði í sumar,“ segir Katrín sem fékk frjálsar hendur en lagði upp með að afi hennar yrði sáttur. „Auðvitað hafði hann áhrif, óbeint því ég vildi að hann yrði sáttur. Var einhver partur af manni sem hugsaði: Hvað finnst afa? Annars fékk ég algjört frelsi.“

Í lokaverkefninu batt hún bókina í tveimur eintökum með forsíðu, gaf afa sínum annað og hitt var sjálft lokaverkefnið. „Bókin fór svo til útgefandans og var sett upp í endanlegt form en ég var búin að leggja línurnar,“ sagði Katrín og mega þau bæði vera ánægð með útkomuna.

Katrín er Eyjakona, var stundum hjá ömmu og afa í Gvendarhúsi á sumrin og vann á vöktum í makríl í Vinnslustöðinni á unga aldri.

Höf.: Ómar Garðarsson