Sigurrós Agnarsdóttir fæddist í Reykjavík 18. desember 1956. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 17. desember 2024.

Sigurrós var dóttir hjónanna Agnars Líndal Hannessonar, f. 16.7. 1931, d. 10.1. 1983, og Guðríðar Lillýjar Karlsdóttur, f. 3.9. 1930, d. 18.5. 1988. Sigurrós ólst upp hjá föðurömmu sinni, Sigurrós Jóhannesdóttur, f. 23.8. 1895, d. 18.8. 1986.

Sigurrós átti þrjú alsystkini: Karl Óskar, f. 19.6. 1952, d. 22.10. 2020, Gísla Líndal, f. 13.7. 1954, d. 5.3. 2024, og Sigurð, f. 7.8. 1955, d. 15.12. 2020. Þá átti hún einn bróður samfeðra, Daníel, f. 11.7. 1960, einnig átti hún einn bróður sammæðra, Ragnar Ragnarsson, f. 16.6. 1962. Eftirlifandi eiginmaður Sigurrósar er Jón Kristbergsson, f. 13.8. 1951. Börn þeirra eru: 1) Kristbergur, f. 24.9. 1974, eiginkona hans er Anna Sveinlaugsdóttir. 2) Guðbjörg Lillý Rós, f. 19.2. 1977, eiginmaður hennar er Ingvar Kristinn Guðnason, börn þeirra eru Marselín Mars, Jón og Kristófer Már. 3) Matthías Líndal, f. 31.1. 1980, börn hans eru Diljá Björg, Baltasar Breki og Sigurrós Birta. 4) Íris, f. 27.4. 1984, eiginkona hennar er Berglind Ósk Guðmundsdóttir, börn Írisar eru Garðar Máni Ágústsson, Hjörtur Elías Ágústsson og Sigurrós Amalía Nótt Ágústsdóttir, barn Írisar og Berglindar er Snævar Jökull Berglindarson.

Sigurrós ólst upp í Reykjavík þar til þau Jón fluttu upp á Akranes 2021.

Sigurrós gekk í Langholtsskóla og stoppaði hún stuttan tíma á vinnumarkaði eftir að skólanum lauk.

Útför Sigurrósar verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 30. desember 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku Rósa mín.

Nú ert þú búin að kveðja þennan heim, langt fyrir aldur fram, og mikið sem erfitt er að horfa á eftir þér. Ég þekki ekki lífið án þín og maður er máttlaus þegar vantar hinn helminginn af manni. Það er svo óraunverulegt að vera að skrifa minningargrein um þig, ástina í lífi mínu til 50 ára.

Ég er svo þakklátur fyrir öll árin okkar saman, lífið var ekki alltaf auðvelt en við komumst í gegnum tímana saman. Ég er svo stoltur af að hafa fengið að vera maðurinn þinn og ég tala nú ekki um börnin okkar fjögur. Við áttum marga góða tíma saman og þótti mér vænst um tímana okkar saman í sumarbústaðnum okkar Álfasteini, sem við hjálpuðumst að við að koma upp saman.

Ég elska þig svo mikið og munum við sameinast á ný þegar minn tími kemur.

Elska þig að eilífu, elsku Rósa mín.

Þinn eiginmaður,

Jón Kristbergsson.

Elsku mamma var engillinn minn og ljósið mitt. Maður grætur alla daga af söknuði, ég sakna þín svo sárt og mikið. Þú veittir mér svo mikinn stuðning og því munum við aldrei gleyma. Núna er allt svo tómlegt, sársaukafullt að heyra ekki í þér í síma eða heimsóknir. Það er einnig svo sárt að hugsa um allar minningarnar sem við áttum saman og vita til þess að þær verði ekki fleiri.

Elska þig mamma mín.

Þinn sonur,

Kristbergur Jónsson.

