„Það er stuð að fá verðlaun. Maður heldur smápartí eins og síðast og fagnar. Ólíkt því sem reynt er að klína á okkur sem höfum ekki haft það af að deyja ung, þá minnkar stuðið ekkert með árunum, að minnsta kosti ekki mitt.“
Steinunn Sigurðardóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka í janúar.
„Ég var búinn að vera að grúska í þessum gömlu bókmenntum lengi og þreifa svolítið fyrir mér með þýðingar fyrir skúffuna. Þegar ég byrjaði á þessu var ég í fullri vinnu í gjörólíku starfi. Það er kannski gott, að vera á daginn í einhverju allt öðruvísi og fara svo inn í þetta þegar tíminn gefst.“
Jón Erlendsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2024 fyrir þýðingu sína á Paradísarmissi eftir John Milton í febrúar.
„Ef ég á að vera alveg heiðarleg átti ég kannski innst inni svolítið von á þessu. Ég er ekkert að blammera aðrar sem voru tilnefndar í mínum flokki, en ég ber höfuðið hátt, því þetta er rosalega flott verk sem ég fékk heiðurinn af að ritstýra og ganga frá til prentunar. Þetta er ekki mitt hugverk, heldur Elsu E. Guðjónsson heitinnar.“
Lilja Árnadóttir tók við Fjöruverðlaunum í flokki fræðirita fyrir Með verkum handanna í mars.
„Ég er því mjög meðvituð um þessa yfirtöku sem kapítalisminn er. Hugmyndafræði mín er sú að vera ég sjálf en þannig held ég að flestir listamenn vinni að mestu leyti. Við erum bara manneskjur hér á þessari jörð í samhengi við náttúruna. Ég vakna á morgnana og er hlessa yfir að þetta sé ástand heimsins. Sérstaklega þetta mennska ástand. Við erum í raun svo hjákátleg í stóra samhenginu en lítum svo á okkur sem drottnara.“
Hildigunnur Birgisdóttir var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist í apríl.
„Það verður varla miklu stærra en það. Ég vil þó nefna það sérstaklega að kvikmyndagerðin er samvinna þannig að ég lít svo á að þessi heiður tilheyri líka öllum þeim sem ég hef unnið mest með á ferlinum, í bíómyndunum, heimildarmyndunum og öllu öðru efni sem ég hef verið að vinna að.“
Sigurður Sverrir Pálsson kvikmyndatökustjóri hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar í apríl.
„Skömmu síðar hitti ég frænda minn Hörð Bjarnason sendiherra. Hann sagðist vera í smá vanda því hann hefði fundið kassa fullan af stílabókum langafa okkar, sem innihéldi Shakespeare-þýðingar. „Ert ÞÚ með kassann?“ spurði ég, eins og ég hefði leitað hans árum saman.“
Guðrún Pétursdóttir, einn afkomenda Indriða Einarssonar (1851-1939) sem afhentu Landsbókasafninu sex áður talin glötuð handrit að þýðingum hans á Shakespeare í apríl.
„Mér finnst mjög gott að vinna með hljómsveitinni og ég held að hljómsveitinni finnist gott að vinna með mér. Því höfum við virkilega lagt okkur fram um að finna tíma til að vinna saman á hverju ári, síðustu þrjú ár. Við höfum mætur hvort á öðru og tengingin er gagnkvæm.“
Barbara Hannigan, verðandi aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kom fram með sveitinni í apríl.
„Níutíu prósent barna fara í frí í bústað, í tjaldútilegu eða til útlanda svo munið almennt að nesta börn með bókum. Sjáið til þess ávallt og í öllum aðstæðum að þau séu með bók meðferðis í töskunni.“
Gunnar Helgason og Bergrún Íris Sævarsdóttir fögnuðu útgáfu smásagnasafnsins Læk í apríl.
„Að vera samstarfsfús og virða þá sem maður er að vinna með,“ sagði heiðursverðlaunahafi Grímunnar þegar hún var spurð hvort hún ætti einhver heilræði handa ungu fólki sem er að feta sín fyrstu spor á leiksviðinu í dag.
