Tilbúinn FH-ingurinn Logi Hrafn er tilbúinn í nýja og öðruvísi áskorun með króatíska liðinu Istra.
Tilbúinn FH-ingurinn Logi Hrafn er tilbúinn í nýja og öðruvísi áskorun með króatíska liðinu Istra. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn ungi Logi Hrafn Róbertsson gerði samning við króatíska félagið NK Istra 1961 á Þorláksmessu. Logi kemur til Istra frá uppeldisfélagi sínu FH, þar sem hann hefur leikið allan ferilinn til þessa

Króatía

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn ungi Logi Hrafn Róbertsson gerði samning við króatíska félagið NK Istra 1961 á Þorláksmessu. Logi kemur til Istra frá uppeldisfélagi sínu FH, þar sem hann hefur leikið allan ferilinn til þessa. Samningur Loga við króatíska félagið gildir til sumarsins 2028.

Logi var samningslaus og var honum því frjálst að semja við Istra, sem leikur í efstu deild Króatíu. Félagið þurfti þó að greiða FH uppeldisbætur vegna ungs aldurs Loga en hann er tvítugur.

Króatíska deildin er í fríi til 25. janúar en Istra lék síðast deildarleik 20. desember. FH-ingurinn heldur út 2. janúar.

„Þetta kom fyrst upp í sumar á miðju tímabili heima. Ég frétti þá af áhuga þeirra og við funduðum saman. Þeir fylgdust vel með mér og vildu fá mig en ég var ekki alveg viss.

Ég kláraði tímabilið með FH og við héldum áfram að vera í sambandi. Ég kíkti svo út, var mjög hrifinn af þessu og ákvað að taka slaginn,“ sagði Logi í samtali við Morgunblaðið.

Lítur mjög vel út

Eins og flestir Íslendingar vissi Logi lítið um króatíska fótboltann þegar hann frétti af áhuga Istra. Þá kom sér vel að FH-ingurinn Emil Hallfreðsson, atvinnu- og landsliðsmaður til margra ára, þekkir íþróttastjóra Istra.

„Ég vissi mjög lítið um þetta fyrst þegar þeir höfðu samband. Ég gat sem betur fer rætt við Emil Hallfreðsson sem þekkir íþróttastjórann þeirra. Hann talaði mjög vel um þetta. Það var líka gott að fá að kíkja út og skoða allt saman. Þetta lítur mjög vel út og ég tel mig geta gert góða hluti þarna,“ sagði Logi.

Meðalaldurinn í leikmannahópi Istra er aðeins 23 ár og er félagið duglegt að selja leikmenn áfram. Logi á því góðan möguleika á að vinna sér inn sæti í liðinu og á sama tíma eiga möguleika á að komast í stærra félag í sterkari deild.

„Þeir eru með yngsta meðalaldurinn í deildinni og vilja spila á ungum leikmönnum. Fótboltinn sem liðið spilar er heillandi og ætti að henta mér mjög vel. Þeir eru duglegir að sækja leikmenn og selja þá í stærri deildir. Þetta getur verið góður stökkpallur,“ sagði FH-ingurinn.

Logi kunni afar vel við sig á heimaslóðum hjá FH, þar sem allt var til alls. Aðstæðurnar hjá Istra eru öðruvísi en þar er töluvert hlýrra en í Hafnarfirðinum, en félagið er staðsett í Pula, hafnarborg við Adríahaf.

„Þetta er aðeins öðruvísi. Aðstæðurnar hjá FH eru til fyrirmyndar og lítið hægt að setja út á þær. Hjá Istra ertu í sólinni allan daginn og það mun klárlega henta mér mjög vel,“ sagði hann kátur.

Mjög sterk deild

Sterkustu félagslið Króatíu eru afar góð og stórliðin Dinamo Zagreb, Hajduk Split og Rijeka eru í þremur efstu sætunum. Önnur félög eru með minna fé á milli handanna og er neðri hluti tíu liða deildarinnar mjög jafn.

