Gæsagangur Leiðtogi Norður-Kóreu ásamt öðrum þarlendum fyrirmönnum sést hér á minningarstund um fyrrverandi leiðtoga Kóreuríkisins.
Gæsagangur Leiðtogi Norður-Kóreu ásamt öðrum þarlendum fyrirmönnum sést hér á minningarstund um fyrrverandi leiðtoga Kóreuríkisins. — AFP/KCNA
Pjongjang hefur sent um 11 þúsund hermenn til aðstoðar Rússum í orrustunni um Kúrsk-hérað. Sérfræðingur í hugveitu sem einblínir á málefni og stöðu Norður-Kóreu segir hluta herliðsins vera í hópi „úrvalshermanna“, það besta sem Norður-Kórea hefur upp á að bjóða

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Pjongjang hefur sent um 11 þúsund hermenn til aðstoðar Rússum í orrustunni um Kúrsk-hérað. Sérfræðingur í hugveitu sem einblínir á málefni og stöðu Norður-Kóreu segir hluta herliðsins vera í hópi „úrvalshermanna“, það besta sem Norður-Kórea hefur upp á að bjóða. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna (Pentagon) segir mannfall í röðum norðurkóreskra hermanna mikið, fallnir og særðir eru vel yfir eitt þúsund á viku tímabili.

„Þetta er hluti af úrvalshermönnum Norður-Kóreu. Þeir eru með sérþjálfun í að yfirtaka landsvæði og halda þeim. Það verður þó að hafa í huga að hluti af þessu herliði er einnig það sem kalla mætti almenna hermenn, eða fótgönguliða,“ segir Jenny Town, sérfræðingur hjá hugveitunni Stimson Center, í samtali við Deutsche Welle.

Kænugarðsstjórnin hefur staðfest mikið mannfall Norður-Kóreumanna og segir herstjórn Rússlands nota þá sem fallbyssufóður í Kúrsk. Town segir Pjongjang vel meðvitað um stöðuna og telur að mikið mannfall muni auðvelda Norður-Kóreu að fá enn frekari aðstoð frá Rússlandi, þá einkum hvað viðkemur tækniþekkingu sem nýst getur til að þróa og framleiða öflugari eldflaugar.

„Þetta er í raun blóðskuld. Þeim mun meira mannfall á vígvellinum því meiri aðstoð telja þeir sig geta sótt til Rússlands. Hún gæti verið á sviði efnahagsmála og hernaðarsamvinnu. Við höfum þegar séð rússneskar herþotur í Norður-Kóreu sem sendar voru þangað til að hjálpa þeim að uppfæra gamla sovéska tækni,“ segir hún og bætir við að eldflauga- og gervitunglaáætlun Norður-Kóreu séu einnig ofarlega á óskalista Pjongjang.

Bæði Kóreuríkin þátttakendur

Stjórnvöld í Seúl hafa einnig skipt sér af átökunum í Úkraínu og veita Suður-Kóreumenn hernaðaraðstoð í formi sérfræðinga sem hafa mikla þekkingu á hernaðartaktík norðanmanna. Suður-Kórea hefur þó til þessa ekki veitt aðstoð í formi vopnasendinga. Segir Town það vera vegna þess að þarlend lög heimili ekki beina aðstoð. Vilji Seúl senda vopn til Úkraínu mætti nota NATO sem millilið.

Höf.: Kristján H. Johannessen