Agnar Már Másson
agnarmar@mbl.is
Það er ekki á hverjum degi sem borgarísjaka rekur nálægt landi en slíku fengu íbúar Blönduóss að verða vitni að er þeir risu á fætur í gærmorgun. Stærðarinnar gestur hafði komið sér fyrir á Húnafirði.
Blönduósingurinn Róbert Daníel Jónsson náði nokkrum myndum af jakanum undir sólarupprás í gærmorgun. Hann segir við mbl.is að jakinn hafi virst fastur í stað aðeins fjóra kílómetra frá bænum.
„Hann var fastur þar sem ég flaug yfir hann. Það var ekkert rek á honum,“ segir Róbert Daníel og bætir við að jakinn geti bráðnað þarna.
Engar tilkynningar borist
Þegar Morgunblaðið leitaði til Veðurstofu Íslands í gær til að spyrjast fyrir um ísjakann tjáði veðurfræðingur blaðamanni að engar tilkynningar þess efnis hefðu borist. Því hefði hann engar frekari upplýsingar um hann.
Sögulega er hafís ákveðinn vágestur fyrir Íslendinga enda er hann oft fylgifiskur mikillar kuldatíðar. Frægt er hafísljóð Matthíasar Jochumssonar, sem nefnir ísinn m.a. „silfurflota, sendan oss að kvelja“. Þessi jaki mun þó ólíklega fá að kvelja marga.