Óskar Árni Hilmarsson fæddist 17. ágúst 1960. Hann lést 6. desember 2024.
Útför Óskars fór fram 17. desember 2024.
Við kvöddum þig elsku pabbi á fallegasta, snjóhvíta og heiðskíra vetrardegi.
Þú skalt vita að það ert þú sem hefur kennt mér hvað mest í lífinu.
Þú elskaðir okkur svo mikið að því er ekki hægt að lýsa með orðum. Þú hefur alltaf séð til þess að við systur séum í öruggum höndum og fáum allt það besta.
Þú varst alltaf sá sem sagði já! Hvort sem það var að við mættum leika bara örlítið lengur á kvöldin eða sofa í þínu rúmi. Og þegar við systur vorum orðnar fullorðnar þá sagðir þú ennþá alltaf já við okkur. Ég ætla að hugsa um þig þegar ég lendi í því sama með mín börn og segja oftar bara já, það er oft bara það sem þau vantar.
Ég ætla líka að halda áfram að ferðast með fjölskylduna mína út um allt, fjöll og firnindi og finna ný ævintýri í hvert skipti, því það gafst þú okkur og fyrir það er ég ævinlega þakklát.
Ég er líka viss um að þú ert lúmskt þakklátur fyrir það að við systur áttum svona mörg börn því þá hafðir þú bestu afsökunina til þess að halda stöðugt áfram að stækka bústaðinn svo allir kæmust fyrir. Þú veist líka núna að hann er í góðum höndum.
Öll barnabörnin þín eru svo heppin að hafa fengið þennan tíma með þér. Nærveran frá þér þegar þú sast með þeim einn á gólfinu á meðan allir aðrir fullorðnir ræddu fullorðinsmál. Og ekki má sleppa því að nefna þær vinnustundir í ýmsum störfum uppi í sumó á sumrin. Þau tala ekki um annað þessa dagana en alla vinnuna sem þau hafa brasað með þér á sláttutraktornum, fjórhjólinu, við bátasmíði, kofasmíði og við stíflugerð. Við lofum að tala um það oft og mikið og halda öllum minningum þeirra lifandi.
Það var svo gott að fá að vera með þér extra mikið í síðustu heimsókn til Íslands og tala extra mikið við þig í símann síðustu dagana.
Ég náði aldrei að sýna þér nýja grillið sem ég og Frosti settum saman, en ég veit að þú sérð það núna og um leið og við komum heim verður grillað þér til heiðurs.
Elsku pabbi, þú kenndir mér að ég gæti gert allt, og að ég ætti aldrei að efast um það. Ég veit að þú ert oft stoltur af mér út af einföldustu hlutum og þú veist innst inni að akkúrat þess vegna er ég dóttir þín. Það er ekkert verkefni sem getur stoppað mig, því þú kenndir mér.
Takk fyrir að þú barðist svona hart síðustu ár, fyrir okkur, fjölskylduna og öll barnabörnin þín. Elsku pabbi, lífið er svo óréttlátt, en við höldum áfram með þig vakandi yfir okkur og ég lofa að passa upp á mömmu.
Ég elska þig.
Íris Rós Óskarsdóttir.
Sæll kæri bróðir.
Það er ekkert bilað og mig vantar ekkert, vildi bara heyra í þér. Ég náði ekki að spjalla við þig þarna á föstudaginn 6. desember þegar við hittumst og þú kvaddir um kvöldið. Þú varst þá upptekinn við að undirbúa ferð allra ferða. Þessa ferð förum við öll og virðist hún ávallt koma okkur jafn mikið á óvart. Yfirleitt erum við ekki undir hana búin þegar að brottfarardegi kemur. Sérstaklega við hin sem heima sitjum og erum ekki að ferðast þann dag. Eflaust varst þú klár og feginn að komast í frí.
Mig langaði bara að láta þig vita um svo margt sem ég sagði aldrei en hugsaði bara. Hversu vænt mér þykir um þig og sárt ég sakna þín. Hvort sem ég var smábarn í Kópavoginum eða unglingur í Garðahreppi þá varst þú alltaf til taks og passaðir upp á litla bróðir. Man svo vel eftir fyrstu árunum mínum í Flataskóla á áttunda áratuginum. Ég gat gengið um bísperrtur og óhræddur við allt og alla þar sem ég átti þig að, stóra bróður í sama skóla, sem var alltaf til taks ef einhverjir voru að amast við mér. „Þetta er bróðir minn“ sagði ég stoltur og benti á þig þar sem þú þeystir um á á 50cc Suzuki-skellinöðrunni eins og greifi.
Manstu svo eftir „bardögunum“ milli hverfanna í Garðahreppi. Þar skiptust menn í fylkingar eftir því hvort maður bjó á Flötunum eða í Lundunum. Mér fannst ég alltaf vera svo öruggur þar sem þú varst í mínu liði og minn stóri bróðir. Þetta voru svo sem engir alvöru bardagar, meira svona við krakkarnir að derra okkur eitthvað og engir meiddir þó að menn hafi verið teknir „til fanga“ eins og í kúrekamyndunum.
Síðan kom að því að vera sendur norður í sveitina að Hlöðum í Hörgárdal. Þú fórst fyrst og þótti mér það súrt að fá ekki að fara með þér. Fékk þó svo í kjölfarið að fara líka. Það voru mikil forréttindi að fá að fara í sveit og mikið gaman, með öllum þeim her frændsystkina sem þar bjuggu.
Meðan ég man, þá skulda ég þér enn fyrir viðgerðinni á bílnum þínum sem ég fékk lánaðan viku eftir að ég fékk bílprófið og bakkaði alveg óvart á ljósastaur. Veit ekki hvað þessi staur var að gera þarna. Ég man að þú varst smá fúll, í ca. klukkustund. Þú verður bara að eiga það inni hjá mér þar til við hittumst næst.
En bróðir, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og okkar fjölskyldu. Þú varst alltaf boðinn og búinn, hvenær sem var, til að koma til að græja og gera eða lána mér tól og tæki ef eitthvað vantaði. Og rétt fyrir brottfarardag varst þú að gefa mér ráðleggingar og leiðbeiningar um hitastýringar á ofnum. Fyrir þér voru engin vandamál, bara lausnir. Hjálpsemi þin var óendaleg og orðstír lifir að eilífu
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Ég veit að áfangastaður þinn er bjartur og hlýr. Þar væsir ekki um neinn, þar eru engir sjúkir, þar er enginn ófriður, þar er ekkert ves. Þar ertu væntanlega búinn að hitta fullt af vinum og ættingjum og bið ég að heilsa þeim öllum.
Þinn litli bróðir,
Emil.