Jónína Axelsdóttir fæddist 13. ágúst 1930. Hún lést 13. desember 2024.
Útför hennar fór fram í kyrrþey.
Það er margt sem hægt væri að segja um ömmu Jonnu heitna. Jónína eða amma Jonna eins og hún var ætíð kölluð var einstaklega hlý, fyndin og góð kona. Dyrnar hjá ömmu Jonnu voru ávallt opnar, hún sá alltaf til þess að allir fengju nóg að borða og liði vel hjá henni. Hún var einnig afar gjafmild og vildi alltaf gera allt fyrir mann.
Amma Jonna var virkilega jákvæð og hafði ávallt óbilandi trú á okkur barnabörnunum, að við gætum allt sem við vildum. Maður fór út frá ömmu með tvöfalt meira sjálfstraust en maður kom með til hennar. Hjá ömmu Jonnu mátti allt, eða að minnsta kosti flest. Hvort sem það var að rífa alla pottana úr pottaskápnum og fylla þá af moldugum kartöflum eða nota fínu Kitchen Aid-hrærivélina sem hest. Konráð barnabarn Jonnu ákvað einu sinni í miðjum leik með pottana og kartöflurnar að troða þó nokkrum kartöflum bak við ofninn í eldhúsinu. Síðar þegar kólna fór í íbúðinni gaus upp þessi dýrindis bökunarlykt af kartöflunum en það sló Jonnu ekki út af laginu, áfram var leikið með pottana og kartöflurnar.
Hún amma var afar minnug alveg fram á hinsta dag, klár og fylgdist bæði vel með sínu fólki sem og fréttum. Hún var afar hæfileikarík kona, t.d. góður bakari, handverkskona og söngkona.
Amma var sterk og ákveðin kona, hún hafði sterkar skoðanir á ýmsu hlutum, hún stóð með þeim og var ævinlega samkvæm sjálfri sér. Eitt af mörgu sem amma kenndi okkur var að hafa trú á okkur sjálfum og standa með okkur. Ömmu Jonnu verður sárt saknað af okkur barnabörnunum sem og langömmubörnunum. Minningar okkar um hana og hlýju hennar verða með okkur að eilífu þar til við sjáumst næst.
Katrín Þórhallsdóttir og Konráð Þór Þórhallsson.