Geir Sigurðsson fæddist í Reykjavík 30. ágúst 1939. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 8. desember 2024.

Foreldrar Geirs voru hjónin Ragna Pétursdóttir, f. 14.8. 1904 á Þúfum, d. 21.11. 1955, húsfreyja, og Sigurður Kristjánsson, f. 14.4. 1885 á Ófeigsstöðum, d. 27.5. 1968, kennari, ritstjóri, alþingismaður og forstjóri Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Systkini Geirs: Arndís Sigurðardóttir Genualdo, f. 21.11. 1924, Páll, f. 1927, d. 2018, Kristján, f. 1930, d. 1931, Kristján, f. 1933, Kristín, f. 1934, d. 2021, Sigurður, f. 1935, d. 1973, Sigríður, f. 1937, Ragna Sigurðardóttir Guðjohnsen, f. 1941, d. 2024, Pétur, f. 1943, Auður, f. 1945.

Geir giftist Kristínu Zoega Stefánsdóttur þann 10.7. 1969. Sonur þeirra er Sigurður Geir, f. 6.10. 1974. Fyrrverandi sambýliskona hans er Ásta Þórarinsdóttir, f. 31.7. 1976. Börn þeirra eru þrjú: Sigurður Geir, f.d. 9.6. 2003, Ragnar Freyr, f. 19.9. 1990, Brynjar Geir, f. 30.9. 2000, stjúpsonur Ásgeir Þór Nordgulen, f. 13.7. 1996.

Börn Kristínar frá fyrra hjónabandi eru tvö: Terry Douglas Mahaney, f. 15.3. 1961, d. 22.11. 2022, giftur Steinvöru Laufeyju Jónsdóttur, f. 19.12. 1962. Börn þeirra eru Elva Dögg Mahaney, f. 8.6. 1983, sonur hennar er Daron Karl Hancock, f. 13.2. 2006. Aron Gauti Mahaney, f. 7.5. 1988, giftur Halldóru Kröyer, dóttir Arons Gauta er Kolbrún Klara, f. 1.6. 2016. Stella Marie Mahaney, f. 22.2. 1962, börn hennar eru Ósk Gunnarsdóttir Huneycutt, f. 13.2. 1983, gift Scott Huneycutt, börn þeirra eru Alexis og Jack Huneycutt. Guðrún Kristín Jóhannsdóttir, f. 16.4. 1990, og dóttir hennar er Karitas Ósk Davíðsdóttir.

Geir ólst upp í Vonarstræti 2 í Reykjavík. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Geir var sem barn í sveit á sumrin á Vestfjörðum, Þúfum, hjá afabróður sínum og hafði hann sterkar taugar til Vestfjarða alla tíð. Eftir að skólanum lauk fór Geir að vinna hjá Vífilfelli við útkeyrslu, þaðan lá leið hans svo til Tulsa í Bandaríkjunum í flugvirkjanám. Eftir námið í Bandaríkjunum í ársbyrjun 1964 byrjaði Geir að vinna hjá Loftleiðum, fyrst á Reykjavíkurflugvelli og nokkru síðar á Keflavíkurflugvelli. Geir fór ásamt nokkrum félögum til Noregs að vinna hjá Braathens-flugfélaginu í Stavanger og sáu þeir um viðhald á DC6-flugvélum Loftleiða. Eftir það fór Geir að vinna hjá Loftleiðum í New York og þaðan lá svo leiðin aftur til Keflavíkur þar sem hann fór að vinna sem flugvélstjóri á CL44 eða monsa sem kallaður var, síðar meir var hann á DC8-vélum Flugleiða sem félagið hét eftir sameiningu við Flugfélag Íslands. Einnig flaug Geir um tíma hjá Cargolux. Eftir að hætt var að vera með flugvélstjóra á flugvélunum fór Geir að vinna við flugvirkjun í flugskýli Flugleiða í Keflavík og var þar til starfsloka.

Geir var sagnamaður mikill og hafði frá mörgu að segja enda víðförull maður og mjög áhugasamur um allt og alla sem hann kynntist á sinni ævi.

Útför hans fer fram frá Háteigskirkju í dag, 30. desember 2024, klukkan 13.

Að alast upp á heimili móðurforeldra minna, Sigurðar Kristjánssonar fyrrverandi alþingismanns og forstjóra og Rögnu Pétursdóttur húsmóður, í miðbæ Reykjavíkur, voru forréttindi fyrir mig. Móðir mín, Arndís, var elst 10 systkina og Geir, sem nú kveður, var næstyngstur bræðra sinna af fimm bræðrum og fimm systrum. Vonarstræti 2 var sannkallað menningarheimili, þar var gestagangur mikill og allir alltaf velkomnir. Þar var spjallað um heimsmálin, stjórnmál og landsmál. Þar var spilað á spil, hlustað á útvarpssöguna, stoppað í endalausa sokka, straujaður þvottur af 14 manns, sem bjuggu á heimilinu, bakað daglega, saumað og prjónað. Jólahaldið á heimilinu var einstakt og sóttu vinir okkar barnanna í að koma til að dansa kringum jólatréð og borða smákökur. Dýrmætar minningar fyrir okkur öll.

