Enski fiðluleikarinn Rachel Podger kom fram á fyrstu Early Music-hátíðinni sem haldin var í Norðurljósasal Hörpu, þá á tónleikum sem haldnir voru 26. mars 2024 og báru yfirskriftina La Stravaganza. Með henni lék pólska upprunasveitin Arte dei Suonatori og ég hélt vart vatni yfir flutningnum, einkum á „Vetrinum“ úr Árstíðunum fjórum eftir Antonio Vivaldi, enda „hefði ég gefið flutningnum á „Vetrinum“ sex stjörnur, væri ég ekki bundinn þeim takmörkunum að geta aðeins farið upp í fimm“.
Kanadíski hljómsveitarstjórinn og söngkonan Barbara Hannigan kom í annað skipti fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, nú hinn 5. apríl 2024. Á efnisskránni voru verk eftir Richard Strauss og Francis Poulenc. Það var einmitt óperan Mannsröddin eftir síðarnefnda tónskáldið sem sló í gegn hjá áheyrendum og voru þeir gagnteknir af flutningnum, „enda hef ég aldrei heyrt önnur eins fagnaðarlæti að loknum sinfóníutónleikum þar. Hannigan var fagnað sem poppstjörnu og er það vel!“
Sinfóníuhljómsveitin í Bamberg kom í heimsókn í Hörpu hinn 20. apríl 2024. Tékkinn Jakub Hruša stjórnaði og franski píanistinn Hélène Grimaud lék einleik með hljómsveitinni. Það var sama hvar bar niður, hvort sem það var í forleikjum Wagners, píanókonserti Schumanns eða þriðju sinfóníu Brahms. Flutningurinn var fádæma góður og ég gaf listamönnum sem komu fram á þessum frábæru tónleikum í Eldborg réttilega fimm stjörnur en tók „um leið skýrt fram að stjörnugjöf í þessu tilviki er óþörf og rýnin skrifaði sig í raun sjálf“.
Það var skammt stórra högga á milli í
Eldborg Hörpu, því fjórum dögum á eftir Víkingi og Yuju Wang kom bandaríski sellóleikarinn Yo-Yo Ma fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í rýni komst ég svo að orði: „Yo-Yo Ma er goðsögn í heimi klassískrar tónlistar. […] Af honum geislar góðmennska sem sannarlega skilaði sér í flutningi á sellókonserti Edwards Elgars.“ Og bætti við að lokum: „Fyrir skemmstu komst ég svo að orði í færslu á Facebook: „Þjóð sem á tónlistarhús er vel sett. Þjóð sem getur séð Víking Heiðar, Yuja Wang og Yo-Yo Ma í sömu vikunni er rík.“ Þegar ég gekk út í myrkrið umrætt októberkvöld fannst mér heimurinn betri. Það er máttur tónlistarinnar og hann verður seint eða jafnvel aldrei ofmetinn.“
Víkingur Ólafsson lék Goldberg-tilbrigðin eftir Johann Sebastian Bach á þrennum tónleikum í Hörpu en ég sá þá sem haldnir voru hinn 16. febrúar 2024 og í rýni vék ég að því að þessir tónleikar hefðu verið upplifun „og það er mín fjallgrimm vissa að þeir eiga eftir að vera greyptir í minni þeirra sem á hlýddu.“
Víkingur kom í annað skiptið á árinu fram í Hörpu, að þessu sinni í félagi við Yuju Wang á tónleikum sem haldnir voru hinn 20. október 2024. Þau eru í hópi fremstu píanóleikara veraldar og það er í sjálfu sér ekki algengt að sjá tvo stjörnupíanista koma saman fram, það er að segja að leika saman á tvo flygla. „Tónleikarnir voru í þeim gæðaflokki að öll gagnrýni verður hjóm eitt,“ skrifaði ég í rýni og bætti við: „Áheyrendur urðu þannig vitni að framúrskarandi flutningi, túlkun og breidd sem er sjaldheyrð á tónleikum hérlendis.“
Í júní skrifaði ég rýni undir heitinu „Rödd aldarinnar“ og var ég þá að vísa til tónleika norsku sópransöngkonunnar Lise Davidsen og píanóleikarans James Baillieu á Listahátíð í Reykjavík hinn 1. júní 2024. Þá skrifaði ég meðal annars: „Sá hæfileiki [Davidsen] að geta sungið bæði Wagner (dramatík) og Schubert (ljóðasöngur) er bara alls ekki öllum gefinn, sérstaklega þegar röddin er svona stór. Sumir hafa freistast til þess að bera Davidsen saman við aðra sópransöngkonu, það er að segja samlanda hennar, Kirsten Flagstad. Fyrir mér hefur Davidsen miklu meiri breidd sem minnir um margt á þá breidd og dýpt sem kanadíski tenórsöngvarinn Jon Vickers hafði. Hvað um það, þetta voru stórkostlegir tónleikar!“