Margrét Helga Jóhannsdóttir hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands í maí.
„Kannski breyta ljóð ekki veröldinni, hins vegar er líklega margreynt að veröldin breytir ljóðinu, og samt er það kannski alltaf í eðli sínu hið sama, vitnisburður um einstaklinga og tegund í því formi sem er einstakt og ólíkt öðrum listformum.“
Gyrðir Elíasson hlaut Maístjörnuna fyrir ljóðabókatvennuna Dulstirni / Meðan glerið sefur í maí.
„Ég vildi óska þess að ég gæti sett hljóðfærið mitt í kassa og lifað eðlilegu lífi inn á milli. Það myndi gera lífið einfaldara eða ég ímynda mér það. Ég ber hljóðfærið mitt með mér alla daga og það krefst einveru. Ég get ekki leyft mér að sletta úr klaufunum eins og aðrir og vakað fram eftir.“
Norska óperustjarnan Lise Davidsen kom fram á Listahátíð í Reykjavík í júní.
„Afturámóti er nýtt, íslenskt sviðslistahús sem leggur áherslu á að taka á móti ungu fólki og veita því pláss til að koma list sinni á framfæri án fjárhagslegrar áhættu.“
Ingi Þór Þórhallsson, einn stofnenda sviðslistahússins Afturámóti sem var með aðsetur í Háskólabíói í júní.
„Við eigum það sameiginlegt að vilja aldrei lúffa fyrir neinum, en þó að við höfum stundum verið ósammála þá höfum við alltaf fundið einhverja lausn eða leið til að láta hlutina ganga upp. Já, mér finnst bara hafa verið ótrúlega gaman að búa til list saman og það skapar alveg ný tengsl og mun nánari vináttu.“
Tónlistarmennirnir Bríet og Birnir gáfu saman út plötuna 1000 orð í júní.
„Ísland hefur alltaf verið eins og land drauma minna. Þegar ég var unglingur varð ég fyrir miklum áhrifum frá íslenskri tónlist eins og múm, Sigur Rós og auðvitað Björk. Fyrir mér var þetta eins og einhver töfratónlist frá mjög áhugaverðu landi.“
Diana Burkot, trommuleikari Pussy Riot, annar höfundur margmiðlunarlistaverksins POPeru sem var hluti af Listahátíð í Reykjavík í júní.
„Þetta hljómar kannski undarlega en ég tek mér aldrei frídag og fer aldrei í frí því ég elska vinnuna mína. Ég elska það mikið að vinna að tónlistinni minni, vinna að aktívisma og búa til verkefni að ég get ekki hugsað mér að taka frídag.“
Bandaríski tónlistarmaðurinn Moby í einkaviðtali við Morgunblaðið í júlí.
„Nú er hins vegar þjóðarópera í farvatninu og ég vona að það verði af henni. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur lagt gríðarlega vinnu í að undirbúa hana og ég held að það sé gífurlega mikilvægt fyrir Ísland að eiga sína eigin þjóðaróperu. Maður vonar bara að samstarfsflokkar á þingi komi sér saman um það að standa að slíkum þjóðarsóma. Helsti draumurinn væri að setja upp Wagner-sýningu á Íslandi.“
Þorleifur Örn Arnarsson leikstýrði Tristan og Ísold eftir Richard Wagner á Bayreuth-hátíð í Þýskalandi í júlí.
„Valdníðsla er gegnumgangandi þema í seríunni, og ég hata hana. Þess vegna hef ég í hverri einustu bók sýnt fram á nýjar leiðir til að brjóta hana á bak aftur [...]. Ég vona að þeir lesendur mínir sem standa frammi fyrir valdníðslu af þessu eða öðru tagi – hvort sem það er á vinnumarkaði eða í einhverju allt öðru samhengi – öðlist hugrekki til að vinna gegn og losna undan henni.“
Danski glæpasagnahöfundurinn
Jussi Adler-Olsen hefur lokið við tíu bóka seríu um Deild Q og veitti Morgunblaðinu viðtal í ágúst.
