Árni Björgvinsson fæddist 10. mars 1930. Hann lést 18. desember 2024.
Árni var elstur fimm barna hjónanna Björgvins Bjarnasonar og Ingibjargar Árnadóttur. Hann sleit barnsskónum í Reykjavík, en þá bjuggu foreldrar hans á Skólavörðustígnum, og gekk í Miðbæjarskóla. Fjölskyldan fluttist síðar í Kópavoginn á upphafsárum byggðarlagsins og byggðu sér heimili við Hlíðarveginn.
Árni var lærður járnsmiður og starfaði um tíma hjá járnsmiðjunni Hamri, einnig stundaði hann sjómennsku um hríð, eða þar til að hann hóf störf hjá Vatnsveitu Kópavogs og fyrir bæjarfélagið sem verkstjóri allt þar til að hann lét af störfum vegna aldurs.
Hann kom að ýmsum fjölbreyttum verkefnum sem viðkomu bæjarfélaginu og þ.á m. að stofnun hestamannafélaganna „Gusts“ og „Spretts“ sem hann helgaði starfskrafta sína á uppbyggingaárum þeirra og var virkur félagi þar til hann seldi hesthúsið fyrr á þessu ári. Hestamennska átti alla tíð stóran þátt í lífi hans og fjölskyldunnar og átti hún þátt í að stofnað var ferðaþjónustufyrirtækið Íshestar.
Eiginkona Árna var Jenný B. Sigmundsóttir, d. 2024. Hann ættleiddi dætur hennar af fyrra hjónabandi, Soffíu M. og Sylvíu, og gekk þeim í föðurstað frá unga aldri, en fyrir átti hann dótturina Jónínu Ingibjörgu, sem nú er látin.
Árni og Jenný bjuggu alla sína búskapartíð í Kópavoginum, nú síðast í Boðaþingi 1 í göngufæri við hestana sína sem áttu hug þeirra og hjarta alla tíð. Eftir vaxandi heilsubrest flutti Árni á hjúkrunarheimilið við Boðaþing þar sem hann lést.
Útför hans fer fram í Kópavogavogskirkju í dag, 30. desember 2024, klukkan 13.
Kletturinn i lífi mínu er fallinn frá. Elsku pabbi minn sem kom inn í líf mitt þegar ég var níu ára. Stærsta gjöf sem mamma mín hefur gefið mér. Hann var einstakur maður og verður sárt saknað. Nú eru foreldrar mínir sameinaðir á ný en mamma féll frá fyrr á þessu ári. Árni var einstakur maður, traustur og tryggur og mikill húmoristi. Hann var hrókur alls fagnaðar á sinn rólega og yfirvegaða hátt.
Þó að Árni hafi ekki verið blóðfaðir minn var einstakt samband okkar á milli og fylgdi ég honum hvert fótmál.
Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég sá Árna föður minn í fyrsta skipti. Það var sunnudaginn 11. febrúar 1973. Ég sat eins og oft áður í stigaganginum að lita með vinkonu minni og upp skottaðist ungur maður í rauðköflóttum ullarjakka, dökkur yfirlitum, með blómvönd.
Kvöldið áður hafði mamma farið á árshátíð hjá Vikunni þar sem hún vann. Ég frétti það síðar að honum hefði verið boðið með af frænku sinni í þeim tilgangi að hitta mömmu. Þetta var eins og kallað er í dag „blind date“.
Þarna hófst þeirra samband og stuttu síðar fluttum við í Kópavog.
Okkur þótti alltaf vænt um þegar fólk sagði „það sést nú alveg hver á þessa“ – þá litum við alltaf hvort á annað og kímdum. Núna síðast á hjúkrunarheimilinu.
Hann var mikill lífskúnstner og hefði auðveldlega getað orðið listamaður. Hann sýndi það heldur betur þegar við fórum saman á silfursmíðanámskeið þegar hann var sjötugur. Þar smíðaði hann skartgripi úr gömlum silfurborðbúnaði eins og fagmaður.
Allar hestaferðirnar sem ég fór með honum.
Alla mína tíð vann hann hjá Kópavogsbæ og þar vann ég með honum mörg sumur.
Þegar kom að starfslokum hjá honum var hann með fulla starfsorku og hélt áfram að keyra um Kópavoginn sinn og ósjaldan kom hann við í vinnunni hjá mér þar sem ég vann sem smíðakennari. Þar tók hann meðal annars að sér að kenna nemendum mínum logsuðu og einnig að spjalla við þá um lífið og tilveruna. Þetta var faðir minn í hnotskurn; alltaf til í að aðstoða og gera góðverk.
Árni var einstakur maður sem ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið að fylgja. Allt sem hann hefur kennt mér og verið til staðar.
Börnunum mínum var hann einstakur afi.
Lát föður míns bar brátt að, við héldum alltaf að hann yrði eins og móðir hans sem lifði hátt á tíræðisaldur og var skörp og prjónaði teppi til að gefa bágstöddum fram á síðasta dag.
Þótt hugurinn hafi verið skarpur fylgdi líkaminn því miður ekki með og undir það síðasta var hann rúmliggjandi, sem var honum erfitt því fátt vissi hann skemmtilegra en að rúnta um Kópavog og heilsa upp á vini og þá sérstaklega í hesthúsunum.
Hann vissi vel hvað hann var mér mikils virði, ég sagði honum oft hvað ég væri þakklát fyrir hann og að hann hefði komið inn í mitt líf. Þegar hann vissi í hvað stefndi bað hann mig að vera ekki með neitt ofurhjal um hann.
