Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Við höfum spennt greipar og þakkað Guði innra með okkur – í hljóðlátu andvarpi.

Gunnar Björnsson

Við áramót fannst mörgum þau stíga yfir markalínu og það helgast af þeirri uppfinningu manna að skrifa nýtt ártal á 12 mánaða fresti, þótt vel mætti hugsa sér að hafa þetta öðruvísi, eins og hlýtur að hafa verið til forna, því okkur er sagt, að Abraham ættfaðir hafi orðið 930 ára, svo að þá hafa menn trúlega haft áramót á eins mánaðar fresti, sem mundi vísast verða ögn þreytandi hjá okkur, því óneitanlega fer talsverð orka í hátíðahald og alltaf gott að fá blessaða rúmhelgina aftur og svona er nú lífið dásamlegt; fyrst hlökkum við til jólanna, og svo til áramótanna og loks hlökkum við til þess að bjóða hversdagsleikann velkominn með sínu daglega amstri, en bændur eru svo heppnir að þeir eiga ekki frí á hátíðum og í því er ótrúlega mikil geðvernd

fólgin; kúabændur vita, að þeir eru ekki að fara neitt.

Kannski eru merkilegustu tímamótin morgunninn sjálfur, sem alltaf er nýr á

hverjum degi, blessuð dagsbirtan, sem augu okkar fá að líta þegar við

vöknum af nætursvefninum, það er ekkert minna en kraftaverk að alltaf skuli koma nýr dagur eftir nóttina, dagur sem segir sjáðu hvað ég er nýr og ósnortinn með allar klukkustundirnar, sem ég ber í skauti, og nú máttu ganga að verki þínu og þú mátt setjast að matborði þínu og sjáðu allt, sem þú þiggur í dag, og hugsaðu um allt sem þú getur gefið í dag og athugaðu alla möguleikana til góðs, sem þessi nýi dagur býr yfir, og mundu, hvað það er dásamlegt og óviðjafnanlegt, að þú skulir fá að lifa og draga andann og starfa og þakka og gleðjast, og rekum nú burt alla ólund, efasemdir, tvíátta hug og gamlar væringar og fögnum deginum heils hugar og hefjum hvern dag með bæn, svo að himinninn opnist yfir höfðum okkar og náð Drottins streymi niður yfir okkur sem erum og höldum áfram að vera börnin Hans, jafnt í lífi sem í dauða, Hans um alla eilífð og höfum þess vegna nákvæmlega ekkert að óttast.

Kristin kirkjan á sér annan nýársdag en þann, sem svo er merktur í almanakinu, það er fyrsti sunnudagur í jólaföstu, og mörgum finnst besti nýársdagurinn vera sumardagurinn fyrsti og nú er ekki langt þangað til við fáum aftur að sjá sólina og þeir endurfundir snerta við streng í brjósti hvers einasta manns, það er eins og að hitta aftur ástvin sinn eftir langan aðskilnað, þá göngum við út úr rökkrinu og inni í ljósið skæra, „blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur“ og bráðum finnum við geisla hennar ylja dal og hól og blessaðar skepnurnar og manneskjuna með og allt, sem andar. Og það er tími til að strengja heit með hækkandi sól, byrja nýtt líf, því það er nýársdagurinn mesti og besti, þegar nýja lífið hefst, gildir einu hvaða dagur er á almanakinu þá stundina, því að nú hefur ný fæðing orðið, af því að við erum sjálf orðin ný í einhverjum skilningi, augu okkar hafa opnast með öðrum hætti en fyrr, við höfum jafnvel spennt greipar og þakkað Guði innra með okkur, ekki í hávaðasamri bæn, heldur í hljóðlátu andvarpi, sem felur í sér vitund þess að þú mátt vera það sem þú ert, Guðs barn, sem þiggur allt það, sem mestu skiptir, og getur þess vegna byrjað að gefa öðrum.

Guð gefi okkur öllum gleðilegt nýár, atvinnu til lands og sjávar og krafta til þess að stunda hana, meðan dagur er. Guð gefi okkur líka kærleika hverju til annars.

Gleðilegt nýár.

Höfundur er pastor emeritus.

Höf.: Gunnar Björnsson