„Ég hugsaði með mér að ég gæti auðvitað ekki samið almennilegar reglur án þess að spyrja krakka hverju þau myndu í raun og veru breyta ef þau fengju að ráða. Útkoman var bæði óvænt og skemmtileg. Krakkar hafa svo sannarlega skoðanir og það er hrikalega gaman að hlusta á þær.“
Ævar Þór Benediktsson tók við Barnabókaverðlaunum Guðrúnar Helgadóttur fyrir handritið að bókinni Skólastjórinn í september.
„Tjarnarbíó er aðalmiðstöð sjálfstæðu leikhópanna. Við erum ekki með fastan leikhóp eins og hin stóru leikhúsin heldur koma hinir og þessir hópar inn. Í fyrra voru 300 manns sem komu fram á sviðinu hjá okkur, sem er töluverður fjöldi sé litið til þess að við erum bara með eitt svið og svo annað lítið í forsalnum. Hér er því mikil rótering og margar ólíkar sýningar en þetta er án efa mest notaða svið landsins.“
Snæbjörn Brynjarsson, nýr leikhússtjóri Tjarnarbíós, í september.
„Maður ræður svolítið hvernig maður lítur á þetta. Maður getur litið á þetta sem einhvers konar einvígi en ég hef engan áhuga á því. Þetta snýst ekki um hvort okkar spilar betur heldur um að lyfta hvort öðru upp. Það að spila á tvo flygla er list þess að ögra en líka list örlætisins. Stundum er samtal tveggja einstaklinga það áhugaverðasta í listinni.“
Víkingur Heiðar Ólafsson flutti efnisskrá fyrir tvo píanista ásamt
Yuju Wang í Eldborg í október.
„Nú er stríðið líka svo nálægt okkur á ný. Ég sat og borðaði hádegismat í Norræna húsinu með hinum verðlaunahöfunum og þá sló þögn á hópinn þegar hersing Selenskís keyrir með bláu ljósin fram hjá. Tímarnir sem við lifum núna eru líka svona.“
Norðmaðurinn Niels Frederik Dahl tók við bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs í Reykjavík í október.
„Mér finnst þessi verðlaun vera viðurkenning til okkar allra sem erum að ýta á tilteknar breytingar í kerfinu. Þetta er vaxandi hreyfing verkfræðinga, arkitekta, vísindafólks, rithöfunda og fleiri sem eru að tala um umhverfismál tengd mannvirkjagerð og ég er bara einn hluti af því.“
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt vann umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í október.
„Það er búið að vera mikið álag að sinna þessu síðastliðið ár, eða allt frá því að þetta var tilkynnt, sem og að vera að klára svona mikla skáldsögu. Mér líður svona eins og ég sé búinn að vera að halda barnaafmæli á hverjum degi í heilt ár.“
Hallgrímur Helgason, myndlistarmaður og rithöfundur, í tengslum við yfirlitssýningu hans Usla sem var opnuð á Kjarvalsstöðum í október.
„Fyrir mér snerist þetta um að vera lítill strákur og langa til að spila á stærsta hljóðfærið. Bassinn var auðvitað langstærstur svo ég varð að miðla málum við foreldra mína sem sögðu að sellóið væri stærsta hljóðfæri sem fjögurra ára strákur gæti spilað á. Ég lofaði því að halda mig við það.“
Bandaríski sellóleikarinn Yo-Yo Ma spilaði á tvennum tónleikum í Eldborg Hörpu í október.
„Þetta er gríðarlegur heiður og ótrúleg hvatning. Mitt aðalstarf er að flytja gamanmál og uppistand munnlega og til þess hef ég notað íslenska tungumálið. Ég flyt langmest á íslensku þó svo ég noti ensku líka en íslenskan kemur alltaf fyrst.“
Ari Eldjárn, uppistandari og textasmiður, hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu í nóvember.
„Ég myndi glaður búa á Íslandi. Þetta er einn magnaðasti staður sem ég hef heimsótt. Ég get ekki beðið eftir að koma aftur. Fólkið, landslagið, maturinn, menningin og norðurljósin. Ísland er staður undurs og töfra.“
Breski metsöluhöfundurinn David Walliams kom fram á Iceland Noir í Hörpu í nóvember.