Rannsókn á skemmdum sæstreng í Eystrasalti hefur leitt í ljós langa slóð eftir akkeri á hafsbotninum, að sögn finnsku lögreglunnar.
Á jóladag var straumkapall sem flytur rafmagn frá Finnlandi til Eistlands rofinn. Gerðist það aðeins rétt rúmum mánuði eftir að tveir fjarskiptakaplar voru rofnir í sænsku landhelginni í Eystrasalti.
Finnsk yfirvöld hafa að undanförnu rannsakað olíuflutningaskipið Eagle S, áhöfn hvers er grunuð um að hafa rofið sex sæstrengi í Finnska flóa, straumkaplana Estlink 1 og 2 milli Finnlands og Eistlands ásamt fjórum ljósleiðaraköplum. Rannsóknin hefur nú leitt í ljós akkerisslóð á hafsbotni nálægt Estlink 2, að sögn lögreglu.
„Slóðin er tugir kílómetra að lengd,“ er haft eftir Sami Paila, yfirmanni rannsóknardeildar ríkislögreglustjóra í Finnlandi, í yfirlýsingu. „Enn sem komið er hefur ekki tekist að finna mögulega staðsetningu þar sem akkerið fór af stað.“
Í samtali við finnska ríkisútvarpið (YLE) segir Paila að slóðin sé líklegast eftir Eagle S, sem siglir undir flaggi Cooks-eyja. Nú er skipið kyrrt í Porvoo, um 40 kílómetra austur af Helsinki. Rannsóknir um borð í skipinu hófust að nýju í gær en hlé hafði verið gert á neðansjávarrannsóknum vegna veðurfars. Auk þess hefur áhöfnin verið yfirheyrð.
Finnsk tollyfirvöld gruna olíuflutningaskipið um að vera hluti af skuggaflota Rússa, og vísa þar til skipa sem flytja rússneskar hrá- og olíuvörur sem sæta þó viðskiptabanni vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Mark Rutte framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) sagði á föstudag að NATO myndi efla hernaðarlega viðveru sína á Eystrasalti til að bregðast við.