Elsku mamma mín. Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég er ennþá bara týnd í hjartanu að vita til þess að ég get aldrei heyrt röddina þína aftur, talað við þig aftur eða fengið símhringingar eða skilaboð frá þér. Þú varst mér og börnunum mínum hægri vængur í einu og öllu í lífinu. Alltaf varstu með ráð við öllu. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem móður mína. Ég á svo margar minningar úr æsku með þér elsku mamma mín. Við vorum alltaf að fara í ferðalög saman. Þú elskaðir sumarlandið og alltaf eitthvað að bralla. Þú varst kletturinn okkar allra á bak við sumarlandið. Þú söngst alltaf mig og börnin í svefn með lögunum „Dýrin koma að leika sér“ og „Sofðu unga ástin mín“. Ég heyri röddina þína syngja þetta lag á meðan ég skrifa þessa minningu um þig elsku mamma mín.

Þegar Hjörtur greindist með krabbamein þá varst þú kletturinn okkar dag og nótt, þínar bænir og trú gáfu okkur styrk. Þegar hann missti allt hárið í meðferðinni þá ákvaðst þú að raka allt hárið þitt af þér, þú varst sönn amma. Þegar ég varð ólétt að mínu þriðja barni og komst að því að lítil stúlka væri á leiðinni í heiminn þá ákvað ég að hún yrði skírð í höfuðið á þér; Sigurrós. Ég man hvað þú varst glöð að fá loksins nöfnuna þína sem þú þráðir. Þú varst henni svo góð amma og gerðir allt fyrir hana. Ég man hvað þú varst stolt þegar Garðar útskrifaðist úr menntaskólanum og komst inn í Háskólann. Þú hjálpaðir mér mikið með mitt fyrsta barn þegar ég var ung að verða mamma. Þú hefur alltaf verið minn hægri handleggur í lífinu og þú kenndir mér móðurhlutverkið. Síðan þegar Snævar fæddist þá varstu svo spennt yfir ömmuhlutverkinu og þú sýndir okkur svo mikinn stuðning. Þú elskaðir og dáðist að barninu okkar. Þér fannst svo gaman að gleðja hann. Þú elskaðir að leika við hann og vera til staðar eins og með öll hin börnin mín. Litla kúrufílinn sem þú gafst honum munum við alltaf vernda.

Elsku mamma mín, þú varst alltaf svo góð við konuna mína og elskaðir hana út af lífinu. Þú varst svo stolt af brúðkaupinu okkar. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur, elsku mamma mín.

Elsku fallega móðir mín, þegar við fengum þessar hræðilegu fréttir að þú værir látin þá stoppaði hjartað mitt og veröldin hrundi, ég átti erfitt með að trúa því að þú værir farin frá okkur og engin mamma til staðar. Við fjölskyldan áttum yndislega matarstund með þér áður en þú lést. Ég trúi ekki, elsku mamma mín, að þú sért farin fyrir fullt og allt, við áttum eftir að gera svo miklu meira saman í lífinu.

Elsku besta mamma mín í öllum heiminum, nú ertu komin til himna og færð að hvílast frá öllum þínum veikindum sem þú barðist við eins og hetja! Nú ertu komin í sumarlandið til allra þeirra sem þú elskaðir á himnum og ég veit að það er passað vel upp á þig þangað til minn tími mun koma. Elsku mamma mín þú hafðir svo miklar áhyggjur alltaf af pabba, ég mun hugsa og passa vel upp á hann alla tíð. Ég sakna þin sárt og mun alltaf gera elsku mamma mín.

Ég elska þig að eilífu.

Þín litla brussa eins og þú kallaðir mig alltaf,

Íris Jónsdóttir.

Elsku hjartahlýja og besta Rósa mín. Það er mér ákaflega erfitt að rita þessa hinstu kveðju til þín. Það er svo sárt að vita til þess að geta aldrei faðmað þig aftur að mér, þú varst mér svo góð og mikill stuðningur og öll þín hjálpsemi fyrir okkur fjölskylduna. Það var gaman að eiga stundir með þér, spila, kíkja í heimsókn, fá þig í heimsókn og bara vera í kringum þig.

Við höfðum svo gaman af því að grínast saman og alltaf beið bleika möndlukakan á borðinu þegar við komum í heimsókn til ykkar Nonna því þú vissir að mér þætti hún svo góð. Þú varst svo góð við mig og ég reyndi hvað ég gat að vera þér til staðar. Eins og þegar í veikindum þínum þú varst svo sár að geta ekki farið að kjósa þinn uppáhaldsflokk, Flokk fólksins, þá benti ég þér á að það væri hægt að kjósa í heimahúsi, þú ljómaðir. Ég græjaði það fyrir þig, þú varst svo þakklát eins og þú varst alltaf ef maður rétti hjálparhönd.

