Skák
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Magnús Carlsen virtist ekki með sjálfum sér á fyrsta degi heimsmeistamótsins í atskák sem hófst í New York sl. fimmtudag. Um svipað leyti í fyrra hafði hann orðið heimsmeistari í báðum keppnisgreinum; í atskákinni þar sem tímamörkin eru 15:5 og í hraðskákinni með tímamörkunum 3:2. Keppnisdagarnir fimm fram undan og NRK, norska sjónvarpsstöðin, var sem endranær mætt á vettvang til að sýna allar skákir Magnúsar frá báðum mótum í beinni útsendingu. En þarna í víðáttumiklum sölum glæsilegrar byggingar við 55 Wall Street, sem áður hýsti verðbréfamarkaðinn í New York og ýmsar aðrar fjármálstofnanir, var Magnús alls ekki að ná sér á strik. Yfirburðastöður sem hann hefði alla jafna klárað auðveldlega runnu honum úr greipum. Niðurstaða fyrsta dags 2½ vinningur af fimm mögulegum og titilvörn harla ólíkleg en þó átta umferðir eftir. Leiðin yfir hafið frá Noregi til New York er löng og kannski var að hrjá hann þessi fyrirsjáanlega truflun á dægursveiflu líkamans þegar flogið er þvert á tímabelti.
Á öðrum keppnisdegi var hann greinilega betur fyrirkallaður og eftir átta umferðir var hann með fimm vinninga af átta mögulegum, 1½ vinningi á eftir efstu mönnum. Enn var sigurvon. Þá fór af stað atburðarás sem setti þetta skemmtilega mót í allt annað samhengi en til var ætlast. Þar sem stórstjarna skákarinnar og margfaldur heimsmeistari sinnti ekki tilmælum í miðju móti um að skipta út gallabuxum sínum fyrir brækur úr öðru efni var hann ekki paraður í 9. umferð mótsins og fékk því bókað núll. Vísað var til þess að í keppnisreglum mætti finna ákvæði m.a. um klæðaburð og skófatnað. Hann gekk út og tilkynnti að hann væri hættur keppni en var greinilega brugðið er hann mætti í viðtal hjá NRK en kvaðst vera kominn í stríð við Alþjóðaskáksambandið og þátttöku hans í viðburðum á vegum þess væri lokið. „Ég er þreyttur á FIDE og vil ekkert með þá hafa. En mér þykir þetta leiðinlegt gagnvart öllum heima í Noregi, kannski er þetta heimskulegt prinsipp hjá mér en leikgleðin var farin,“ sagði hann.
„Þetta snýst ekki um gallabuxur,“ sagði Hans Niemann þegar fyrir lá að Magnús væri hættur keppni. Nýrri mótaröð Magnúsar í grein sem hann kallar „freestyle chess“ en er ekkert annað en „Fischer random“ var hleypt af stokkunum nýlega en mætti miklum þvergirðingshætti hjá FIDE. Þó töldu sumir að FCPC (Freestyle Chess Players Club) og FIDE hefðu náð saman en það var greinilega veikur þráður sem nú hefur slitnað.
FIDE, rússneska áhrifasvæðið og Fischer
Allar stærstu fréttaveitur heims hafa sagt ítarlega frá þessari atburðarás. FIDE brást við með því að senda út yfirlýsingu sem var eins og vænta mátti fremur þunnur þrettándi. Viswanathan Anand, fyrrverandi heimsmeistari og nú einn af varaforsetum FIDE, varði gjörðir mótsstjórnar í New York. Anand, sem tapaði tveimur heimsmeistaraeinvígjum fyrir Magnúsi Carlsen, árin 2013 og 2014, er talinn hófsmaður til orðs og æðis en fyrir liggur að Indverjar teljast til vinaþjóða Rússa. Sú staðreynd að forseti FIDE, Rússinn Arkady Dvorkovich, þiggur í reynd umboð sitt frá stjórnvöldum í Kreml setur hömlur á möguleika skákarinnar til frekari útbreiðslu á heimsvísu. Rússneskir skákmenn geta ekki teflt undir fána Rússlands og landslið þeirra geta ekki tekið þátt í alþjóðlegum flokkakeppnum á borð við ólympíumót. Þó eru fjölmargir rússneskir skákmenn meðal þátttakenda í New York en tefla þar undir merkjum FIDE.
Á samfélagsmiðlum hefur verið þrástagast á því að Magnús hafi líka hætt keppni þegar hann tefldi á skákhátíðinni í St. Louis 2022 og tapaði þá fyrir ungum skákmanni, Hans Niemann. Ásakanir Magnúsar um svindl vöktu heimsathygli en málið var síðar til lykta leitt utan dómstóla þegar sættir náðust. Sú staðreynd að Magnús afsalaði sér heimsmeistaratitlinum, líkt og Bobby Fischer gerði fyrir tæplega 50 árum, að viðbættri þessari uppákomu í New York, hefur kallað á samanburð við atvik á ferli Bandaríkjamannsins. Flestum sem til þekkja ber saman um að þessir séu eins ólíkir og hugsast getur.
Rússneskir skákmenn í þremur efstu sætum
Úrslit atskákmótsins sem lauk seint á laugardagskvöld komu verulega á óvart. Sigurvegari varð 18 ára gamall Rússi, Volodar Murzin, hlaut 10 vinninga af 13 mögulegum og í 2.-3. sæti urðu landar hans Alexander Grischuk og Jan Nepomniachtchi með 9½ v.
Helgi Áss Grétarsson var eini fulltrúi Íslands á mótinu. Hann byrjaði illa en náði sér vel á strik síðustu tvo keppnisdagana, hlaut 5½ vinning og varð í 140. sæti af 180 keppendum.
Í kvennaflokknum varð sigurvegari indverska skákkonan Humpey Koneru.
Hraðskákhluti heimsmeistaramótsins, 13 umferðir, fer fram í dag og lýkur seint í kvöld.
Höfundur er skákmeistari.