Agnar Már Másson
agnarmar@mbl.is
Tveir af stærstu hótelrekendum í Reykjavík segja nær öll sín gistipláss uppbókuð. Þrátt fyrir umræðu um yfirvofandi samdrátt á aðsókn ferðamanna til Íslands virðist það hafa haft lítil áhrif á hátíðirnar.
Ferðamennirnir virðast sækja frekar í höfuðborgina en á landsbyggðina á þessum tíma árs.
„Það er eiginlega nær uppselt á öllum hótelum í Reykjavík hjá okkur,“ segir Arndís Anna Reynisdóttir í samtali við Morgunblaðið en hún er forstöðumaður sölu- og markaðssviðs hjá Iceland Hotel Collection by Berjaya, sem rekur átta hótel í borginni. „Það er eitthvað aðeins laust á landsbyggðinni,“ bætir hún við. Arndís Anna segir þessa aðsókn í raun eðlilega miðað við síðustu ár, að undanskildum faraldursárunum.
„Þó svo að það hafi verið mikið í umræðunni að fækkun ferðamanna væri yfirvofandi, þá hafði þetta ekki áhrif á áramótin,“ segir hún aukinheldur.
Hún segist nema aukna aðsókn til Reykjavíkur yfir hátíðirnar. „Það er kannski bara veðurtíðin sem gerir það að verkum að fólk sækir frekar í að vera um áramótin í Reykjavík. Svo eru það líka flugeldarnir og ýmislegt sem er mjög eftirsóknarvert,“ segir hún.
Það sé einstakt á heimsvísu hve mikið megi sprengja á áramótunum, sem ferðamönnum þyki mörgum spennandi. Auk þessa hafa hótelin oft skipulagt hátíðarkvöldverði fyrir hátíðargestina.
Uppbókað hjá Center-hótelum
Center-hótel reka níu gistihús í Reykjavík. „Það er allt fullbókað yfir áramót,“ segir Kristófer Oliversson framkvæmdastjóri Center-hótela í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir það einnig eðlilegt að fullbókað sé á þessum tíma árs. Margra ára markaðsvinna hafi náð þeim árangri. Nú séu jólin einnig orðin vinsæll mánuður í ferðaþjónustunni.
Það eru því um þúsund herbergi uppbókuð hjá Center-hótelum, sem rúma um tvö þúsund gesti.