Sæbjörg Ingigerður Richardsdóttir (Didda) fæddist 3. ágúst 1962. Hún lést 8. desember 2024. Útför hennar fór fram 30. desember 2024.

Vegna mistaka með undirskrift á grein Svövu sem birtist í Morgunblaðinu 30. desember er sú grein birt hér aftur. Blaðið biðst velvirðingar á mistökunum.

Í dag kveðjum við Sæbjörgu eða Diddu eins og hún var kölluð af okkur samstarfsfólki. Didda var einstök persóna og gull af manni. Hún var allt í senn húmoristi, náttúruunnandi, fagurkeri, öðlingur, réttsýn, örlát og síðast en ekki síst eiginkona, móðir, tengdamóðir, systir og frænka. Það er ekkert sem hún veigraði sér við að gera. Grilla nokkur lambalæri við fjallaskála, fara í sumarbústaði bankans á vorin að þrífa og dytta að, jólahlaðborð fjölskyldunnar þar sem Didda sá um allan undirbúning frá grunni, afmæli, Pálínuboð, alltaf var Didda tilbúin að leggja til hvort sem það voru marengstertur eða annað.

Didda var líka yfirveguð, þolinmóð og með góða nærveru. Hún var aldrei óðamála heldur talaði rólega og gat laumað frá sér hinum svörtustu og fyndnustu bröndurum án þess að blikka auga.

Á öskudaginn sló Didda stundum í gegn í búningavali. Allir muna t.d. enn eftir Bibbu á Brávallagötunni. Þá mætti okkar kona í vinnuna í bleika baðsloppnum með sturtuhettu, varalit og gervikokteil og var í karakter allan daginn. Bibba var dálítið tipsý og málglöð og spurði t.d. mann og annan í matsalnum hvar sundlaugin væri eiginlega á þessu hóteli. Við erum mörg búin að hlæja í gegnum tárin að þessari minningu síðustu daga.

Didda var nú ekki til í að vera neitt „súkkulaði“ þó hún væri farin að veikjast og gæti kannski ekki gert allt af sama krafti og áður. Hún vildi t.d. endilega bjóða okkur öllum heim til sín á Langholtsveginn en leyfði okkur þó náðarsamlegast (eftir smá samningaviðræður) að panta mat frá Grillvagninum í stað þess að elda hann sjálf frá grunni. Matnum fylgdi týpískt mötuneytisleirtau sem veitingaþjónustan lánaði út og tók við skítugu að matarboði loknu en Didda tók það ekki í mál, það var ekki nógu huggulegt. Hún lagði því sitt eigið stell fallega á borð fyrir allan hópinn og auðvitað hafði hún rétt fyrir sér að það var mikið notalegra.

Didda sat sjaldnast auðum höndum og var dugleg að gera eitthvað skemmtilegt enda átti hún mörg áhugamál. Hún lærði t.d. flotþerapíu og var með flotmeðferðir, fór á gönguskíði, fór í jeppaferðir og mótorhjólaferðir, fór að veiða og var með byssuleyfi, fór í ófáar stikuferðir 4x4, safnaði fræjum í Þjórsárdal til að græða landið, fór í útilegur og naut þess að vera úti í náttúrunni, sitja í svefnpoka með bók og rauðvín eða vaða læki og ár.

Didda fór yfirleitt sínar eigin leiðir og gerði hlutina aðeins öðruvísi en aðrir. Hrísgrjónagraut eldaði hún t.d. að mestu leyti uppi í rúmi en hún vafði heitum grautarpottinum inn í sængina sína og leyfði grautnum að malla þar þar til hann var tilbúinn. Þetta dæmi og svo miklu fleiri eru hluti af því sem gerði hana að einstökum, skemmtilegum og litríkum karakter sem við eigum öll eftir að sakna.

Elsku Óli, Magnús, Rikki og Laura-Ann, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd vina og samstarfsfólks í Útlánum Arion banka,

Helga Þóra, Jóhanna Gyða og Kristín Björk.

Að skrifa minningarorð um jafn einstaka og frábæra manneskju eins og Sæbjörgu, Diddu, ætti að vera létt verk en þegar minningarnar koma upp í hugann er erfitt að koma þeim öllum á blað. Didda var frábær samstarfskona, stutt í húmorinn, vinnusöm, jákvæð, lausnamiðuð og góður félagi. Hjá henni kom maður aldrei að tómum kofunum, hvort sem um var að ræða málefni vinnunnar, félagsstarfsins eða heimsmálin.

Eins og gerist á vinnustöðum er margt brallað og gert til að brjóta upp dagana. Þar var Didda ávallt mikill þátttakandi. Hvaða þema sem lagt var út af var alltaf forvitnilegt hvað kæmi í púkkið frá Diddu. Minnist ég sérstaklega smurða brauðsins og þótti henni ekki tiltökumál ef veitingarnar áttu að vera í einhverjum þemalit.

Didda var mikill þátttakandi í starfi orlofshúsanefndar. Var hún þar hamhleypa til verka og áttum við góðar stundir í orlofshúsunum. Fyrir hönd orlofshúsanefndar starfsmannafélagsins Skjaldar vil ég þakka fyrir þitt framlag.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þin.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Fjölskyldu Diddu sendum við hlýjar samúðarkveðjur. Guð varðveiti minningu góðrar samstarfskonu.

Svava Halldóra Friðgeirsdóttir.