40 ára Björn, sem er kallaður Bassi eins og afi hans, er fæddur í Kaupmannahöfn þar sem foreldrar hans voru við nám og vinnu. Bassi ólst upp á Norðurbrú í Kaupmannahöfn til 12 ára aldurs. Hann flutti þá heim með foreldrum og yngri bróður í Teigana í Reykjavík. Hann bjó einnig í eitt ár í Tansaníu þegar hann var átta ára. Þegar fjölskyldan flutti heim til Íslands fór Bassi í Laugalækjarskóla og hóf að æfa knattspyrnu með Þrótti.
Bassi er stúdent frá Menntaskólanum við Sund 2004 og er menntaður arkitekt frá Listaháskóla Íslands og Det Kongelige Akademi í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan 2014. Í dag starfar Bassi á arkitektastofunni Nordic við fjölbreytt verkefni en hann hefur meðal annars starfað á teiknistofu í Edinborg í Skotlandi og KHR í Kaupmannahöfn. „Ég bý í dag í Ljósheimunum í Reykjavík en mér þykir gott að skreppa norður til Akureyrar þangað sem ég á ættir að rekja.“
Áhugamál Bassa eru fjölskyldan, útivera og fluguveiði. „Ég er duglegur að veiða í vötnum og ám í kringum Reykjavík.“
Fjölskylda Maki Bassa er Mette Kousholt, f. 1990 í Herlev, félagsfræðingur. Dóttir Bassa frá fyrra sambandi er Salka, f. 2013 í Kaupmannahöfn. Foreldrar Bassa eru hjónin Anna Margrét Björnsdóttir, f. 1962, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, og Reynir Viðarsson, f. 1960, verkfræðingur hjá Ístaki, búsett í Reykjavík. Bróðir Bassa er Birkir Reynisson, f. 1991, doktor í lífefnafræði hjá Novo Nordisk.