María Rut Kristinsdóttir
María Rut Kristinsdóttir
Það er eitthvað við áramótin sem núllstillir okkur. Þau marka á sinn einstaka hátt lok eins tímabils og upphaf annars. Þar sem við kveðjum gamla árið með öllum þeim ótal stundum sem því fylgdu. Sum ár eru þannig í lífshlaupinu að þau verða brennimerkt í huganum um aldur og ævi

Það er eitthvað við áramótin sem núllstillir okkur. Þau marka á sinn einstaka hátt lok eins tímabils og upphaf annars. Þar sem við kveðjum gamla árið með öllum þeim ótal stundum sem því fylgdu.

Sum ár eru þannig í lífshlaupinu að þau verða brennimerkt í huganum um aldur og ævi. Oft vegna djúpstæðra gleði- eða sorgarstunda, áfalla eða áskorana. En önnur ár líða nokkuð ljúflega hjá – stútfull af stundum hversdagsins. Það eru uppáhaldsárin mín. Ár sem einkennast allra helst af fyrsta sopanum af rjúkandi bolla morgunsins, litlum höndum í lófa á leið í ískaldan bílinn, spjallstundum við kaffivélina í vinnunni, að ætla alltaf að útbúa matarplan fyrir næstu viku (en gera það aldrei), góðum hlátursköstum, að setja þvottavélina aftur af stað, horfa í augun á þeim sem þú elskar og sofna yfir sjónvarpinu.

Við tökum oft ekki eftir þessum hversdagslegu hlutum. Við rifjum þá kannski ekki oft upp sem hápunkta – eða lágpunkta – ársins. En þegar allt kemur til alls er lífið ekkert annað en summa ólíkra augnablika. Sem samanlagt verða að lífsreynslu okkar allra. Það eru líka einföldu hlutirnir sem segja sína sögu.

Ég hef reynt að temja mér að njóta litlu augnablikanna í lífinu. Staldra við og horfa í kringum mig. Á fólkið mitt og umhverfi mitt. Reyna eftir fremsta megni að hægja á mér. Minnka áreitið. Njóta meira. Fimm ára sonur minn sem er með eina stillingu – hægt – hefur kennt mér að hægja á. Dóttir mín sem er með eina stillingu – hratt – hefur einnig kennt mér að hægja á. Vera ekki alltaf að flýta mér.

Í nútímaheimi snjallvæðingar, áreitis og asa er ekki síst mikilvægt að hafa þetta í huga. Að huga að þessu venjulega. Hversdagslega. Við erum flest föst í ólíkum bergmálshellum, þar sem við skiptumst ekki endilega á skoðunum, rökræðum ekki eða skeggræðum.

Við erum mötuð af algrímum þessa heims sem getur grafið undan gagnrýnni hugsun og sjálfu lýðræðinu. Ég hef töluverðar áhyggjur af þessari þróun. Þar sem atburðir í efsta stigi eru nauðsynlegir til að ná í gegnum bergmálshellana. Líðan ungs fólks er sérstakt áhyggjuefni. Einmanaleiki, kvíði, depurð, tilgangsleysi. Má vera að ákveðin bjögun í hugmyndaheimi um árangur, hamingju, ást, gleði og velgengni sé að eiga sér stað fyrir framan nefið á okkur? Nýtt ár býður upp á tækifæri til að byrja upp á nýtt. Núllstilla sig.

Ég vona að árið 2025 verði ár hversdagsleikans fyrir ykkur flest.

Gleðilega núllstillingu!

Höfundur er þingmaður Viðreisnar. mariarut@althingi.is

Höf.: María Rut Kristinsdóttir