Það verður erfitt að koma upp í sumarbústað og þú ert ekki þar, en við eigum mikið af fallegum minningum sem ég mun ylja mér við í framtíðinni. Ég hef reynt að vera Írisi okkar og fjölskyldunni þinni til staðar og mun gera það áfram. Ég mun passa vel upp á litlu stelpuna þín, konuna mína hana Írisi, og vera henni stoð og stytta og vera þessi klettur sem þú varst fyrir hana.

Ég sárbað um að þú fengir að vera yfir afmælið þitt og jólahátíðina en veikindin þín náðu yfir og þú fórst alltof hratt frá okkur, mikið ofboðslega er það erfitt en ég trúi því að þú sért búin að hitta pabba minn hann Snævar á himnum og munum við öll sameinast á ný þegar okkar tími kemur.

Ég elska þig elsku Rósa mín, takk fyrir allt og allt.

Þín tengdadóttir,

Berglind (Begga).

Elsku besta tengdamamma mín var alltaf svo elskuleg og góð og ég kallaði hana alltaf mömmu því hún var mér eins og mamma tvö; þegar mamma mín fór í sumarlandið þá tók hún mig að sér í hennar stað, sakna hennar alltaf. Man eftir góðu tímunum saman í bústaðnum, spilakvöldum og heimsóknartímunum, föndurkvöldum og þegar hún gisti á sínum tíma hjá okkur þegar við bjuggum í Sandgerði og góðu tímunum sem við áttum saman, og jólin og gamlárskvöld og afmælin alveg ógleymanleg. Hún hlakkaði alltaf svo til jóla og afmæla allra í fjölskyldunni og var mjög gjafmild. Man eftir öllum skemmtilegu jólabíltúrunum okkar og búðabíltúrunum þegar þau bjuggu í Breiðholtinu og skemmtilegu tímunum þegar við vorum að pakka saman jólapökkunum og setja upp jólatréð með góðri og skemmtilegri jólatónlist. Þá á ég svo mikið af góðum minningum frá öllum skemmtilegu utanlandsferðunum okkar saman, t.d. fórum við tvisvar til Graceland og þær ferðir voru báðar mjög góðar og skemmtilegar en núna eru þetta bara minningar sem búa í hjarta okkar í miklum söknuði.

Elskum þig alltaf og ert alltaf góð minning í hug og hjarta okkar allra elsku tengdamamma (mamma tvö).

Ég elska þig.

Anna
Sveinlaugsdóttir.

Elsku amma, ég ber nafnið þitt með stolti, Sigurrós. Ég sakna þín svo mikið amma mín, erfitt að hugsa til þess að ég fái aldrei aftur að sjá þig, þú varst alltaf svo góð við mig og ég elska þig svo mikið. Þú varst alltaf svo dugleg að segja mér sögur, kenna mér að föndra og leika við mig.

Snævar Jökull elskaði ömmu sína svo mikið og það var svo gaman þegar þú varst alltaf að leika við mig og strjúka mér á kollinum með hlýju hendinni þinni, takk fyrir fílatuskudýrið amma sem ég er alltaf að knúsa og skemmtilegu jólalögin sem þú söngst fyrir mig í matarboðinu.

Elskum þig elsku amma okkar, við pössum vel upp á afa Nonna fyrir þig.

Sigurrós Amalía og Snævar Jökull.

