Þúsundir Georgíumanna, sumir með rauð spjöld á lofti, mótmæltu í höfuðborginni Tíblisi í gær þegar Mikheil Kavelashvili, nýr forseti landsins og fyrrverandi þingmaður fyrir Georgíska drauminn, var settur í embætti. Salome Zourabichvili fráfarandi forseti segir nýja forsetann ólögmætan. Evrópusambandið og stjórnarandstaðan í Georgíu hafa dregið réttmæti kosninganna í efa og stjórnarflokkurinn verið sakaður um kosningasvindl. Evrópuþingið kallar eftir því að kosningarnar verði endurteknar.
Kavelashvili ávarpaði fjölmiðla eftir embættistökuna þar sem hann sagðist vera forseti allra „óháð því hvort fólk er hrifið af mér eða ekki“. Sagði hann mikilvægt að Georgíumenn sameinuðust um sameiginleg gildi og bæru virðingu hver fyrir öðrum.