Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
„Einfalda svarið er að flugeldar eiga að fara á endurvinnslustöðvar í þar til gerða gáma,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson samskiptastjóri Sorpu spurður um hvernig landsmönnum beri að losa sig við sprungna flugelda og annað rusl þeim tengt eftir áramótin.
Rúmlega 20 söfnunarstaðir verða aðgengilegir á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík við Vesturbæjarlaug, Eiríksgötu, Kjarvalsstaði, Laugardalslaug, Sogaveg, Austurberg, Selás í Árbæ, við verslunarmiðstöð á Þjóðhildarstíg í Grafarholti og Spöngina í Grafarvogi. Þá verða söfnunarstaðir við Kópavogsvöll, á Borgarholti, í Digranesi, við Salalaug og í Vallakór í Kópavogi, við Ásgarð, Hofsstaðaskóla og Urriðaholtsskóla í Garðabæ, við Tjarnarvelli og Fjarðargötu í Hafnarfirði, á Álftanesi og við Völuteig í Mosfellsbæ.
Getur skapað mikla hættu
„Við viljum ekki fá þetta í tunnurnar og sérstaklega ekki ósprungið enda getur það skapað mjög mikla hættu. Ef fólk sér ástæðu til að henda ósprungnum flugeldum á að skila þeim í spilliefni á endurvinnslustöðvar,“ segir Gunnar Dofri.
Hann hvetur fólk til að fara varlega og koma úrganginum í réttan farveg. Segir hann það ekki fallegt þegar fólk lýsir upp næturhimininn en sér svo ekki sóma sinn í að taka til eftir sig.
„Við erum öll í þessu saman og það er okkar að halda umhverfinu hreinu,“ segir Gunnar.