Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Fínu veðri er spáð um áramótin og fyrirtaksveðri til að bregða sér af bæ. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við Morgunblaðið. Það liggur fyrir að það verður kalt að sögn Einars, víða 5 til 10 stiga frost og jafnvel meira inn til landsins. Einnig verður bjart og sjá mun til tungls og stjarna um mestallt land. Einna helst verður eitthvað um él á Norðausturlandi, við ströndina frá Húsavík og austur á Vopnafjörð, en allt minniháttar, segir Einar.
Helsta óvissan er með vindinn. Hvort verði stafalogn eða einhver gola. Gera má ráð fyrir hægum vindi að mestu á landinu en að sums staðar nái að verða smágjóla. Á Suðausturlandi verði strekkingsvindur sem og með norðausturströndinni.
Suðvestanlands verður að líkindum hæg austanátt eða landvindur að sögn Einars. „Þegar er svona kalt eins og spáð er getur stundum myndast hitahvarf við jörð og nánast alveg logn en það getur líka verið smágola og það munar svolítið miklu. Við verstu aðstæður þegar svona er leggst reykurinn yfir allt saman eins og það sé lok uppi í einhverri 50 eða 100 metra hæð,“ segir Einar. Yfirleitt í svona kulda lekur loftið ofan af Hellisheiðinni og yfir höfuðborgarsvæðið að sögn Einars, sem segir þó alltaf smá hreyfingu á því þótt hún sé lítil. „Helst viljum við fá smáhreyfingu á loftið.“
Einar segir þá spennandi að sjá hvað verður með köldu Grænlandslægðina sem stefnir að Vesturlandi í nótt og í fyrramálið, hvort það komi til með að snjóa úr henni og hvort snjókoman verði bundin við Snæfellsnes og Vestfirði eða hvort hún komi til með að ná til Suðvesturlands einnig.