Geir móðurbróðir minn var einstakur maður, skemmtilegur, hjálpsamur, sérlega minnugur og hafði unun af að segja sögur af fólki, sem hann þekkti eða hafði kynnst, bæði hérlendis og erlendis. Hann dvaldi flest sumur í sveit á Þúfum fyrir vestan og minntist þeirra ára með væntumþykju. Einnig hafði hann ferðast víða, um heimsálfurnar flestar, þegar hann starfaði sem flugvélstjóri og flugvirki bæði hjá Loftleiðum/Flugleiðum og Cargolux. Sannkallaður sagnameistari hann kæri móðurbróðir minn en nú hljóðna sögurnar hans, sem því miður voru aldrei skráðar en við, sem eftir lifum, munum rifja upp og deila meðal okkar.

Ég á mínum kæra móðurbróður ótalmargt að þakka, sem of langt mál væri að rifja allt upp og er vel geymt í hjarta mínu. Ég var svo lánsöm að geta búið aftur á æskuheimili okkar frá 19 ára aldri, en þar bjuggu þá afi minn, móðursystir með manni sínum og þremur ungum börnum, yngsti bróðirinn og Geir. Heimilið okkar brann svo til kaldra kola í stórbruna á horni Lækjargötu og Vonarstrætis árið 1967. Mikið áfall fyrir okkur öll sem tók tíma að vinna úr.

Geiri okkar hefur nú kvatt okkur en fyrr á þessu ári kvaddi ein systranna, Ragna, sem var næstyngst af fimm systrum. Eftir lifa af systkinunum 10 Arndís, Kristján, Sigríður, Pétur og Auður. Þau hafa verið mér öll sem eldri systkini og ég er ævinlega þakklát fyrir það. Það er erfitt að kveðja en allar minningar eru dýrmætar og mikilvægt að minnast og deila þeim meðal okkar sem eftir lifum. Þar eru árin okkar í Vonarstrætinu en einnig úr sumarbústað fjölskyldunnar á Þingvöllum þar sem dvalið var öll sumur. Afi gróðursetti trjágræðlinga um alla lóðina sem nú er orðin skógi vaxin. Yndislegar minningar sem við rifjum oft upp þegar við hittumst.

Geir var sannur vinur vina sinna. Hann var duglegur að mæta á Kaffivagninn og hitta gamla starfsfélaga þar og deila sögunum sínum. Hann safnaði munum frá Loftleiðaárunum af miklum áhuga og deildi meðal vina. Hann ræktaði vel samband við vini og fjölskyldu og kom oft með blóm til elstu systur sinnar. Sannkallaður höfðingi.

Elsku Geir (móður)bróðir, hvíl í friði. Blessuð sé minning þín.

Lára Kjartansdóttir.

Elsku Geiri, nú ert þú horfinn á braut yfir í sumarlandið bjarta.

Það er margs að minnast í gegnum tíðina og ein minning er mér mjög svo kær, það var þegar að við Terry bjuggum hjá ykkur Kiddý í kjallaranum í Dísarási, þá varst þú enn í fluginu og varst alltaf á faraldsfæti um allan heim. Þú komst iðulega heim með einhvern glaðning fyrir elsku Kiddý þína, Sigga litla og litlu fjölskylduna í kjallaranum. Í eitt skiptið komstu með fallegan lítinn gullhring og gafst mér, þá var ég ólétt að Elvu Dögg og við Terry ekki búin að setja upp hringana. Þér fannst alveg ófært að ég, 19 ára stúlkan, væri ólétt og ekki með neinn hring svo að þú ákvaðst að bæta nú úr því og færðir mér lítinn gullhring, þennan hring ég hef gengið með alla daga síðan. Þú varst mikill laxveiðimaður og fékk Terry minn oft að fara með þér og félögum þínum í veiðiferðir á sumrin, sem var honum ómetanleg skemmtun og smitaðist hann algjörlega af veiðidellu ykkar félaganna og var það var eitt af því síðasta sem hann gerði á meðan hann lifði. Þú varst börnunum okkar Terry góður afi og studdir vel við Daron Karl, langafabarnið, í júdó og fylgdist vel með árangri hans. Þú hafðir líka einstaka frásagnarhæfileika og áttir til óteljandi sögur að segja frá, enda búinn að lifa tímana tvenna og upplifa svo ótal margt sem gaman var að heyra um.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Takk fyrir allt og allt elsku tengdapabbi.

Kveðja

Laufey, börn og barnabörn.

Látinn er í Reykjanesbæ Geir Sigurðsson flugvélstjóri á 86. aldursári.