Elskulega amma mín, ég veit ekki hvar ég á að byrja. Síðustu dagar hafa án efa verið þeir langerfiðustu í mínu lífi. Ég er ennþá svo innilega týndur í hjartanu og ráðvilltur, ég trúi því ekki ennþá að þú sért farin frá okkur. Það er svo erfitt að hugsa um að halda áfram með lífið án þín. Þú varst algjör klettur í lífi okkar. Þú sagðir mér líka ýmiskonar sögur um fjölskylduna, þegar þú ólst upp í bröggunum og þegar þú kynntist afa. Við sungum líka oft saman og þá kynntir þú mér ýmiskonar lög og þá með Elvis sérstaklega. Man ég eftir þessum yndislegu stundum þegar við vorum að syngja og raula saman þessi lög hans og þar á meðal „Love Me Tender“. Þú sagðir mér líka frá því að Elvis hefði sungið þetta lag fyrir ömmu sína. Ég vildi svo koma þér á óvart í tilefni dagsins þíns, þannig að ég hringdi í þig á myndavélinni, tók gítarinn minn og byrjaði að syngja lagið fyrir þig. Aldrei mun ég gleyma því hvernig þú gast ekki hætt að brosa til mín og sá gleðitárin þín renna niður kinnarnar.

Ég man líka alltaf eftir því að heimsækja ykkur afa í sumarbústaðnum, uppáhaldsstaðnum þínum. Ég man hversu stolt þú varst af mér þegar ég útskrifaðist úr menntaskólanum og fá að sjá fyrsta barnabarnið þitt ganga í háskóla. En það sem mun alltaf minna mest á þig amma mín eru jólin. Það er ekki hægt að hugsa um jólin án þín. Ég man eftir jólahefðinni okkar að taka pásu frá því að opna pakkana og fá okkur ís og sá sem fann möndlu í ísnum sínum fékk glaðning.

Okkar síðasta stund var í matarboðinu sem við héldum fyrir þig og í matinn var fiskur í ofni, þitt uppáhald. En þetta var líka okkar síðustu kveðjustund. Þessa góðu minningu mun ég varðveita það sem eftir er. Ég man ennþá eftir því þegar ég var sofandi að mamma vekur mig skyndilega og segir mér að þú sért að kveðja heiminn. Þú kvaddir heiminn langt fyrir aldur fram og féllst frá daginn áður en þú áttir afmæli. Þú varst svo spennt fyrir afmælisdeginum þínum og sérstaklega fyrir jólunum. Þú varst svo spennt fyrir sjötugsafmælinu þínu og það er svo margt sem maður vildi halda upp á með þér.

Í himnaríki ertu elsku amma mín. Ég veit að þú ert í faðmi Adda frænda, Kalla, Sigurrósar og allra þeirra sem þú elskaðir. Þú ert kannski ekki til staðar elsku amma mín en ég trúi því að þú vakir yfir okkur og verndir. Ég mun sakna þess að geta ekki heyrt röddina þína, að geta ekki fengið ömmuknúsið þitt og hlýjuna sem þú gafst mér. Amma mín, ég þakka fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, fyrir að vera til staðar fyrir mig, fyrir allt sem þú hefur kennt mér í lífinu og um hið góða í heiminum. Margar af mínum sterkustu minningum úr barnæsku eru tengdar þér og þær perlur mun ég varðveita ævinlega. Þú varst meira en bara demanturinn í lífinu mínu, þú varst mér allt.

Hvíldu í friði elsku amma mín.

Kveðja,

Garðar Máni.

Elsku Rósa amma mín.

Þú varst alltaf amma best og ég vil þakka þér fyrir allar gömlu góðu minningarnar sem við áttum saman. Takk fyrir að vera alltaf til staðar þegar ég lenti í krabbameinsmeðferðinni og takk fyrir að passa oft upp á mig þegar ég var lítill. Takk fyrir að taka alltaf við mér eftir skólann og æfingarnar og passa alltaf upp á að ég væri aldrei svangur. Takk fyrir öll jólin sem við áttum saman og fyrir allar kveðjurnar sem þú settir inn á facebook. Takk fyrir öll símtölin á afmælisdeginum mínum.

Ég man ennþá eftir því að þegar ég var búinn í skólanum þá labbaði ég til þín í Hamrabergið og þú tókst alltaf við mér og gafst mér mat og bakkelsi og passaðir upp á að ég væri aldrei svangur.

Ég man ennþá eftir leikherberginu í Hamraberginu sem ég gisti oft í þegar ég var lítill. Ég man að þú leyfðir mér alltaf að fá ís þótt mamma væri ekkert sérstaklega hrifin af því. Ég man eftir öllum sögunum sem þú sagðir mér frá æsku þinni og alls konar sögur þegar ég var lítill. Ég man þegar við hlógum saman af því að enskan þín var svo brotin og krúttleg og þú varst alltaf að reyna.

