Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar var kynnt þann 21. desember sl. Þar kemur fram m.a. að stór skref verði stigin til að auka lífsgæði öryrkja og eldra fólks. Grunnframfærsla og frítekjumörk verða hækkuð og ýmis réttlætismál sem lengi hefur verið kallað eftir verða loks að veruleika.
Flokkur fólksins hefur barist af alefli gegn vaxandi kjaragliðnun almannatryggingaþega. Með nýrri samstiga ríkisstjórn verður loks klippt á þá öfugþróun sem hefur verið við lýði um árabil þar sem leiðrétting launa þessa hóps um hver áramót hefur ekki fylgt almennri launaþróun í landinu eins og kveðið er á um í 62. gr. almannatryggingalaga heldur eru þau látin fylgja neysluvísitölu sem orsakað hefur vaxandi kjaragliðnun ár frá ári. Er nú svo komið að frá efnahagshruni 2008 hafa þau, uppsafnað, verið hlunnfarin um ríflega 100 þúsund krónur á mánuði. Eftir langa og stranga baráttu Flokks fólksins fá öryrkjar og ellilífeyrisþegar loks sæti við kjarasamningaborðið og verða ekki skildir út undan með vaxandi kjaragliðnun á meðan aðrir semja um sínar launahækkanir. Við, sem stundum höfum verið nefndar Valkyrjurnar þrjár, höfum rofið þennan vítahring, samstiga og af heilum hug.
Það er af auðmýkt og þakklæti sem ég tekst á við þau krefjandi verkefni sem fram undan eru. Með þessar hjartahlýju baráttukonur, Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra, við stjórnvölinn getur þjóðin okkar litið bjartari augum til framtíðar. Það er enginn ágreiningur um mikilvægi þess að draga úr skerðingum og stíga stór skref í baráttunni gegn fátækt.
Það er ástæða til að gleðjast yfir bjartari tímum með nýrri ríkisstjórn sem mun berjast af öllum sínum mætti fyrir betra lífi fyrir okkur öll. Brennandi hugsjónir leiddu okkur áfram í stjórnarmyndunarviðræðunum þar sem það sem sameinaði var svo miklum mun stærra en það sem greindi okkur að. Það liggur í hlutarins eðli að þar sem margir koma að myndun stjórnar þá fær enginn allt sitt fram. Hér ríkir ekki einræði heldur lýðræði þótt það vilji brenna við að einhverjir átti sig ekki á því. Hin svokölluðu kosningaloforð eru viljayfirlýsingar þeirra sem leggja þau fram. Flokkur fólksins er blessaður í nýrri ríkisstjórn sem einhuga er sú verkstjórn sem þjóðin hefur kallað eftir um árabil. Valkyrjustjórnin horfir björtum augum til framtíðar þar sem glæsilegur ráðherrahópurinn okkar hefur brett upp ermar og mun ótrauður vinna verk sín að vanda eins og þjóðin okkar hefur óskað sér með því að gefa okkur sitt dýrmæta atkvæði.
Gleðilega hátíð öllsömul og gæfuríkt komandi ár.
Höfundur er félags- og húsnæðismálaráðherra. ingasaeland@althingi.is