Sæbjörg
Ingigerður
Richardsdóttir (Didda) fæddist á Akureyri 3. ágúst 1962. Hún lést á líknardeild Landspítalans 8. desember 2024.

Sæbjörg var dóttir hjónanna Richards Þórólfssonar, f. 1919, og Aldísar Lárusdóttur, f. 1930. Systir Sæbjargar er Anna María, f. 1959, eiginmaður Wolfgang Frosti Sahr, f. 1958.

Eiginmaður Sæbjargar er Ólafur Magnússon, f. 1962, og synir þeirra eru Magnús Addi, f. 1988, eiginkona Laura-Ann Murphy, f. 1991, og Richard Helgi, f. 1995.

Sæbjörg ólst upp á Akureyri. Á æsku- og unglingsárum sínum þar tók hún virkan þátt í skátastarfi. Hún naut útivistar og ferðalaga, bæði með skátunum og fjölskyldu sinni. Hún útskrifaðist frá MA 1982. Nokkrum árum síðar flutti hún til Reykjavíkur ásamt Ólafi. Hún starfaði í Landsbankanum þar til hún hóf nám í þroskaþjálfun og útskrifaðist sem þroskaþjálfi árið 1987. Sæbjörg starfaði sem þroskaþjálfi í nokkur ár áður en hún fluttist til Kaupmannahafnar árið 1990. Þar vann hún á vöggustofu og styrkti jafnframt kynnin við dönsku fjölskylduna sína en móðir Sæbjargar var dönsk. Þegar heim var komið árið 1993 réðst hún fljótlega til starfa hjá Búnaðarbankanum. Sæbjörg vann þar í gegn um sameiningar, nafnabreytingar og hrun. Hún starfaði að lokum í Arion banka til dauðadags.

Sæbjörg tók mikinn þátt í félagsstarfi, hún var í stjórn skíðadeildar Víkings um tíma. Hún var virk útivistarkona og mikill umhverfissinni, þótti fátt skemmtilegra en að ferðast um landið okkar akandi, gangandi eða á skíðum. Hún var virkur félagi í Ferðaklúbbnum 4x4 sem formaður umhverfisnefndar klúbbsins og stjórnaði þar m.a. landgræðsluferðum og stikun hálendisslóða. Sæbjörg var með mjög vinsælar flotmeðferðir ásamt vinkonu sinni. Síðustu árin voru þær með flot í sundlauginni í Mörkinni við Suðurlandsbraut.

Útför Sæbjargar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 30. desember 2024, klukkan 13 og verður athöfninni streymt, sjá mbl.is/andlat.

Elskuleg vinkona mín hefur farið sinn síðasta spöl eftir erfið veikindi. Þegar hugurinn reikar aftur í tímann til menntaskólaáranna koma upp minningar um kynnin okkar góðu, spilakvöldin í Bólstaðarhlíðinni og góðar stundir á Rauðarárstígnum, hjá Óla og Diddu. Hlátur og gleði var alltaf við völd, virðing og náin vinátta mótaðist. Góð vinkona komst þannig að orði að þau voru eitt, Didda og Óli. Þau voru tvær samrýndar sálir sem tókust saman á við lífið og seinna dauðann.

Ungu konurnar í Bólstaðarhlíðinni, Bára, Þóra og Auður og seinna Arna og Signý, stunduðu nám í menntaskóla og félagslífið var tekið föstum tökum. Ég var einstæð móðir og í „kvennakommúnunni“ var dóttir mín svo lánsöm að eiga allar þessar góðu konur að. Óli og Didda tóku Gullu minni opnum örmum og veittu henni alltaf svo fallega umhyggju og vináttu. Þegar Eiríkur minn kom inn í líf okkar mæðgna skapaðist einnig náin vinátta og öll höldum við enn hópinn þrátt fyrir að lífsins ganga hafi beint okkur á mismunandi slóðir erlendis og hérlendis. Við vinkonurnar fjórar eignuðumst allar drengi á árinu 1988.

Didda mín var svo einstök manneskja og ég sakna hennar djúpt. Það er margs að minnast og margs er að sakna. Didda sýndi mér alltaf djúpa virðingu og umhyggju. Hún var alltaf tilbúin að styðja mig og mitt fólk á lífsins göngu, hún var einlæg og heiðarleg. Þegar hún tjáði skoðun sína eða sagði álit sitt kom alltaf heiðarlegt svar og umhyggja um leið. Didda var tryggur vinur, hún var djúpvitur og gat verið mjög ákveðin. Það var einnig stutt í húmorinn og hann gat verið ansi beittur og leiðbeinandi um leið. Með mýkt kattarins og glæsileika fór hún sínar eigin leiðir og bar höfuðið hátt eins og góð vinkona okkar orðar það.