Ég man ennþá eftir ömmubakstrinum. Þegar þú varst alltaf að búa til bestu pönnukökur í heimi og litlu súkkulaðimöffinskúlurnar sem mig minnir að þú kallaðir ástarpunga. Ég man eftir öllum fótboltaleikjunum sem við horfðum á í sjónvarpinu. Ég man þegar þú gafst mér alls kyns dót þegar ég var lítill og öll skilaboðin sem þú sendir og þau enduðu öll á „knús amma“. Ég man eftir síðustu kveðjunni sem þú settir inn á afmælisdaginn minn: „Barnabarnið okkar Hjörtur Elías á afmæli í dag, 15 ára. Til hamingju með daginn, njóttu hans! Elskum þig, knús, amma og afi.“

Og daginn eftir þegar ég kem heim eftir erfiðan dag á æfingu að mamma segir við mig að þú hafir fengið heilablóðfall daginn eftir afmælið. Afmælið var góð minning og mun alltaf vera í hjarta mínu.

Ég man ennþá eftir því þegar ég kom heim úr skólanum og ætlaði að taka lúr að mamma vekur mig og segir að þú sért að fara að kveðja heiminn. Ég trúi ekki ennþá að þú sért farin frá okkur elsku besta amma mín. Ég man þegar þú sagðir að þú værir spennt að verða sjötug og fyrir fermingunni hennar Sigurrósar Amalíu. Ég man hversu spennt þú varst fyrir afmælinu þínu og jólunum. Matarboðið sem við héldum fyrir þig með uppáhaldsmatnum þínum, fiski í ofni, það er góð minning og verður alltaf í hjarta mínu.

En svona er lífið elsku amma og lífið heldur áfram og ég mun hugsa til þín hverja mínútu. Ég skal lofa þér að ég verð sterkasti maður í heimi og ég mun gera þig stolta elsku amma. En til himna ertu komin og getur hvílst í friði. Á himnum ertu með Agnari langafa, Guðríði langömmu og Adda, Kalla og Gísla bræðrum þínum.

Takk fyrir allar þessar góðu minningar og hvíldu í friði elsku amma.

Kveðja, barnabarnið þitt,

Hjörtur Elías.

Elsku hjartans Rósa mín, það er með miklum trega og sorg í hjarta, sem ég sest niður og skrifa minningarorð um þig. Mér er efst í huga hlýja þín og elskulegheit sem ég fann frá fyrstu kynnum okkar. Það varð strax eins og við hefðum alltaf þekkst, þú komst með opinn og hlýjan faðminn sem yljaði svo sannarlega.

Það var alltaf svo yndislegt að kíkja í kaffi til ykkar Nonna, alltaf hlaðborð, og mikið spjallað og mikið hlegið, og alltaf voru síðustu orðin þín þegar við vorum að fara: farið varlega, elskurnar. Ég vil þakka þér hvað þú elskaðir hana Berglindi mína skilyrðislaust eins og hún væri þín eigin dóttir, þið voruð svo miklar vinkonur og það var svo fallegt að sjá brosið og glampann í augunum þínum þegar þú talaðir um hana og varst að segja mér frá prakkarastrikunum hennar, og takk fyrir elsku hjartans Írisi þína sem ég gæti ekki elskað meira þótt hún væri mín eigin dóttir. Elsku Rósa mín, ég skal gera mitt besta til að vera til staðar fyrir fjölskylduna þína sem þú elskaðir meira en allt í lífinu. Þín verður sárt saknað en við stöndum þétt saman og yljum okkur við minninguna um yndislegu hlýju konuna sem vildi allt fyrir alla gera. Þangað til næst, guð blessi minningu þína elsku vinkona.

Elsku Nonni, Matti, Beggi, Gugga og fjölskyldur, Íris, Berglind, Garðar, Hjörtur, Amalía og Snævar Jökull, við biðjum góðan guð að gefa ykkur styrk í ykkar miklu sorg.

Kveðja,

Sigrún og Vignir.