Orrustuflugvél Tékkneskar JAS-39 Gripen komu síðast til landsins 2016.
Orrustuflugvél Tékkneskar JAS-39 Gripen komu síðast til landsins 2016. — Ljósmynd/NATO
Allt að 95 tékkneskir hermenn á vegum tékkneska flughersins eru væntanlegir til landsins næsta sumar til að sinna loftrýmisgæslu. Um er að ræða fjórða sinn sem Tékkar sinna vörnum Íslands með þessum hætti en síðast komu þeir til landsins 2016

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Allt að 95 tékkneskir hermenn á vegum tékkneska flughersins eru væntanlegir til landsins næsta sumar til að sinna loftrýmisgæslu. Um er að ræða fjórða sinn sem Tékkar sinna vörnum Íslands með þessum hætti en síðast komu þeir til landsins 2016.

Fram kemur á vef tékkneska þingsins að til standi að nota sænskar orrustuflugvélar af gerðinni JAS-39 Gripen, framleiddar af Saab, eins og undanfarin þrjú skipti sem Tékkar hafa sinnt loftrýmisgæslu hér á landi.

Tilgangur loftrýmisgæsluverkefnisins er að mæta eftirlits- og viðbragðsþörfum Íslands á friðartímum og verja lofthelgi Atlantshafsbandalagsins, NATO. Aðildarríki bandalagsins hafa vegna mikilvægrar landfræðilegrar legu Íslands skipst á um að sinna verkefninu allt frá því að Bandaríkin ákváðu að loka herstöð sinni í Keflavík árið 2006.

Tékkneska þingið samþykkti nýverið dreifingu útsendra hermanna Tékklands árin 2025-2026 en Vera Kovarova forseti þingsins sótti Ísland heim síðastliðið sumar ásamt fulltrúum úr utanríkismálanefnd tékkneska þingsins.