Stefán Karlsson
Hátíðarfundurinn á Þingvöllum 17. júní 1944 markaði endalok á langri sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar. Þá var lýðveldisstjórnarskráin fyrir Ísland löggilt og stjórnskipulag sjálfstæðs ríkis á Íslandi ákveðið. Fullveldi landsins var óafturkræf ákvörðun, bindandi fyrir komandi kynslóðir. Sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar var ekki aðeins þjóðernislegt metnaðarmál heldur undirstaða þess að þjóðinni vegnaði vel efnahagslega. Sjálfstæðisbaráttan var raunsæisstefna í fullvissu þess að þjóð, sem væri ráðandi málum sínum og óháð annarra íhlutun, gæti því aðeins orðið farsæl að hún væri fullvalda og sjálfstæð og í engu hluti af stærri ríkisheild eða heimsveldi.
Í tímans rás hafa þær raddir orðið sífellt áleitnari að fórna skuli fullveldinu á altari viðskiptahagsmuna. Látið er að því liggja að ekki sé hægt að halda uppi viðskiptum við ríkjabandalag Evrópu öðruvísi en að vera þar fullgildur aðili. Samkvæmt þessari afstöðu hefur fullveldi Íslands og sjálfstæði ekki meira vægi en svo að það hefur verið gert að pólitísku þrætumáli, söluvöru og skiptimynt rétt eins og hvert það mál sem rekið er í sérhagsmunaskyni. Helstu talsmenn þessarar afstöðu eru einkum íslenskir fjármagnseigendur, verslunar- og viðskiptaauðvaldið, tiltölulega fámennur hópur auðmanna, sem vill fá ótakmarkað frelsi til að flytja auð sinn úr landi og ávaxta hann þar sem arðsvonin er mest. Þessir menn hafa uppi háværan áróður fyrir því að gera að engu rökin fyrir stjórnarfarslegu sjálfstæði landsins og ógilda þau andlegu verðmæti og pólitísku gildi sem þjóðin hefur ánunnið sé með því að verða stjórnarfarslega frjáls og fullvalda. Jafnframt hafa þeir unnið skipulega að því að gera sem minnst úr afrekum lýðveldistímans.
Til að réttlæta fullveldisafsal Íslands beita Evrópusinnar þeim rökum að þjóðríkið hafi gengið sér til húðar. Nauðsynlegt sé að endurskoða skilgreiningu sjálfstæðis- og fullveldishugtaksins, laga það að „staðreyndum nútímans“ eins og það er orðað. Þessi afstaða birtist t.d. með skýrum hætti í grein eftir Þröst Ólafsson hagfræðing í Vísbendingu 6. september 2024 undir nafninu: „Fullveldi – hvað er nú það?“ Þar segir Þröstur að fullveldi Íslands sé best borgið með því að deila því gegn hlutdeild í fullveldi annarra, einkum stærri ríkja. Danir hafi t.d. afsalað sér óskoruðu fullveldi gegn því að fá í staðinn hlutdeild í fullveldi Þýskalands og annarra sambandsríkja ESB. Spyrja má hvað Íslendingar hafa með það að gera að eignast hlutdeild í fullveldi Þýskalands.
Það er líka með öllu ósannað mál að með inngöngu í Evrópusambandið sé verið að tryggja atvinnu- og viðskiptahagsmuni Íslendinga í heild. Hitt er miklu líklegra að með aðild sé beinlínis verið að stofna atvinnu- og viðskiptahagsmunum landsins í voða. Þegar litið er nánar á hverjir meginhagsmunir Íslendinga eru hvað varðar auðlindir og bjargræðisvegi þá verður fyrst fyrir að nefna auðlindir sjávarins – fiskinn í sjónum – og nýtingu þeirra, fiskveiðar og fiskiðnað. Það er enginn vafi á því að stjórnarskrá Evrópusambandsins gerir auðlindanýtingu að alríkismáli. Um það verður ekki samið. Aðild Íslendinga að Evrópusambandinu er því frá efnahags- og viðskiptasjónarmiði hreint glapræði.
Nýja ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að Íslandi sæki um aðild að Evrópusambandinu, miðstýrðu meginlandsveldi sem er þjakað af stórfelldu atvinnuleysi og efnahagslegri stöðnun. Í stað þess að líta á sig sem varnarmenn sjálfstæðis og fullveldis Íslands á grundvelli stjórnarskrár lýðveldisins gengur þessi stjórn erinda erlends alríkisvalds.
Með inngöngu í Evrópusambandið er hætt við því að Íslendingar glati svo miklu meira en fullveldinu. Menningin er t.d. ekkert einangrað fyrirbæri. Engum getur blandast hugur um það að viðtekin móðurmálsstefna er svo nátengd sjálfstæðis- og fullveldishugmyndinni að hún verður ekki söm því meira sem þjóðin afsalar sér fullveldi sínu. Stórríki á borð við Evrópusambandið fær vart staðist til framtíðar nema dregið verði úr menningarmun innan þess með hliðstæðum hætti og það er grundvallarstefna að efnahagskerfið lúti einum, óundanþægum lögum. Stefnt verður að því að koma á yfirþjóðlegri alríkismenningu sem m.a. byggist á því að fækka tungumálum. Sterkum áróðri verður haldið uppi til að sýna fram á að lítil málsamfélög séu úrelt enda Þrándur í Götu einingarhugsjónar Evrópuríkisins. Það liggur beint við að álykta að í víðlendri margra hundraða milljóna ríkisheild verði talið of kostnaðarsamt og óarðbært, dýrt sport og fortíðarhyggja að halda við litlum málsamfélögum.
Aðildin að Evrópusambandinu er svo róttækt fullveldisafsal að hún þverbrýtur lýðveldishugsjónina frá 1944 og fullveldisviðurkenninguna frá 1918. Með inngöngu er hætt við að Ísland verði eins konar gervilýðveldi af þeirri tegund sem látin yrði klæðast þjóðbúningi á bjórhátíðum til að undirstrika menningarfjölbreytnina í Bandaríkjum Evrópu. Minningaratburðir í tengslum við sjálfstæðisbaráttuna verða þá hreinn skrípaleikur.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og eftirlaunaþegi.