Í sviðsljósinu Volodimír Selenskí, Emmanuel Macron og Donald Trump hittust á dögunum þegar Notre Dame-dómkirkjan var opnuð á ný. Komandi ár mun væntanlega litast m.a. af friðarviðræðum í Úkraínu og spennu á milli Bandaríkjanna og Evrópu vegna fyrirhugaðra verndartolla Trumps.
Í sviðsljósinu Volodimír Selenskí, Emmanuel Macron og Donald Trump hittust á dögunum þegar Notre Dame-dómkirkjan var opnuð á ný. Komandi ár mun væntanlega litast m.a. af friðarviðræðum í Úkraínu og spennu á milli Bandaríkjanna og Evrópu vegna fyrirhugaðra verndartolla Trumps. — AFP/Julien de Rosa
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Á þessum tíma árs hafa viðskiptadagblöð og -tímarit það fyrir sið að reyna að sjá fyrir hvað nýtt ár mun bera í skauti sér. Vitaskuld þarf að taka slíkum spám með fyrirvara en greinendur eru þó allir sammála um að árið 2025 muni að verulegu leyti snúast um Donald Trump.

Trump verður svarinn í embætti hinn 20. janúar og ljóst að stefnumál hans munu hafa mikil áhrif á hagkerfi bæði Bandaríkjanna og heimsins alls. Í umfjöllun sinni um komandi ár minnir Economist á að Trump hafi raðað í kringum sig fólki sem er óhrætt við að hrista upp í hlutunum og er einnig reiðubúið að ganga til verks af miklum krafti.

Í kosningabaráttunni lofaði Trump að koma á friði í Úkraínu á fyrsta degi en greinendum þykir líklegt að hann reyni að semja um einhvers konar málamiðlun sem færi hluta af landsvæði Úkraínu í hendur Rússlands en tryggi varnir Úkraínu til frambúðar. Ef Trump mistekst þetta verkefni mun það veikla orðspor Bandaríkjanna og efla helstu óvinaþjóðir þeirra, en komist á friður í Úkraínu mun létta yfir heimsbyggðinni og mörkuðum eftir nærri þriggja ára tímabil spennu, óvissu og röskunar á gangverki alþjóðahagkerfisins.

Trump virðist líka reiðubúinn að fara í hart til að höggva á hnútinn á Gasa og þrengja rækilega að Íran. Greinendum þykir Ísrael vera í sterkri stöðu og að átök undanfarinna missera sýni að hernaðarleg geta Írans sé sáralítil. Takist Trump að róa ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs – með góðu eða illu – mun það snarminnka spennuna í alþjóðahagkerfinu og ætti t.d. hafa lækkandi áhrif á olíuverð eins og gerist yfirleitt þegar friðvænlegt er á þessum slóðum. Hins vegar má reikna með vaxandi spennu á milli Bandaríkjanna annars vegar og Evrópu og Kína hins vegar. Trump hefur sagst ætla að leggja 60% toll á kínverskan varning og 10-20% toll á vörur annars staðar frá og er næsta víst að leiðtogar helstu viðskiptalanda Bandaríkjanna reyni hvað þeir geta til að semja við ríkisstjórn Trumps um aðra og betri lausn. Evrópa stendur nokkuð illa að vígi fyrir þann slag því að leiðtogar Frakklands og Þýskalands eru í veikri pólitískri stöðu heima fyrir, en á móti kemur að vestrænir stjórnmálamenn og embættismenn eru líklega farnir að átta sig betur á Trump og hvers konar samningamaður hann er.

Keðjuverkandi áhrif tolla

Áhugavert verður að fylgjast með þeim keðjuverkandi áhrifum sem nýtt tollastríð við Kína gæti haft. Óveðursskýin hafa hrannast upp í kínverska hagkerfinu og ekki munu aðgerðir Trumps bæta ástandið, en það er alls óljóst hvað fleira kínversk stjórnvöld gætu gert til að örva eigið hagkerfi. Ef hærri tollar verða til þess að Bandaríkjamarkaður sama sem lokast mun kínverskur varningur í staðinn flæða til annarra landa með tilheyrandi röskun þar, en framleiðendur munu líka reyna að fara í kringum Kínatollana með því að færa verksmiðjur sínar yfir til annarra landa. Lönd á borð við Mexíkó og Indland munu njóta góðs af þeirri þróun og líklegt að næstu fjögur ár verði ævintýralegt fjárfestingar- og vaxtartímabil í Víetnam.