„Það eru risalið þarna eins og Dinamo Zagreb, Rijeka og Hajduk Split. Það eru alvörustórlið með frábæra leikmenn. Það mun taka einhvern tíma að aðlagast og venjast nýrri deild í nýju landi. Þetta er mjög sterk deild.“

Þar sem Logi var samningslaus hjá FH mátti hann ræða við önnur félög. Hann var því staðráðinn í að fara í atvinnumennsku.

„Ég fann að ég var tilbúinn að taka næsta skref. Ég var tilbúinn að líta í kringum mig og ég var tilbúinn að taka þetta stökk,“ sagði Logi, sem fann fyrir áhuga fleiri félaga.

„Það voru fleiri félög en mér líst mjög vel á Istra og fannst það besti kosturinn fyrir mig. Það varð því fyrir valinu,“ útskýrði hann.

Það verða viðbrigði fyrir Loga að flytja einn til Króatíu úr þægindarammanum í Hafnarfirði. Hann er spenntur fyrir áskorununum utan vallar sömuleiðis í borg sem lofar afar góðu. Rúmlega 52.000 manns búa í Pula, sem er vinsæll ferðamannastaður.

„Ég flyt einn en svo mun fjölskyldan kíkja á mig. Liðið er í Pula og ég mun búa þar. Þetta er mikill túristastaður á sumrin. Það er fullt af fallegum ströndum þarna og veðrið er oftast frábært. Þetta er strandbær og verður rosalega ljúft að búa þarna. Ég er orðinn tvítugur og ég er tilbúinn í að prófa að búa einn,“ sagði hann.

Sjáum hvert það leiðir

Eins og Logi kom inn á fyrr í viðtalinu er Istra duglegt að selja leikmenn í stærri félög í sterkari deildum. Hafnfirðingurinn ætlar að einbeita sér að því að komast í liðið fyrst, áður en hann íhugar næstu skref.

„Ég vil byrja á því að vinna mér sæti í liðinu og komast inn í menninguna. Ég vil spila eins mikið og eins vel og ég get. Ég vil gera góða hluti með þessu félagi og svo sjáum við hvert það leiðir,“ sagði Logi Hrafn.

Logi er fjölhæfur leikmaður og getur leyst flestar stöður í vörninni og á miðjunni. Hann á von á því að vera á miðjunni hjá Istra.

„Miðað við fundina sem við fórum á þá sjá þeir mig sem annan af tveimur miðjumönnum. Það getur svo alltaf breyst. Við sjáum til.“

Istra er sem stendur í áttunda sæti í tíu liða efstu deild. Liðið er með 19 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. Í átján leikjum eru sigrarnir fjórir, töpin sjö og jafnteflin sjö.

„Ég hef horft á síðustu leiki hjá liðinu og þeir hafa verið mjög óheppnir að vera ekki með fleiri stig. Þeir ættu að vera með fleiri stig og vonandi get ég hjálpað til við að ná í þau þegar ég kem inn í þetta núna í janúar,“ sagði FH-ingurinn.

Erfitt að kveðja FH

Hann viðurkenndi að það hefði verið erfitt að kveðja FH, þar sem hann hefur leikið allan ferilinn og í gegnum yngri flokkana. Þrátt fyrir ungan aldur eru leikirnir í efstu deild orðnir 80 og mörkin tvö.

„Það var erfitt. Ég tók mín fyrstu skref þarna og ég verð ævinlega þakklátur fyrir það sem félagið gerði fyrir mig. Það var mjög erfitt að kveðja Krikann,“ sagði Logi.

Eini A-landsleikur Loga til þessa kom í vináttuleik gegn Hondúras 18. janúar á þessu ári. Hann hefur leikið með U21-, U19- og U17-ára landsliðum Íslands, alls 31 leik. Hann vonast til að fá fleiri tækifæri með A-landsliðinu sem atvinnumaður.

„Það er alltaf markmiðið að spila fyrir A-landsliðið og vonandi fæ ég tækifæri til þess í framtíðinni. Það er undir mér komið að spila vel og setja pressu á þjálfarann,“ sagði Logi Hrafn.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson