Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Árið 2023 voru heildartekjur á hvern íbúa um 11 milljónir króna í Vestmannaeyjum en undir sex milljónum í Húnavatnssýslum, Borgarfirði og Dölum og Suðurnesjabæ og Vogum. Þetta kemur fram í skýrslu sem Byggðastofnun hefur tekið saman um tekjur á hvern íbúa eftir svæðum og byggist á tölum sem Hagstofa Íslands birti í sumar.
Með heildartekjum er átt við samanlagðar atvinnutekjur, lífeyrisgreiðslur, fjármagnstekjur, bætur frá Tryggingastofnun og Sjúkratryggingum, atvinnuleysisgreiðslur, fæðingarorlofsgreiðslur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og aðrar staðgreiðsluskyldar tekjur.
Á Suðurlandi var hlutfall fjármagnstekna 15% sem var hæsta gildi allra landshluta árið 2023. Lífeyrisgreiðslur voru 11% heildartekna einstaklinga á Norðurlandi vestra og eystra en lægst var hlutdeild lífeyrisgreiðslna á Austurlandi og Suðurnesjum eða 8%.
Tekjur jukust um 3,6%
Heildaratvinnutekjur landsmanna árið 2023 námu 1.866 milljörðum króna sem var um 65 milljörðum eða 3,6% meira en árið 2022. Var opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta stærsta atvinnugreinin með um 566 milljarða eða rúm 30%.
Hlutfall atvinnutekna var 71,1% af heildartekjum einstaklinga árið 2023. Í skýrslunni kemur fram að hlutdeild atvinnutekna í heildartekjum var nokkuð mismunandi milli landshluta. Á Austurlandi og Suðurnesjum voru atvinnutekjur 76% heildartekna einstaklinga en minnsta hlutdeild atvinnutekna var 65% á Suðurlandi og 69% á Norðurlandi vestra.
Þá var talsverður munur á milli hæstu og lægstu upphæðar atvinnutekna á hvern íbúa en þær voru um sex milljónir í Fjarðabyggð, Mýrdalshreppi, Garðabæ og á Seltjarnarnesi en um fjórar milljónir í Húnavatnssýslum, Borgarfirði og Dölum og Rangárvallasýslu.
Á árinu 2023 jukust heildaratvinnutekjur á öllum svæðum nema tveimur, Vestmannaeyjum og Seltjarnarnesbæ. Mest jukust heildaratvinnutekjur í Reykjanesbæ eða um 11% en þar næst í Skaftafellssýslum 9,2%. Árið 2023 jukust heildaratvinnutekjur í Suðurnesjabæ og Vogum um 7,5%, í Hveragerði og Ölfusi um 6,4% og í Rangárvallasýslu um 6,3%.
Núvirtar heildaratvinnutekjur á landinu öllu voru 1.362 milljarðar árið 2008 en árið 2010 höfðu þær dregist saman um 21,4% vegna efnahagshrunsins. Árin 2010 til 2014 jukust heildaratvinnutekjur um 2-5% árlega og höfðu náð sömu hæð og 2008 árið 2015. Mikill vöxtur var í atvinnutekjum árin 2015 til 2018 eða frá 5,2% til 10,4% en árið 2019 hægði á vextinum og 2020 lækkuðu heildaratvinnutekjur um 5,1% vegna áhrifa covid-19. Árið 2021 jukust heildaratvinnutekjur aftur um 5,1% og árið 2022 varð 6,5% aukning.
Atvinnutekjur kvenna 41,2%
Árið 2023 voru atvinnutekjur kvenna 770 milljarðar króna eða 41,2% af heildaratvinnutekjum og atvinnutekjur karla námu 1.101 milljarði króna eða 58,8% af heildaratvinnutekjum. Byggðastofnun segir að til viðmiðunar hafi konur verið um 49% af íbúum landsins 1. janúar 2023 en karlar 51%. Hlutfall kvenna af einstaklingum sem höfðu launatekjur 2022 var 47%.
Heildaratvinnutekjur kvenna á hvern kvenkyns launþega voru 7,88 milljónir króna árið 2023 og atvinnutekjur karla á hvern karlkyns launþega 9,98 milljónir króna eða 26,6% hærri. Í skýrslunni segir að munurinn sé háður fleiri þáttum en kyni, t.d. vinnustundum og atvinnugreinum.
Bilið á milli atvinnutekna á launþega hjá körlum og konum var nokkuð misbreitt eftir landshlutum árið 2023. Kynjamunur á atvinnutekjum á launþega var mestur í landshlutanum með hæstar heildaratvinnutekjur á íbúa, þ.e.a.s. á Austurlandi þar sem atvinnutekjur karlkyns launþega voru 54,4% hærri en atvinnutekjur kvenkyns launþega. Næstmestur kynjamunur var á Vesturlandi þar sem atvinnutekjur á launþega voru 41,5% hærri hjá körlum en konum. Minnstur kynjamunur hvað varðar atvinnutekjur á launþega var á höfuðborgarsvæðinu eða 22,2% og næstminnstur á Suðunesjum, 29%.
Atvinnutekjur á kvenkyns launþega voru langhæstar á höfuðborgarsvæðinu árið 2023 eða 8,3 milljónir króna. Í öðrum landshlutum voru atvinnutekjur á kvenkyns launþega á bilinu 6,8 til 7,3 milljónir kr. Atvinnutekjur á karlkyns launþega voru hæstar á Austurlandi eða 11,1 milljón króna en lægstar á Norðurlandi vestra, 8,8 milljónir.
Mestur kynjamunur á atvinnutekjum á launþega 2008-2023 var árið 2008 þegar hann var 54,9% en hefur minnkað stöðugt síðan. Frá 2015 hafa atvinnutekjur á kvenkyns launþega hækkað um 14% en atvinnutekjur á karlkyns launþega um 4%.