S&P undir meðallagi

Greinendur eru í megindráttum samhljóða um hvernig markaðir muni þróast á nýju ári. FT reiknar með að örvunaraðgerðir ríkisstjórnar Trumps muni hjálpa bandarískum verðbréfamarkaði að halda dampi en ólíklegt að uppgangurinn verði jafn mikill og á árinu sem nú er senn á enda. Tækni- og gervigreindarfyrirtæki munu, að mati FT, áfram vera fremst í flokki en markaðurinn verður sveiflukenndari og sennilegt að fjárfestar muni í auknum mæli finna fjármagni sínu skjól í sveifluminni atvinnugreinum á borð við heilbrigðisgeirann.

FT gerði gagnlega samantekt á spám greiningardeilda stærstu bankanna um þróun helstu hagkerfa og eignaflokka, og bendir samantektin til að búast megi við 2,2% hagvexti í Bandaríkjunum, 1% hagvexti á evrusvæðinu og 4,2% hagvexti í Kína, en að hagvöxtur á heimsvísu verði 2,8%. Meðalspáin gerir ráð fyrir að S&P 500 styrkist um nærri 10% á komandi ári sem er ögn lakari frammistaða en í meðalári.

Þá spá greinendurnir að heimsmarkaðsverð á olíu muni lækka um liðlega 7% en útlit er fyrir að framleiðslugeta ríkja utan OPEC muni aukast svo mikið á næsta ári og því þar næsta að meira en dugi til fullnægja vaxandi eftirspurn á heimsvísu og dregur það úr getu OPEC-landanna til að reyna að halda olíuverði háu.

Bankarnir spá því að meðaltali að gullverð hækki um 8% og jafnvel rúmlega það en gullið var á miklu flugi á þessu ári og hækkaði um 27%. Þumalputtareglan er að fjárfestar leiti í gull á óvissutímum og gæti verið að djörf efnahags- og viðskiptastefna Trumps muni gera suma fjárfesta órólega. Þá hafa fjárfestar í Kína verið mjög iðnir við að kaupa gull að undanförnu í takt við versnandi efnahagshorfur þar í landi og hafa seðlabankar víða um heim – sérstaklega seðlabankar ríkja sem eru upp á kant við Bandaríkin – verið að stækka gullforða sinn á undanförnum misserum.

Þegar þessar spár eru skoðaðar er gott að muna að greinendur reikna með að bandaríkjadalurinn styrkist töluvert á nýju ári. Trump myndi vilja sjá dalinn veikjast, til að gera bandarísk útflutningsfyrirtæki samkeppnishæfari, en fyrirhuguð tollastefna hans ætti þvert á móti að styrkja dalinn og reiknar t.d. Deutsche Bank með að dalurinn muni senn jafna evruna. Í byrjun þessa árs kostaði evran 0,9 dali en dalurinn tók að styrkjast í haust og fást í dag 0,96 dalir fyrir hverja evru.

Gervigreindaræðið róast

Enginn hörgull er á spám um hvernig gervigreindartækni mun þróast á nýju ári en fréttaritari FT í San Francisco spáir því að þróun gervigreindar muni senn rekast á vegg: Til þessa hafa tækniframfarirnar byggst á að auka reiknigetu jafnt og þétt og mata gervigreindina á æ meiri gögnum en þeirri nálgun eru takmörk sett. Enn bíða neytendur eftir því að einhver kynni til sögunnar algjörlega ómissandi gervigreindarforrit sem enginn getur verið án og allir vilja borga fyrir: tæknin lofar góðu en byltingin lætur bíða eftir sér.

Gervigreindarbólan er ekki að springa en æsingurinn í fjárfestum verður líklega eitthvað minni á árinu 2025 og gæti það smitað frá sér út í hlutabréfaverð orkufyrirtækja sem hefur verið á uppleið vegna væntinga markaðarins um að ör fjölgun gagnavera fyrir gervigreind muni stórauka raforkueftirspurn.

Höf.: Ásgeir Ingvarsson