Valkyrja Eðlilegt er að konur skipi áberandi stöður í samfélaginu. Sú staðreynd er ekki endilega ávísun á aukið jafnrétti og hún jafnvel notuð til að letja okkur í baráttunni, segir Tatjana Latinovic hér í viðtalinu.
Valkyrja Eðlilegt er að konur skipi áberandi stöður í samfélaginu. Sú staðreynd er ekki endilega ávísun á aukið jafnrétti og hún jafnvel notuð til að letja okkur í baráttunni, segir Tatjana Latinovic hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls 47 samtök femínista, kvenna, launafólks og fatlaðs og hinsegin fólks standa að Kvennaári 2025 sem tileinkað er janfréttismálum í breiðri merkingu. Mikið er undir og margt verður gert af þessu tilefni

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Alls 47 samtök femínista, kvenna, launafólks og fatlaðs og hinsegin fólks standa að Kvennaári 2025 sem tileinkað er janfréttismálum í breiðri merkingu. Mikið er undir og margt verður gert af þessu tilefni. Kvennaárið sjálft er bundið við Ísland en horft verður yfir heiminn í vissum atriðum. „Allt sem við gerum á Íslandi hefur áhrif á jafnréttisbaráttu í öðrum löndum og vekur athygli langt fyrir utan landsteinana. Við veitum heiminum innblástur með stöðunni hér á landi. Líka því að jafnrétti kynja hefur enn ekki verið náð á Íslandi sem stendur þó framarlega á ýmsum sviðum. Enn þá er mikið verk að vinna. Við megum aldrei sofna á verðinum,“ segir Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Krafna sér stað í stjórnarsáttmálanum

Hópurinn sem að Kvennaári 2025 stendur lagði á haustdögum fram kröfur til stjórnvalda sem voru afhentar forystumönnum stjórnmálaflokka í aðdraganda alþingiskosninga. Þess er krafist að gripið verði til aðgerða til að tryggja fullt og endanlegt jafnrétti kynjanna og því lokið 24. október 2025. Markið er sett hátt og ekkert gefið eftir.

„Mér sýnist leiðtogar stjórnmálaflokkanna hafa verið með kröfur Kvennaárs til hliðsjónar þegar stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar var skrifaður, sem er gleðilegt. En við munum svo sannarlega taka samtalið við nýkjörið þing og halda vitundarvakningunni og baráttunni áfram,“ segir Tatjana.

Kvennastörf eru vanmetin

Vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti, ólaunuð vinna kvenna og umönnunarábyrgð. Þetta eru mál sem verða í deiglu á þeim baráttutímum sem eru fram undan. Þessu þarf að koma betur inn á radarinn undirstrikar Tatjana. Hún bendir jafnframt á að þótt ágætur árangur hafi náðst, svo sem í launamálum, þá sitji ekki allar konur við sama borð þegar kemur að árangri og lausnum.

„Vinnumarkaðurinn á Íslandi er mjög kynjaskiptur. Konur sem tilheyra minnihlutahópum eiga oftar en ekki erfiðara með að sækja réttindi sín og fá sanngjörn laun fyrir sín störf. Til að útrýma þessu óréttlætti þarf að leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum. Rannsóknir sýna að konur þurfa oftar að minnka við sig launaða vinnu til að sinna ólaunuðum verkefnum svo sem við umönnun barna og þeirra sem veikt standa. Þetta er stórt vandamál sem bitnar verr á tekjum, tækifærum og lífeyrisréttindum mæðra en feðra. Lögfesta þarf rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi og afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi. Einnig að tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun.“

Ofbeldið er falið

Kynbundið ofbeldi er mikið vandamál, en þó falið að mörgu leyti. Þar vekur Tatjana athygli á því að um 40% kvenna verði fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Þá séu börn og unglingar útsettari fyrir ofbeldi í gegnum netheima núna en áður.

„Við eigum ekki að sætta okkur við svona tölur. Engin manneskja ætti að búa á vígvelli, sem sum heimili svo sannarlega eru. En sem betur fer eykst meðvitund um kynbundið ofbeldi; þökk sé vinnu baráttufólks og hreyfingum eins og #metoo og fleirum. Þó sýna nýlegar fréttir af dómsmálum að stjórnvöld þurfa að taka sig verulega á. Nýlegir dómar vitna um að heimilisofbeldi sé ekki litið jafn alvarlegum augum og annað ofbeldi. Einnig að fatlaðar konur séu sérstaklega berskjaldaðar, ekki bara á heimilum sínum heldur líka á vinnustöðum og víðar. Svo sannarlega þarf að styrkja lagaumhverfi en líka auka þekkingu á eðli kynbundins ofbeldis og afleiðingum þess meðal ákærenda, lögregluþjóna og ýmissa annara.“

Öll mál og staðreyndir má nálgast frá mörgum hliðum og draga ályktanir út og suður. Tiltaka má þarna að forseti Íslands er kona, þríeykið í forystu nýrrar ríkisstjórnar er skipað konum sem jafnframt eru tæplega helmingur fulltrúa á Alþingi. Biskup Íslands er kona, bæjarstjórar í mörgum af stærri sveitarfélögum landsins og svo mætti lengi telja.

Mikið bakslag

„Sannarlega er gleðilegt og ekkert nema eðlilegt að konur skipi áberandi stöður í samfélaginu. Sú staðreynd er ekki endilega ávísun á aukið jafnrétti og hún jafnvel notuð til að letja okkur í jafnréttisbaráttu. Að sumar konur skuli hafa náð að brjótast í gegnum glerþakið er ekki sönnun þess að jafnréttinu hafi verið náð, eins og margir halda fram. Jafnréttismál eru ekki bara kvennamál og konur eiga ekki einar að bera ábyrgð á þeim,“ segir Tatjana og að síðustu:

„Þrátt fyrir þrotlausa vinnu lifum við mikið bakslag í jafnréttismálum. Einu má gilda hvaða árangri og áföngum er náð: allt sem er í höfn þarf að þróa áfram á þá lund að slíkt tryggi jafnrétti allra hópa í samfélaginu. Líka þeirra sem búa við fjölþætta mismunun. Jafnréttinu verður aldrei náð nema við öll sem búum hér á landi njótum góðs af baráttunni og þeim árangri sem sannarlega hefur náðst.“

Hver er hún?

Tatjana Latinovic er frá Króatíu, fædd árið 1967 og hefur verið búsett á Íslandi í 30 ár.

Hún er formaður Kvenréttindafélags Íslands og hefur verið virk í jafnréttisbaráttunni í rúm 20 ár. Var meðal annars einn af stofnendum Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

Hún hefur verið formaður innflytjendaráðs og setið í ýmsum stjórnum og nefndum tengdum jafnréttismálum og nýsköpun.

Tatjana er yfirmaður hugverkadeildar hjá Emblu Medical, sem þar til nýlega hét Össur hf.