Gísli Örn Lárusson, athafnamaður og frumkvöðull, lést í faðmi dætra sinna 27. desember sl. á hjúkrunarheimilinu Grund. Gísli Örn fæddist 5. mars 1948 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Lárus Bjarnason, sem starfaði í sjávarútvegi, og Astrid Ellingsen prjónahönnuður

Gísli Örn Lárusson, athafnamaður og frumkvöðull, lést í faðmi dætra sinna 27. desember sl. á hjúkrunarheimilinu Grund. Gísli Örn fæddist 5. mars 1948 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Lárus Bjarnason, sem starfaði í sjávarútvegi, og Astrid Ellingsen prjónahönnuður. Gísli Örn ólst upp með þremur systrum sínum, þar af einni alsystur, en hann átti einnig fjögur önnur systkini samfeðra. Hann ólst upp í Vesturbænum og gekk í Melaskóla og Hagaskóla og fór síðan utan í nám.

Að loknu verslunarskólanámi í Bodö í Noregi hóf Gísli nám í vátryggingarfræðum í London þar sem hann starfaði síðan hjá vátryggingarfyrirtækjum um tveggja ára bil áður en hann kom heim. Hann var ráðinn til Almennra tyrgginga og varð deildarstjóri endurtrygginga hjá félaginu aðeins 23 ára gamall. Árið 1974 stofnaði Gísli Reykvíska endurtryggingu ásamt Almennum tryggingum og varð forstjóri þess félags aðeins 26 ára gamall. Hann tók síðan yfir hlut Almennra ásamt hópi fjárfesta. Hann rak félagið til 1992 þegar sænski vátryggingarrisinn Skandia keypti Reykvíska. Þá lét Gísli til sín taka m.a. í flugrekstri og fiskeldi og starfaði á alþjóðavettvangi við fjármálaráðgjöf. Á ferli sínum var Gísli kjörinn „viðskiptamaður ársins“ árið 1992 fyrir framlag sitt til íslensks atvinnulífs.

Árið 1971 kvæntist hann Guðbjörgu Jóhannesdóttur og þau eiga saman dæturnar Hildi Ýri, Erlu Hrund og Dagnýju Rut. Þau skildu. Með seinni konu sinni, Valgerði Geirsdóttur, átti hann dótturina Emilíu Björt. Þau skildu.

Gísli Örn breytti alveg um lífsstíl þegar næstyngstu dóttur hans var vart hugað líf en læknaðist. Hann var einn af stofnendum SÁÁ ásamt Björgólfi Guðmundssyni og fleirum. Hann endurskoðaði líf sitt, fór að stunda jóga og hugleiðslu, og stofnaði síðan náttúrulækningafyrirtækið Omni Cure.

Gísli Örn var litríkur maður, iðulega klæddur bláum, rauðum eða appelsínugulum litum hin síðari ár. Hann bjó bæði á Spáni en mest í Lundúnum síðustu ár, en vildi alltaf eiga húsnæði í gamla Vesturbænum í Reykjavík þar sem rætur hans lágu.

Gísli lætur eftir sig 17 afkomendur.