Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Ég er ánægð með að fá þessa umfjöllun um málefni tónlistar í Landsbókasafni,“ segir Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður, en í laugardagsblaði Morgunblaðsins var rætt við Bjarka Sveinbjörnsson tónlistarfræðing um áhyggjur hans af tónlistararfi Íslendinga þegar enginn sérfræðingur í tónlist starfar lengur á safninu.
„Við höfum bent á þetta og að það þurfi að skoða fjárhag safnsins almennt. Við erum með stór verkefni varðandi söfnun og varðveislu á útgefinni íslenskri tónlist. Síðustu fjögur ár er búið að endurskipuleggja umgjörð tónlistargeirans en ekki okkar hluta. Vegna niðurskurðar höfum við ekki haft bolmagn til að ráða aftur í stöðu tónlistarfræðings eftir að Bjarki og Jón Hrólfur Sigurjónsson hættu vegna aldurs fyrir rúmu ári, þótt það sé ætlunin, enda nauðsynlegt.“
Þarf að móta stefnu
Samkvæmt lögum á Landsbókasafnið að safna allri útgefinni íslenskri tónlist, en meiri óvissa er með hljóðfærin.
„Í öllu safnastarfi þarf að velja og hafna og við höfum talað fyrir því að það verði að vera einn starfsmaður sem tekur á móti efni og hefur innsýn og þekkingu á sviði tónlistar. En auðvitað þarf að móta stefnu um það hverju er safnað. Það er ekki hægt að taka inn öll hljóðfæri og það er spurning hvort hljóðfærin sjálf ættu frekar heima hjá Þjóðminjasafninu. Það er alveg ljóst að fara þarf í stefnumótunarvinnu og tryggja að safnið hafi nægt fjármagn til að sinna hlutverki sínu svo vel sé, líka tónlistararfi Íslendinga.“