Ég kveð föður minn með miklu þakklæti og virðingu. Minning hans lifir í gegnum börnin og barnabörnin sem elskuðu hann og dáðu.
Sylvía.
Elsku Árni, hvíldin eilífa kom aðeins of snöggt og of fljótt, en þú kveður sáttur og mettur þessa jarðvist. Það er ekki liðið ár síðan við kvöddum hana Jennýju þína og svo gengur þú eilífðarveginn til hennar núna.
Hann Árni gat virkað hrjúfur svona út á við og margir voru smeykir við röddina þegar hann svararði í símann í gamla daga og spurðu eftir Syllu. Hann var hins vegar hinn allra ljúfasti og besti maður sem hægt var að hugsa sér, með góðan húmor og hjartað svo sannarlega á réttum stað. Það var líka einstaklega gott að spyrja hann ráða um allt milli himins og jarðar enda var hann Árni bara svo ótrúlega fróður um margt. Á menntaskólaárum mínum varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vinna í bæjarvinnunni í Kópavogi með Árna sem verkstjóra. Þá bjó ég í Fossvoginum og hjólaði ég á hverjum morgni yfir í Reynigrundina þar sem Árni tók á móti mér og vinnudagurinn hófst í malbikinu. Hann var samt algjörlega með það á hreinu og gerði mér ljóst að ef ég kæmi of seint þá myndi hann ekki bíða eftir mér og ég fengi engar sérmeðferðir þó ég væri vinkona Syllu. Það var alveg meiri háttar að fá að vinna með Árna á þessum tíma. Hvað hann var yndislega góður við þær systurnar og gekk þeim í föðurstað eins og ekkert væri eðlilegra en gat örugglega verið erfitt á stundum. Við Silla vorum algjörar samlokur á okkar unglingsárum og var ég ávallt velkomin til þeirra Árna og Jennýjar í Reynigrundina. Oftar en ekki fékk ég að gista og njóta svo sunnudagssteikarinnar sem þau hjón sáu um en Árni átti þó meira í eldamennskunni. Þau Árni og Jenný voru svo fallega samhent í svo mörgu, þau voru í hestamennsku og nutu sín þar saman og fengum við oft að bregða okkur á bak hér á árum áður.
Erfið veikindi settu svip sinn á fjölskylduna síðustu árin en nú tekur Jenný á móti Árna og dansa þau inn í eilífðina saman.
Elsku Sylla, Mitzy, Davíð og börn, ykkar missir er mikill á árinu. Ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur og góðar minningar ylja alltaf á erfiðum stundum.
Ýr
Ýr Gunnlaugsdóttir
Árin eru fimm síðan mér lánaðist að næla í hana Sylvíu, dóttur Árna. Ekki fylgdu einungis vel gerð uppkomin börn, en líka tengdaforeldrar sem tóku þessum aðkomumanni vel. Þrátt fyrir stopula viðkomu fyrstu misserin átti ég góð viðkynni við þau sæmdarhjón Árna og Jennýju. Snemma kom í ljós að Árni sem verkstjóri hjá Kópavogsbæ hafði unnið með bróður mínum og höfðu þeir frá upphafi átt gott og farsælt samstarf, enda harðduglegir báðir og fylgnir sér. Þar með fékk ég forskot á það traust og þá vináttu sem hann sýndi mér þau ár sem við þekktumst. Við tengdapabbi áttum oft löng samtöl um uppeldisár hans og störf á vinnumarkaði. Árni lærði járnsmíði hjá Hamri og vann þar langan vinnudag. En það dugði ekki þeim metnaði sem hann bjó yfir og því tók hann að sér alls kyns verkefni við járnsmíðar sem sjálfstætt starfandi og einnig vann hann meðal annars við uppsetningu síldarverksmiðju á Seyðisfirði. Seinna meir var Árni ráðinn sem verkstjóri hjá Kópavogsbæ og var einn af þeim sem lyftu grettistaki við uppbyggingu bæjarins, í nánu samstarfi við starfsfólk og æðstu stjórnendur. Hann var vel liðinn af sínu samstarfsfólki og verktakar sem hann réði til starfa bera honum sérstaklega vel söguna og héldu sambandi við hann fram á síðasta dag.
Árni og Jenný voru með hesta í áratugi, fyrst í Gusti og seinna meir í Spretti, þar sem þau byggðu stórt og veglegt hesthús. Þau voru einnig með hesta sína í góðu beitarhólfi, yfir sumartímann, við fjölskyldubústaðinn á Flúðum þar sem þau og fjölskyldan áttu margar góðar stundir.
Er við kynntumst voru þau hjón með hesta í Spretti og þangað fór Árni oft á dag að sinna hrossum og taka stöðuna. Smám saman þvarr þrek og þrátt fyrir góða aðstoð Sylvíu og annarra ættingja, þá kom að því að bregða þurfti búi. Þær Sylvía og Soffía og þeirra börn sinntu Árna og Jennýju vel og fóru óteljandi stundir, oft dag sem nótt, í það að hlúa að og bregðast við.
Að leiðarlokum hvarflar hugurinn að því láni að hafa kynnst þeim hugljúfa og vitra manni sem Árni geymdi, hvergi var komið að tómum kofunum og frásagnargáfan hélt athyglinni vakandi. Ég segi að lokum eins og Árni sagði svo oft sjálfur; þakka þér fyrir vinur.
Sigurður Blöndal.