Það var alveg sama hvað var á dagskránni í lífinu; Didda lagði sig alltaf fram um að vera virkur þátttakandi og gaf sig alla. Hún tók að sér veislustjórn á stórum viðburðum í lífi fjölskyldunnar og þegar þeirra er minnst stendur upp úr hversu vönduð og falleg umgjörðin var, hún stjórnaði mögnuðum uppákomum með dönsku ívafi og gleðin var við völd. Hún fór í raun alltaf „extra mílu“ fyrir vini sína og samferðafólk. Dansk-íslenski jólafrúkosturinn á heimili Óla og Diddu er svo eftirminnilegur og gómsætur, alveg á pari við „Babettes gæstebud“ og var tilhlökkunarefni á hverju ári. Mig langar einnig að minnast foreldra Diddu sem voru einstök heim að sækja og opnuðu heimili sitt fyrir okkur fjölskyldunni og fleiri vinum, m.a. á Andrés Andar-leikunum á Akureyri. Blessuð sé minning þeirra.

Í veikindum Diddu var sterkur persónuleiki hennar alltaf nærri og hún tók vegferðinni af stöku umburðarlyndi og yfirvegun. Húmorinn var aldrei langt undan og umhyggja hennar fyrir vinum og vandamönnum skein í gegn alla leið. Ég mun geyma minningarnar í hjartanu um ókomna tíð. Innilegustu samúðarkveðjur og þakklæti frá okkur fjölskyldunni elsku Óli, Magnús Addi, Richard, Laura Ann og Anna og til annarra aðstandenda og vina.

Auður Axelsdóttir.

Nú er komið að kveðjustund. Hún Sæbjörg Richardsdóttir, Didda, hefur fengið hvíldina eftir hetjulega baráttu við löng og ströng veikindi.

Ég er þakklát fyrir þann tíma sem við fengum saman, sá tími hefur verið eitt stórt ævintýri. Það var hún Didda mín og félagar sem kynntu mér ævintýri hálendis Íslands og þá töfra sem þar er að finna. Sagt er að sá sem ekki þekkir óbyggðir landsins þekki ekki hið eina sanna Ísland. Minningarnar hrannast upp eins og skýjabólstrar við sjóndeildarhringinn: Drangajökulsferðir, Langjökull, Jökulgil, Kerlingarfjöll, Steingrímsfjarðarheiði þar sem oft var glímt við óblíða veðráttu í vetrarferðum. Didda og félagar töldu brasið bara part af þessu öllu og tekið á því af stóískri ró. Svo voru það björtu sumarnæturnar í Þórsmörk, að ógleymdri gönguskíðaferð á Eyjafjallajökul, sem var jú eitt af mörgu sem við brölluðum saman, Didda blessunin alltaf í fararbroddi. Allt þetta og svo miklu meira kemur upp í hugann sem ógleymanlegar dýrmætar minningar sem ég geymi sem fjársjóð á minningafestinni minni. Um þessar ferðir mæti skrifa endalaust en ég læt staðar numið hér.

Þó verð ég að minnast á eitt og það er ógleymanlegt ferðalag sem við fórum saman í þegar við hófum nám í vatnameðferð, sem endaði með að við stofnuðum saman Flot og frið, sem hefur boðið upp á meðferðir í slökun í vatni. Án þín verður þetta ekki það sama en ég geri mitt besta að halda uppi merki okkar áfram hjá Floti og friði. Ég veit að þú vakir yfir þessu með mér, enda alltaf sönn vatnagyðja. Takk fyrir allt og allt elsku Didda og þegar mín kveðjustund kemur þá tökum við upp þráðinn að nýju og bröllum eitthvað spennandi saman, kæra vatnasystir góð.

Fjölskyldu Diddu sendum við samúðarkveðjur, minning góðrar konu lifir í hjörtum okkar sem hana þekktum.

Farðu í friði vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Kærleikskveðjur,

Laila og José.

Að skrifa minningarorð um jafn einstaka og frábæra manneskju eins og Sæbjörgu, Diddu, ætti að vera létt verk en þegar minningarnar koma upp í hugann er erfitt að koma þeim öllum á blað. Didda var frábær samstarfskona, stutt í húmorinn, vinnusöm, jákvæð, lausnamiðuð og góður félagi. Hjá henni kom maður aldrei að tómum kofunum, hvort sem um var að ræða málefni vinnunnar, félagsstarfsins eða heimsmálin.

Eins og gerist á vinnustöðum er margt brallað og gert til að brjóta upp dagana. Þar var Didda ávallt mikill þátttakandi. Hvaða þema sem lagt var út af var alltaf forvitnilegt hvað kæmi í púkkið frá Diddu. Minnist ég sérstaklega smurða brauðsins og þótti henni ekki tiltökumál ef veitingarnar áttu að vera í einhverjum þemalit.

Didda var mikill þátttakandi í starfi orlofshúsanefndar. Var hún þar hamhleypa til verka og áttum við góðar stundir í orlofshúsunum. Fyrir hönd orlofshúsanefndar starfsmannafélagsins Skjaldar vil ég þakka fyrir þitt framlag.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þin.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Fjölskyldu Diddu sendum við hlýjar samúðarkveðjur. Guð varðveiti minningu góðrar samstarfskonu.

Svava Halldóra
Friðgeirsdóttir.