Aðkallandi verkefni eru mörg en bolmagnið til að takast á við þau er fyrir hendi

Viðburðaríkt ár er að renna sitt skeið. Mannkyn hefur sennilega aldrei verið jafn vel sett og um þessar mundir. Framfarir í tækni og vísindum hafa tryggt þorra jarðarbúa betri lífskjör en áður hafa þekkst á jörðinni. Velmeguninni er þó misskipt.

Í erlendum fréttum hafa stríð yfirgnæft flest annað. Stríðið í Úkraínu heldur áfram engum til ávinnings. Mannfallið er yfirgengilegt og eyðileggingin mikil. Hörmungarnar á Gasa eru einnig hryllilegar og þarf að binda enda á þær sem fyrst. Stríðið í Súdan kemst sárasjaldan í fréttir, en það er ekki síður hrollvekjandi, milljónir á vergangi, hungursneyð blasir við og ofbeldið gegndarlaust.

Loftslagsbreytingar hafa líka valdið því að fólk hefur flosnað upp. Þrálátir þurrkar hafa torveldað landbúnað þar sem hann tryggði áður afkomu.

Því fylgja vandamál um allan heim þegar tugmilljónir manna eru á faraldsfæti vegna þess að þeim er ekki vært í sínum heimkynnum, hvort sem það er vegna stríða eða loftslagsbreytinga. Það er kannski eitt helsta viðfangsefni okkar tíma að koma í veg fyrir að fólk flosni unnvörpum upp frá heimkynnum sínum.

En það eru ekki bara hörmungar. Gervigreindin er mikið til umfjöllunar. Þar ber mest á umræðu um að hún muni kippa fótunum undan menningu og listum og jafnvel verða til þess að maðurinn missi fótanna gagnvart þessari nýjung.

Gervigreindin er hins vegar þegar farin að hafa áhrif til framfara. Með henni er á stuttum tíma hægt að fá ýmsu áorkað í vísindum, sem annars tæki mánuði, ef ekki ár. Gervigreindin gæti orðið til þess að lækning finnist við ýmsum meinum, sem hingað til hafa verið erfið viðureignar og jafnvel óviðráðanleg.

Í kennslu sjá menn fram á að hún geti létt endurtekningarsömum verkum af kennurum þannig að þeir geti einbeitt sér betur að því að hjálpa einstökum nemendum að blómstra.

Heima fyrir hefur mikið gengið á. Eldsumbrotin á Reykjanesskaga hafa haldið áfram og hugurinn er hjá Grindvíkingum í raunum þeirra.

Haldnar voru tvennar kosningar, aðrar eins og ráð var fyrir gert, hinar tæpu ári á undan áætlun.

Halla Tómasdóttir vann forsetakosningarnar með óvæntum yfirburðum og verður fróðlegt að sjá hvernig hún mun setja mark sitt á embættið.

Ríkisstjórnin sprakk þrátt fyrir að horfur væru loks að vænkast í efnahagsmálum, verðbólgan byrjuð að hjaðna og vaxtalækkanir hafnar. Allt benti til – og bendir enn – að án óvæntra uppákoma eða kúvendinga í hagstjórninni myndi sú þróun halda áfram og draga úr þrengingum.

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hefur því góð spil á hendi og getur ekki kvartað undan því að það hafi verið vitlaust gefið.

Staðreyndin er sú að Ísland hefur staðið af sér kórónuveirufaraldur og eldsumbrot af mikilli seiglu, sem ber því vitni hvað íslenskt efnahagslíf stendur styrkum fótum.

Atvinnuleysi á Íslandi er með minnsta móti og ekki er minna um vert að atvinnuþátttaka er hér mun meiri en gengur og gerist í kringum okkur. Hér er mun hærra hlutfall fólks á vinnualdri virkt í atvinnulífinu.

Íslendingar hafa sennilega aldrei haft það betra. Breska vikuritið The Economist birti í sumar lista yfir ríkustu þjóðir heims og setti þar Ísland í sjöunda sæti. Ugglaust finnst mörgum þeir ekki verða varir við þetta ríkidæmi og ýmislegt má hér betur fara. Nefna má heilbrigðiskerfið, vegi landsins, ófullnægjandi árangur nemenda í grunnskólum og orkumál. Á öllum þessum sviðum eru Íslendingar í stöðu til að bæta úr, en þá þarf líka að sýna ráðdeild og varast að sólunda tíma og fé í hluti, sem litlu eða engu skila.

Þar koma fyrst í hugann hugmyndir um að ráðast í Evrópusambandsleiðangur þegar viðsjár eru í sambandinu og Ísland í raun í betri stöðu og með heilbrigðara efnahagslíf en flest ef ekki öll þau lönd, sem innan þess eru. Þá er enginn vafi á því að verja mætti því fé, sem ætlunin virðist vera að eyða í borgarlínu, með betri og skilvirkari hætti.

Nú er tími áramótaheita og góðs ásetnings. Gömul rannsókn í öðru landi sýndi að helmingur íbúanna strengdi áramótaheit. Hálfu ári síðar stóð aðeins helmingur þeirra sem heitið strengdu enn við það. Eftir tvö ár var sú tala komin niður í 20% og flestir þeirra sem höfðu haldið út höfðu misst þráðinn einhvern tímann, en tekið hann upp aftur.

Kannski er ástæðan sú að fyrirheitið var óraunhæft eða þá að hugur fylgdi ekki máli.

Þetta er ekki sagt til að draga úr. Við strengjum áramótaheit vitandi af okkar breyskleikum og þótt ekki takist öllum að standa við þau er ekkert því til fyrirstöðu að okkur takist það.

Gleðilegt ár.