Það er skarð fyrir skildi er garpurinn Geir Sigurðsson hefur kvatt þennan heim eftir stuttan aðdraganda og langa en farsæla vegferð. Undirritaður hefur þekkt kappann í vel yfir átta áratugi en við áttum báðir heimili í bernsku okkar og nokkuð fram eftir árum í timburhúsum, er áður stóðu á horni Lækjargötu og Vonarstrætis í Reykjavík og hurfu af yfirborði jarðar í sögulegum stórbruna á því herrans ári 1967. Báðir börðum við augum rústir æskuheimila okkar með trega í hjarta því margs var að minnast frá þessum stað, þar sem í eina tíð áttu heimili sitt á fjórða tug einstaklinga og var seinna bílastæði fyrir 14 bíla.

Geiri var alla tíð frjór og hugmyndaríkur. Á sokkabandsárunum áskotnaðist honum vænn trékassi er við félagarnir ákváðum að breyta í kassabíl yfirbyggðan, sem sómt hefði sér vel á hvaða bílastæði sem var. Farartæki þetta var nokkuð stórskorið í útliti og aðhlátursefni ungmeyjanna, sem olli hluta höfundanna nokkrum vonbrigðum. Geiri kippti sér sjaldan upp við slíka smámuni og kaus heldur að ræða málin og kryfja þau til mergjar enda byrjaði hann snemma á því. Ég minnist þess er hann var kominn í hrókasamræður á heimili mínu við hina fullorðnu, þá nýlega orðinn talandi, og gaf ekkert eftir í þeirri orðræðu svo amma mín hafði á orði að mikið væri hann Geir litli skýr drengur.

En þótt hann Geiri litli væri bæði skýr og skarpur var hann líka ráðþægur og raunsær en atorkusamar systur hans töldu að hæfileikum hans og mannkostum væri betur varið í annað en að keyra út þjóðardrykkinn kók í verslanir og öldurhús bæjarins. Á undraskömmum tíma var búið að vinna ýmsa pappírsvinnu og honum sagt að skrifa undir því hann væri að fara í flugvirkjanám til Bandaríkjanna. Kappinn hafði í fyrstu ýmislegt við þetta að athuga, svo sem að hann kynni ekkert í málinu sem notað væri í því landi. En á það var blásið, það mætti læra eins og annað, og varð þetta til þess að kappinn gerði það að sínu lífsstarfi að halda flugkostum landsins í lagi til að tengja land og þjóð við erlendar álfur og var hans ferill jafnan farsæll vítt um lönd. Á ferlinum varð hann sér úti um réttindi flugvélstjóra á meðan það embætti var til.

Geiri var mikill heimsborgari en jafnan með sterkar taugar til heimalandsins. Hann kynntist fjölda einstaklinga af ýmsu þjóðerni og átti enda gott með að kynnast fólki. Hann var vinur vina sinna, víðlesinn og vinmargur, orðheldinn, sanngjarn og ráðhollur. Hann gat verið fastur fyrir og átti vont með að þola fláttskap og óráðvendni. Hann var traustur fjölskyldumaður, hjálpsamur og bóngóður en ekki síst var hann sögumaður frábær og urðu sjaldan vandræðalegar þagnir er hann var nálægur. Hann var hinn besti drengur með hjarta úr gulli.

Margs er að minnast úr yfir átta áratuga sameiginlegri vegferð. Hér var tæpt á litlu einu með þakklæti fyrir langa vinsemd í huga. Eiginkonu, syni og aðstandendum öðrum er vottuð samúð.

Sverrir Ólafsson.

Fallinn er frá gamall vinur og vinnufélagi Geir Sigurðsson eða Geiri Sig. sem hann var yfirleitt kallaður. Ég man fyrst eftir Geira þegar mamma fór með mig í heimsókn í Vonarstrætið þegar ég var 5-6 ára. En afi minn og pabbi Geira höfðu verið miklir vinir og vorum við skírðir eftir honum. Seinna hittumst við oft á rúntinum eða böllum. Svo kom að því að við vorum í hópi ungra manna sem Loftleiðir sendu til flugvirkjanáms í Tulsa í Oklahoma og var það skemmtilegur tími, ég man sérstaklega eftir þegar við sem höfðum kosningarétt fórum á tveimur bílum til Chicago þar sem næsti ræðismaður var og þar kusum við flestir í fyrsta sinn til Alþingis. Margt var að skoða þar og gaman að keyra „Route 66“. Einnig eru ógleymanlegir allir veiðitúrarnir í Langá með góðum hópi Loftleiðamanna. Það var alltaf gaman að vera kringum Geira, hann var gleðipinni og kunni margar skemmtilegar sögur, og gaman var að skoða myndirnar hans, en hann var alltaf að taka myndir. Nú tekur þú flugið í síðasta sinn nafni minn og vinur, farðu í friði.

Geir Hauksson.